25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (3436)

76. mál, jeppabifreiðar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti, Það má ekki minna vera en að ég, sem þm. Eyfirðinga þakki hv. flm. fyrir að hafa borið þetta mál fram, því þó að mér finnist kannske dálítið athugavert við það að bera fram frv. um hvert atriði í þessu sambandi, þá sýnir þetta þó velvild til þessa máls, sem hér um ræðir, og eins og hann skýrði réttilega frá, lítur út fyrir, t. d. í Eyjafirði, að þessi starfsemi verði að leggjast niður sökum þess, að ekki hafa fengizt jeppar handa þeim mönnum, sem við þessa sæðingu fást. En það er vitað, að í misjöfnu færi er ekki hægt að nota aðrar bifreiðar en jeppabifreiðar, og sannleikurinn er sá, að þótt ég flytti ekki frv. um þetta mál, þá hafði ég afskipti af því áður, því að ég hafði reynt allar mögulegar leiðir hjá gjaldeyrisyfirvöldunum til þess að fá þessar 2 jeppabifreiðar, í Eyjafj., en svarið hefur verið þvert nei. Ég skal játa, að mér hugkvæmdist ekki að flytja um það sérstakt frv., að inn skyldu fluttar 2 jeppabifreiðar, og meira að segja hugkvæmdist mér það ekki, eftir að ég hafði lesið frv. eins af þm. Reykv. um það, að inn skyldi flytja eina jeppabifreið handa þingvallanefnd, því ef gjaldeyris- og innflutningsmálum er komið í það horf, að menn telji sig nauðbeygða til að flytja sérstök frv. um innflutning á einum jeppa eða 6 jeppum, þá sýnist mér í hreint óefni komið og verði ekki hjá því komizt að reyna að lagfæra það mál eitthvað, án þess að til slíkrar löggjafar komi.

Ég vona, að hæstv. forseti setji ekki ofan í við mig, þótt ég minnist ofurlítið á annað atriði, en innflutning jeppabifreiða. Ég hef fengizt við annað mál, stærra heldur en þetta jeppamál, en það er tilheyrandi niðursuðuverksmiðjunni í Ólafsfirði. Þessi niðursuðuverksmiðja er fullbúin til vinnslu og hefur verið byggð með leyfi allra yfirvalda þar til heyrandi og stuðningi ríkisins. En þegar þessi verksmiðja á að fara að vinna, þá fær hún ekki nauðsynlegt efni til þess að geta unnið, hún fær ekki fluttar inn dósir. Mér sýnist þetta afar einkennilegur þjóðarbúskapur. Ég hef heyrt þá afsökun, að ekki hafi tekizt að útvega góðan markað fyrir íslenzka niðursuðu, og þá sýnist einkennilegt, að ríkið skyldi vera að styðja að því, að þessi verksmiðja kæmist upp. Ég held það sé ekki heppilegt að verja 2 millj. kr. til þess að láta þetta hús standa þarna án nokkurra nota, og vitanlega verður að greiða vexti af því. Mér finnst þetta frv. um innflutning 6 jeppabifreiða og innflutningur á niðursuðudósum vera hliðstætt varðandi þá örðugleika, sem á því eru að fá inn í landið nauðsynlega hluti. Eins og hæstv. viðskmrh. er kunnugt, er komin hafnargerð og allmikil bryggja á Dalvík, þar hefur verið góður afli í haust og líkur til, að hann haldist, en það liggur við, að sumum bátunum sé ekki fært að halda áfram veiðum sökum erfiðleika á bryggjunni, því þegar þarf að flytja vatn í tunnum langar leiðir fram á bryggju, þá verður það töluverður aukakostnaður, sem þar leggst á. En ástæðan til þess, að svona er ástatt um vatnið þarna á bryggjunni í Dalvík, er sú, að ekki hefur fengizt innflutningur á vatnspípum, sem ekki kosta þó meira en 6.000 kr. — Mér er ljóst, að það þarf að spara innflutning, og mun ekki almennt séð verða kröfufrekur við stjórnina í því efni, en ef þarf að hætta við sæðingu eins og við höfum í Eyjafirði og ef þarf að láta verksmiðju, sem kostar 2 millj. kr., standa ónotaða í Ólafsfirði vegna þess, að ekki fást niðursuðudósir, og ef þarf að flytja vatn langar leiðir að fram á bryggju í Dalvík, af því að ekki fást 6.000 kr. fyrir vatnspípum, þá sýnist mér þetta vera allmikið öfugstreymi. Þess vegna vil ég, — jafnframt því sem ég endurtek þakkir mínar til hv. flm. fyrir að hafa tekið þetta upp, þar sem ég hafði ekki talið almennilega fært að flytja frv. um 2 jeppabifreiðar, — nota þetta tækifæri til þess að heyra, hvort hæstv. viðskmrh. hefur ekki eitthvað út af þessu að segja.