22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (3473)

52. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið hér á fundi í gær til þess að fylgjast með því, sem hv. frsm. meiri hl. hafði að segja. En þetta mál er nú svo kunnugt í þessari hv. deild, að ekki er þörf á að fara um það mjög mörgum orðum.

Eins og nál. ber með sér, þá vill meiri hl. vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá eins og í fyrra, er það lá fyrir þinginu. En nú eru þó ekki færðar fram fyrir því hinar sömu ástæður. Þá var allt lagt upp úr þeim rökum, að ekki væru nægilega góð skilyrði í Höfn í Hornafirði til þess, að ríkið gæti farið að stofna þar slíkt fyrirtæki. Nú liggur það hins vegar fyrir í áliti meiri hl. og bréfi stjórnar fiskimálasjóðsins, að skilyrðin séu óumdeilanleg og brýna nauðsyn beri til að koma slíku fyrirtæki á fót. Og aðalástæðan fyrir því að vísa frv. frá nú er talin vera sú, að ríkið hafi ekki ráð á að leggja fé til þessa fyrirtækis, eins og fjárhag þess er háttað. Þá er fiskiðjuver ríkisins á Grandagarði dregið inn í umræður um þetta, og meiri hl. n. ber fram þau rök í nál., að reynslan af því bendi ekki til þess, að hið fyrirhugaða fiskiðjuver beri sig fjárhagslega. — Ég held hins vegar fram gagnstæðri skoðun. Ég tel, að þeir fjárhagslegu örðugleikar, sem þetta fyrirtæki hefur átt í, séu orsök til þess, að af því hefur ekki fengizt nein reynsla um réttmæti þeirrar iðngreinar; það hefur ekki verið búið þannig að þessu fyrirtæki, að annars árangurs sé að vænta. Og ég held þvert á móti, að það, sem okkur Íslendinga vantar mest til þess að undirbyggja okkar gjaldeyrisöflun, það sé einmitt öflugur fiskiðnaður.

Það er öllum kunnugt, að sjávarafli okkar Íslendinga er meiri að tiltölu en nokkurrar annarrar þjóðar, en hins vegar er það útflutningsverðmæti, sem við fáum fyrir hann, alls ekki í samræmi við aflamagnið, og orsökin er sú, að við flytjum aflann út mikið til óunninn eða litt unninn og fáum því ekki nándar nærri eins mikinn erlendan gjaldeyri og við gætum aflað, ef við ynnum úr fiskinum sjálfir. Þetta er því ein hin öruggasta leið til að afla hins torfengna gjaldeyris, og yrði þetta frv. að lögum, væri stórt skref stigið í þá átt.

Ef það á hins vegar að blanda starfsemi fiskiðjuvers ríkisins inn í þetta mál, þá ætti það helzt að vera á þann hátt að átelja það, að stjórnarvöld og lánsstofnanir hafa búið svo að þessu fyrirtæki, að það hefur barizt í bökkum fjárhagslega og ekki verið unnt að reka það af nándar nærri fullum krafti. Þetta væri nær að átelja heldur en að nota þau vandræði, sem þetta fyrirtæki hefur verið sett í, sem rök gegn því að reisa fleiri fiskiðjuver. Þetta er sem sagt einungis tylliástæða og ein sú fjarstæðasta, sem til greina getur komið í þessu sambandi — ekki sízt þar sem fyrir liggur viðurkenning sú frá stjórn fiskimálasjóðs, sem meiri hl. lætur fylgja áliti sínu, um óumdeilanlega nauðsyn slíks fyrirtækis. — Og ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan, að einn veigamesti þátturinn í almennum framförum á sviði sjávarútvegsins er þetta, að við eignumst fyrirtæki, sem geta unnið úr þeim fiski, sem við öflum. Af þessum ástæðum legg ég eindregið til, að frv. verði samþykkt.

Ég geri ráð fyrir, að flm. frv. geri nánari grein fyrir einstökum atriðum, og sé því ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, einkum þar sem nauðsyn þessa fyrirtækis virðist hafin yfir allan efa, svo að því er jafnvel slegið föstu í nál. hv. meiri hl.