25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (3437)

76. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Þetta er nú dálítið undarleg braut, sem farið er inn á með þessu frv., þar sem lagt er til, að Alþ. taki að sér að veita innflutnings- og gjaldeyrisleyfi í staðinn fyrir þá aðila, sem hafa haft með þetta að gera hingað til, því að í rauninni er þetta ekkert annað en það, að í staðinn fyrir viðskiptan. taki Alþ. að sér að gera það. M. ö. o., þegar viðskiptan. sér ekki fært að sinna beiðni, þá er bara farið til Alþ. og lagt fram frv., sem á að ná afgreiðslu eitt út af fyrir sig, án þess að hafa hliðsjón af öðru. Það getur verið, að þetta sé leið, en ég hygg, að meðlimir þessarar hv. d. og sennilega beggja d. fengju nóg að gera, ef þeir ættu að taka þetta starf að sér. Ég held þess vegna, ef þarna er um að ræða einhverja afgreiðslu, sem ekki sé í samræmi við það, sem réttlátt er og eðlilegt, þá sé þetta ekki leiðin til þess að bæta úr því. Það var flutt frv. í Nd. um innflutning einnar jeppabifreiðar, hér eru þær 6, þá gæti maður búizt við því, að næst kæmi frv. um vatnspípur fyrir 6.000 kr. handa Dalvík, síðan niðursuðudósir handa verksmiðjunni í Ólafsfirði fyrir 5–6 þús. kr. o. s. frv. Það kann að vera, að úthlutun þessara leyfa sé ekki sem réttlátust og það mætti komast eitthvað nær því rétta en gert hefur verið, en ég hygg, að þetta sé engin eða mjög lítil lausn.

Út af þessu sérstaka máli, sem hér liggur fyrir, innflutningi jeppabíla, skal ég geta þess, að á árinu sem leið voru fluttar inn í landið á fimmta þúsund bílar og ríkisstj. var sammála um það, að það mundi vera nóg í bili, og samþykkti þess vegna að óska eftir því við innflutningsyfirvöldin, að ekki yrðu gefin út ný gjaldeyrisleyfi fyrir bílum umfram það, sem í umferð var. En þegar kom að áramótum, þá voru ekki öll gömul leyfi komin til landsins eða bílar fyrir þau, heldur voru eftir 200–400 bílar, og þá var samþykkt, að ekki kæmu aðrir bílar til greina heldur en þeir, sem greiddir voru. Það kann að vera, að þetta sé nokkuð harkaleg meðferð og hafi slæmar afleiðingar, en það er ekki búizt við því, að þetta bann vari að eilífu, heldur verði það endurskoðað, eftir því sem fjárhagsgeta gefur tilefni til og þörf er fyrir þennan innflutning. En ég skal fúslega taka á mig eða ráðun. þá sök í þessu máli að eiga þátt í því, að yfirleitt var tekið fyrir að veita leyfi, eftir að þessi ríkisstj. tók við völdum. Hvað viðvíkur niðursuðudósum til niðursuðuverksmiðjunnar í Ólafsfirði, þá skal ég geta þess að það hefur verið mjög erfitt að fá blikk í niðursuðudósir eða dósirnar sjálfar tilbúnar annars staðar frá, en frá Bandaríkjunum og upp á síðkastið erfitt þar líka. Hins vegar er ekki hægt að selja þessa vöru með sæmilegum hagnaði eins og nú standa sakir nema helzt í þeim löndum, sem við höfum clearingviðskipti við, þannig að til þess að koma þessari starfrækslu í gang þarf að kaupa til hennar rekstrarvörur í dollurum, en fá greiðslu fyrir afurðir í öðrum gjaldeyri, sem var okkur minna verðmætur. Við þetta bættist það, að þegar umsóknir niðursuðuverksmiðjunnar voru á ferðinni, þá var dollarainneign bankanna á þrotum, svo að möguleikarnir til að skaffa þetta voru litlir. Varðandi vatnspípurnar á Dalvík fyrir 6.000 kr. þá hef ég ekki heyrt það fyrr, því að það er ekki allt undir ráðun. borið, sem sótt er um, nema helzt vafaatriði, og skil ég ekki annað en að hægt verði að hafa einhver ráð með að veita leyfl fyrir þessum vatnspípum, og vona ég, að það mætti forða þinginu frá því, að borið verði fram sérstakt frv. fyrir vatnspípum á Dalvík fyrir 5–6 þús. kr.