21.02.1949
Efri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (3471)

52. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og var þá gaumgæfilega athugað í sjútvn. og vísað frá með rökst. dagskrá, og þykir mér rétt að vísa í nál. á þskj. 394 frá síðasta þingi, þar sem gerð er mjög ýtarleg grein fyrir þessu máli frá öllum hliðum, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það. Þrátt fyrir þetta þótti n. rétt að senda frv. til stjórnar fiskimálasjóðs og óska eftir umsögn frá stjórninni, ef ske kynni, að afstaðan hefði breytzt frá þeirra sjónarmiði. Umsögn sjóðsstjórnarinnar er birt sem fylgiskjal á þskj. 357, og fer umsögnin í sömu átt og skoðun meiri hl. n. um það, að ekki beri að leggja til að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir, heldur vísa því frá. Þetta álit sjóðsstjórnarinnar og meiri hl. byggist m. a. á því, að það hafi verið mörkuð ákveðin stefna í þessum málum undanfarið, þ. e. að styrkja með hagkvæmum lánum þá aðila, sem vilja koma upp fiskiðjuverum í landinu, og þetta hefur verið notað þannig, að ekki færri en 70–80 frystihúsum hefur verið komið upp á fáum árum. Hafa þessar stofnanir átt aðgang að fiskveiðasjóði, fiskimálasjóði og stofnlánadeild sjávarútvegsins, eftir því sem þessar stofnanir hafa haft fjármagn til á hverjum tíma. Væri horfið frá þessari stefnu og farið inn á þá braut, sem hér er ætlazt til, og ríkið færi að koma upp fiskiðjuverum, þá er sjáanlegt, að ekki yrði stöðvað við þennan eina stað í landinu, Hornafjörð, heldur mundu kröfur koma frá fjölda annarra staða um, að ríkissjóður kæmi þar einnig upp fiskiðjuverum, og hefur slík krafa t. d. komið frá Ísafirði í sambandi við frv., sem hér var lagt fram fyrir tveim árum um að reisa þar fiskiðjuver, því að auk þess sem þetta væri til hagsbóta fyrir mennina sjálfa, að þurfa ekki að standa sjálfir undir fjárhagslegum erfiðleikum, þá er að sjálfsögðu samkvæmt 11. gr. hagsmunamál fyrir hvert hérað, þar sem slíkt iðjuver er sett upp, að ½% af brúttóandvirði seldra afurða renni í viðkomandi sveitarsjóði. Ef farið væri inn á þessa braut, þá mundi það framkalla svo stórkostlegar kröfur frá öðrum aðilum, að ríkissjóður mundi ekki fá staðið undir þeim, og þá er hætt við, að misjafnlega yrði skipt á milli þessara staða, þar sem einn fengi svo og svo stórar fjárupphæðir til starfrækslu á sínum stað, en öðrum yrði að neita um sams konar aðstöðu. Meiri hl. sjútvn. treystir sér því ekki til að leggja til á þessu stigi málsins, að horfið verði frá þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið, og fara inn á nýjar brautir. Það hefur komið fram sú skoðun, að einstakar verstöðvar væru þannig settar, m. a. Hornafjörður, að þær séu útilokaðar frá því að geta notið þess fjárhagslega stuðnings, sem markaður er í þeirri stefnu, sem almennt hefur verið tekin, og þurfi því að gera alveg sérstaka undantekningu í þessu máli, enda komi það þá til úrskurðar Alþ., hvaða stefna yrði tekin á hverjum tíma af öllum þeim hóp, sem bæði um slíka aðstoð. Í því sambandi vil ég benda á, að aðeins á einum stað hefur verið farið inn á slíka braut, að reisa fiskiðjuver á kostnað ríkisins, og þá var sá staður valinn í Reykjavík. Ég skal ekkert um það segja, hvort Reykjavík hefur mesta þörf fyrir slíkt iðjuver, en ef svo hefur ekki verið, þá hafa þeir menn, sem völdu Reykjavík, brugðizt skyldu sinni í því að verja 8 millj. kr. í að setja upp fiskiðjuver í Reykjavík, en ganga fram hjá Hornafirði, og ég sé ekki meiri þörf á að setja upp slíkt iðjuver á Hornafirði nú en það var á þeim tíma, sem fiskiðjuverið var sett hér í Reykjavík, og því síður var ástæða fyrir ríkissjóð að taka á sig fjárhagslegar byrðar. Einnig vil ég benda á það, að það er vafasamt, hvort þetta fengi staðizt, ef 8. gr. er óbreytt, þ. e. að greiða útgerðarmönnum og sjómönnum það verð fyrir afurðirnar, sem eftir væri, þegar búið væri að greiða allan kostnað, sem tilheyrir þessari gr., og er vafasamt, að fiskiðjuverið gæti fengið nokkra viðskiptaveltu, ef fara á eftir reynslunni hér í Reykjavík, þar sem hefur orðið að lækka stórkostlega verð á hráefni til fiskiðjuversins, en það hefur samt ekki getað fengið neitt hráefni. Tapið á fiskiðjuverinu í Reykjavík er svo mikið, að hefði átt að fylgja þessari reglu hér að draga frá hráefnisverðið, þá hefði ekkert orðið eftir til að greiða til útgerðarmanna og sjómanna, sem lagt hafa hráefnið inn. Það yrði því að gera sérstakar ráðstafanir, aðrar en gert er ráð fyrir hér í frv., til þess að tryggja, að sjómenn og útgerðarmenn fengju almennt gangverð fyrir sina vöru. Ég skal ekki frekar fara inn á þetta atriði, því að ég legg ekki til, að frv. verði samþ., en ef það yrði samþ., þá þarf að athuga miklu betur 8. gr. og breyta henni frá því, sem hún er í frv.

Það hefur komið í ljós og verið skýrt frá því í sameinuðu þingi, að fiskiðjuver ríkisins, það eina, sem til er, hafi við mikla fjárhagslega erfiðleika að stríða og liggi við, að það verði selt á nauðungaruppboði, til þess að bankarnir, sem hafa lánað því fé, geti fengið tryggt sín veð og afborganir af lánum eins og vera ber, og það bendir ekki til þess, að það ætti að fara á þessum tímum inn á enn viðtækari ríkisrekstur á þessu sviði.

Meiri hl. n. leggur því til, að málið sé afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá: „Meðan ríkissjóður telur sig ekki geta lagt fram nægilegt fé til þess að ljúka byggingu fiskiðjuvers ríkisins, sem þó er talið nauðsynlegt til tryggingar betri afkomu, og meðan því er heldur eigi séð fyrir nauðsynlegu rekstrarfé þykir ekki rétt að leggja til, að ákveðið sé með lögum, að ríkissjóður skuli reisa og reka annað fiskiðjuver, sem kosta mundi stórfé, og í trausti þess, að þær lánsstofnanir, sem lögum samkvæmt er ætlað að styðja þá, sem koma vilja upp slíkum fiskiðjuverum, meti að fullu þá þörf, sem hér er fyrir hendi, og styrki þá aðila, sem vildu koma upp fiskiðjuveri í Hornafirði, eftir því sem lög og reglur um lán frekast heimila, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“