17.05.1949
Efri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (3421)

155. mál, réttindi kvenna

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson) :

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, reyndi ég að gera mér dálitla grein fyrir því, sem hæstv. dómsmrh. talaði um, og fann nokkur ákvæði í l., þar sem konan er ekki jafnrétthá og maðurinn, en fann fleiri ákvæði, þar sem hún er í raun og veru rétthærri. Það er mjög mikið talað um þessi mál, og eins og kemur fram í þessu frv., sem hér um ræðir, þá er þetta almennt orðalag, sem flm. er með í frv., sem ekkert segir um, hverju skuli breytt og hvernig. Ég hef þess vegna hugsað mér sem flm. að þessari rökst. dagskrá, að með því að fela ríkisstj. að rannsaka þessi mál, kæmi hið rétta í ljós, og þá mundi það sjást, og það er ekki svo ýkja mikill munur á rétti karls og konu, og að hann er nokkuð sitt á hvað í hinum einstöku málum. Nú er krafan yfirleitt sú, að konan hafi sama rétt og karlmaðurinn. Nú hefur hún að vissu leyti meiri rétt. Hún má giftast 18 ára, en karlmaðurinn ekki fyrr en 21 árs. Hún má ein fara á hjúkrunarkvennaskóla og ljósmæðraskóla, en þar mega karlmenn alls ekki koma. Hún fær eftirlaun, þegar maður hennar fellur frá, hafi hann haft embætti, t. d. verið barnakennari. En ef kvenmaður er barnakennari og hún deyr, fær maðurinn ekki eftirlaun. Þarna vil ég láta skapa jafnrétti hjá báðum aðilum. Ég vænti þess vegna, að rökst. dagskráin verði samþ., þannig að ráðh. láti leggja vinnu í að rannsaka, hvernig þetta liggur, svo að sá misskilningur, sem nú er mjög ríkjandi í landinu um það, að konan sé réttminni en karlmaðurinn, megi hverfa, þannig að enginn metingur verði um það í framtíðinni, að annað kynið sé rétthærra, en hitt.