17.05.1949
Efri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (3422)

155. mál, réttindi kvenna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Mér heyrðist núv. hv. form. n. færa rök að því, sem ég vissi áður, að konur væru í mörgum tilfellum rétthærri, en karlmenn. Ef ætlunin er að leiðrétta þetta og hlutast til um, að karlmenn komist inn á ljósmæðraskóla og hjúkrunarkvennaskóla, sé ég ekki betur, en að það verði að orða till. dálítið öðruvísi. Það getur verið, að þetta felist í till., ef mjög vandlega er að gáð, en fljótt á litið getur maður ekki komið auga á það. Væri gott að fá skýringu á því hjá n., hver ætlun hennar er í þessu, og hygg ég, að rétt væri að taka þá till. aftur til 3. umr. og athuga betur orðalag hennar, ef meiningin er að fá þessu réttlætismáli karlmannanna fullnægt, þannig að þeir að þessu leyti fengju jafnrétti á við konurnar.

Varðandi þá staðhæfingu hv. 1. þm. N-M. (PZ), að það væri útbreidd skoðun um landið, að konur hefðu að ýmsu leyti minni rétt en karlmenn, þá vil ég segja það, að ekki er hægt að búast við, að einhver athugun af hálfu ríkisstj. mundi eyða þeim misskilningi, enda ekki líklegt, að sú athugun leiddi til neins. Ég get ekki skilið, að slík leiðrétting á rangsnúnu almenningsáliti mundi verða afleiðingin af samþykkt þessarar rökst. dagskrártill. En þar að auki vil ég benda hæstv. forseta á það, að ég hygg, að sá háttur sé hafður á afgreiðslu mála frá hæstv. Alþ., að þótt rökst. dagskrár feli í sér áskoranir til ríkisstj., sé a. m. k. ekki föst venja, að þær séu afgr. til ríkisstj. og vilji þess vegna oft gleymast. Við vitum, að það er tilviljun, hvort ríkisstj. eða ráðh. eru viðstaddir, þegar slíkar rökst. dagskrár eru samþ. Og þótt svo væri, væri varla við því að búast, að þeir legðu þær á sitt eigið minni í öllum þeim fjölda mála, sem koma fyrir Alþingi. Hitt vitum við líka, að umræðupartur alþt. kemur nú ekki út fyrr en 4–5 árum eftir að ræðurnar eru fluttar, þ. e. prentun ekki lokið fyrr, svo að þegar af þeirri ástæðu er mjög hæpið, að ríkisstj. fái yfirleitt á formlegan hátt að vita um þær rökst. dagskrár, sem samþ. eru, og vildi ég í tilefni af þessari dagskrártill. beina því til hæstv. forseta, að mér sýnist, að skrifstofa Alþingis og forsetar Alþingis þurfi að athuga sérstaklega, hvaða rökst. dagskrár eru með þeim hætti, að í þeim felast áskoranir til ríkisstj., og senda þær þá ríkisstj. með sama hætti og t. d. þáltill. eru venjulega sendar.

Ég held nú, að það væri miklu líklegra til þess að leiðrétta þennan misskilning, sem hv. 1. þm. N-M. talar um, að hann gæti um hann og leiðrétti á sínum tíðu ferðum um landið, þar sem við vitum, að margt ber á góma, þó að hann sé þar aðallega í nautgripaerindum. Teldi ég því upplagt fyrir hv. þm. að taka nú upp fræðslustarfsemi í þessum efnum, auk þess sem ég heyri, að hann er nú þegar orðinn svo vel að sér í þessu, að það væri gott, að hann skrifaði um það grein, sem mundi þá verða lesin með athygli.