25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (3444)

76. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Eftir því sem mér var tjáð í febrúarmánuði, að mig minnir, þá voru enn óafgreidd eitthvað á fjórða hundrað innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir bifreiðum til landsins. Af þessari tölu mun rúman helming bifreiðanna hafa verið búið að greiða í gegnum bankana hér á venjulegan hátt, þ. e. a. s. þannig, að innkaupandinn hafi lagt fé inn á bankann og bankinn síðan opnað „rembours“ fyrir vöruna eða borgað vöruna í öllu falli þannig, að peningarnir voru komnir venjulega til firmans og bifreiðarnar komnar til afgreiðslu þar.

En nokkur hluti bifreiðanna var afgreiddur, en ekki yfirfært andvirði þeirra. Hins vegar hafði viðkomandi aðili leyfi í höndunum; og var samþ. að hafa þennan hátt á, að þeir, sem voru búnir að láta bankann borga fyrir sig, skyldu fá innflutningsleyfi eins og þeir hefðu lent með þau fyrir áramótin. En þeir, sem ekki voru búnir að borga, fengu ekki sín leyfi endurnýjuð, og skyldu þau falla niður.