25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (3441)

76. mál, jeppabifreiðar

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í þær deilur, sem fram hafa farið um þetta mál. En ég vil gjarna láta í ljós þá skoðun mína, að ég tel, að Alþ. sé komið inn á mjög varhugaverða braut með því að koma fram með frv. sem þetta og annað frv., sem lagt var fyrir hv. Nd. Og ég er fyllilega sammála hæstv. viðskmrh. um það, að Alþ. hafi öðru að sinna, en að taka að sér starf viðskiptanefndar í þessu efni. Mér finnst, að ofan á önnur vinnubrögð þingsins, eins og þau hafa verið, þá sé varla því við bætandi, að þessi háttur sé tekinn upp. Ég skal ekki bera neinar brigður á það, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, það kann vel að vera, að svo sé. En ég tel þessa aðferð til þess að fá leiðréttingu mála sinna alveg fjarstæða og geti ekki komið til mála. Ég mun eindregið verða á móti þessu frv., hvort sem það verður í n. eða utan nefndar.