14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (3461)

97. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Þetta frv. fer fram á að breyta tveim ákvæðum l., í fyrsta lagi síðari málsgr. 13. gr., sem kveður á um, að „þeir, sem við gildistöku laga þessara njóta lífeyris eða eftirlauna af opinberu fé eða úr opinberum sjóðum, er sé að minnsta kosti jafnmikill og lífeyrir samkv. 15. gr., eiga ekki rétt á ellilífeyri. Ef ellilífeyrir eða eftirlaun ná eigi þeirri fjárhæð, á hlutaðeigandi rétt á því, að Tryggingastofnunin greiði það, sem á vantar, enda hafi hann náð tilskildum aldri.“ Hv. flm. vilja breyta þessu og fella ákvæðin niður. Í öðru lagi eru ákvæði til bráðabirgða, þess efnis, að fullan elli- og örorkulífeyri skuli því aðeins greiða, að aðrar tekjur styrkþega fari ekki fram úr fullum lífeyri. En séu tekjur hærri, lækki lífeyririnn um helming þess, sem umframtekjurnar nemi, og falli niður, þegar þær ásamt lífeyrinum hafa náð upphæð, sem er jafnhá þreföldum lífeyri. Þessu vilja hv. flm. breyta svo, að í stað „um helming“ komi „um einn fjórða“ og í stað „þreföldum lífeyri“ komi „fimmföldum lífeyri“. Það er eigi ósanngjarnt að ganga að þessu, en þar eð almannatryggingal. eru í endurskoðun, féllst n. á það, að ekki væri rétt að samþykkja málið, heldur láta það bíða og sjá, hvað úr endurskoðun l. verður. Leggur hún til á þskj. 336, að frv. sé afgreitt með rökstuddri dagskrá að þessu sinni.