10.12.1948
Neðri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (3459)

97. mál, almannatryggingar

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. 6. þm. Reykv., að ég hafi haldið, að elli- og örorkustyrkurinn væri miðaður við, að menn hefðu nægar tekjur, því að ég tók það fram, að af því að styrkurinn væri ekki nema 100 kr. í grunn á mánuði, þá væri það ekki nóg, en hvað því viðvíkur, að opinberir starfsmenn hafi yfirleitt eftirlaun, þá er það rétt um flesta, nema þá, sem hafa mjög lág heiðurslaun á 18. gr. fjárlaga. Ég hef ekki á móti því, að n. athugi formið á frv., en hitt er óvefengjanlegt, að eftir ákvæðum til bráðabirgða hafa þeir engan rétt til ellilífeyris, sem hafa há eftirlaun, og það kemur ekki til mála, að menn með yfir fimmfaldar elli- og örorkubætur fái styrk samkvæmt frv. Það ætti að vera auðvelt að endurbæta l. og breyta þeim, og geri ég ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um það, að auðugir menn ættu ekki að fá ellilaun.