22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (3474)

52. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Nál. hv. meiri hl. sjútvn. hefst á því, að sagt er, að þetta frv. hafi verið flutt á síðasta þingi og afgr. þá með rökst. dagskrá. Þetta er rangt. Að vísu vildi meiri hl. n. þá láta það fá slíka afgreiðslu. En það rétta er, að rökstudd dagskrá í þá átt var felld og meiri hl. þessarar þd. samþykkti að vísa frv. til 3. umr., enda þótt það dagaði síðan uppi. Og ég verð að segja, að það er einkennilegt, að hv. meiri hl. skuli skrifa undir staðhæfingu sem þessa.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um þær röksemdir, sem komið hafa fram gegn frv. og formaður meiri hl. n. viðhafði í gær. — Ein aðalröksemd hans var sú, að ef ríkið færi út í það að reisa fiskiðjuverið í Hornafirði, mundu margir staðir í landinu sigla í kjölfarið með beiðnir um, að ríkið reisti þar slík fyrirtæki. Nefndi hv. þm. einkum Ísafjörð sem dæmi. Ég vil benda á, að hér getur ekki verið um neitt slíkt að ræða. Þegar hér var til meðferðar fyrir nokkrum árum frv. um fiskiðjuver, var gert ráð fyrir 5 stöðum, sem til greina kæmu, eða Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Vestmannaeyjum og svo Suðurnesjum. Í Vestmannaeyjum og á Ísafirði hafa þessi mál þegar verið tekin til lausnar á öðrum grundvelli. Þessir staðir hafa það líka fram yfir Höfn í Hornafirði, sem miklu veldur um aðstöðumun, að þar eru stór bæjarfélög með talsvert bolmagn til framkvæmda. Hins vegar er Höfn í Hornafirði sú verstöð, sem er ein mesta viðleguhöfn á landinu fyrir aðkomubáta, og það er því hagsmunamál miklu fleiri aðila, að þar yrði landshöfn, heldur en á öðrum umræddum stöðum. — Þessum rökum hefur alls ekki verið mótmælt, sem eru þó ein aðalrökin í grg. fyrir frv. Þá eyddi ræðumaður nokkrum tíma til að tala um Fiskiðjuver ríkisins í Rvík og taldi, að ef það væru þungvæg rök fyrir því að reisa fiskiðjuver í Hornafirði, þá hefði þetta fiskiðjuver átt að vera reist þar. Þetta mætti nú til sanns vegar færa, ef það hefði ekki einkum vakað fyrir stjórn fiskimálasjóðs, er hún ákvað að reisa fiskiðjuverið við Grandagarð, að gera það í tilraunaskyni og til þess að þreifa fyrir sér um nýjar leiðir. Þetta fyrirtæki er fyrst og fremst byggt í þeim sérstaka tilgangi, og falla því þessi rök um sjálf sig. Um frv. sjálft ræddi hann mjög lítið, nema breytinguna á 8. gr., og hélt hann því fram, að svo mundi ekki verða, að fyrirtækið bæri sig og unnt yrði að greiða sjómönnum og útgerðarmönnum almennt gangverð fyrir vörur sínar. Mestöll röksemdafærslan fyrir þessu hefur verið sú að lasta fiskiðjuverið í Rvík og sýna fram á, að það gæti aldrei borið sig, og til þessa málflutnings hefur ekki eingöngu verið gripið í sambandi við þetta frv., heldur hefur verið notað hér á Alþ. hvert tækifæri til að sýna, hve illa hefði verið til þess stofnað og á haldið, og þetta síðan notað sem röksemd gegn því að reisa slík fyrirtæki annars staðar. Vegna þessara tíðu ummæla þykir mér ástæða til að benda á, hve fjarstæður þessi málflutningur er. Það liggja þvert á móti í augum uppi glöggar röksemdir fyrir því, að þetta fyrirtæki beri sig. Það er ekki gamalt og hefur verið í byggingu síðustu árin, og það var fyrst í marzmánuði á s. l. ári, að það tók til starfa. Hraðfrysting gat ekki hafizt þar fyrr en í lok marz, þegar liðið var fram á vetrarvertíðina, og kom því langt frá að fullu gagni. Starfsemin á því ári gat því ekki orðið nándar nærri með eðlilegum hætti hvað árangur snerti. Niðursuða byrjaði ekki fyrr en 12. apríl, og sér hver maður, hve miklu það veldur um það, að rekstur bar sig ekki á því ári. Svo er sú andstaða, sem komið hefur fram hjá stjórnarvöldunum og bönkunum gegn fyrirtækinu og hindrað hefur, að það gæti starfað af fullum krafti. Þá vil ég enn fremur benda á það, að stjórn fyrirtækisins hefur kvartað undan því við hæstv. sjútvmrh., hve fyrirtækinu væri gert erfitt með að starfa, með því að útvega því ekki fé til að ljúka við byggingu þess, og að bankarnir neituðu um rekstrarfé, svo að niðursuðudeildin hefur ekki getað starfað. Þetta hefur valdið því, að nokkur halli hefur orðið, þó að hann sé ekki mikill. En samt sem áður er það notað sem rök gegn byggingu annarra slíkra fyrirtækja. Í bréfi frá stjórn fyrirtækisins kvartar hún mjög undan ýmsum atriðum, t. d. að ekki hafi fengizt nægilegt fjármagn til að fullgera framleiðslukerfið, og hefur það því ekki getað starfað, en fjármagn það, sem í því liggur, stendur á háum vöxtum, og orsakar það m. a., að halli verður. Þá stendur verulegur hluti af stofnfénu á 7% vöxtum, þar sem ekki hafa fengizt lán til þess að greiða bráðabirgðalánin, og há slíkir vextir eðlilega rekstrinum. — Niðursuðan getur ekki starfað, vegna þess að hana vantar rekstrarfé, og henni er neitað um slíkt á sama grundvelli og öðrum fyrirtækjum, nema sala sé tryggð, og hefur þetta ekki gilt um annan rekstur á sjávarútveginum. Og er lítt skiljanlegt, hvers vegna þetta fyrirtæki er eitt látið sæta þessum kostum. Stjórn fyrirtækisins setti fram eftirtaldar kröfur: 1. Að útveguð verði hagstæð lán úr stofnlánadeildinni í stað bráðabirgðalánanna; 2. að útvegað verði hagkvæmt viðbótarlán til að fullgera ísframleiðslukerfið, svo að hægt verði að framleiða nægilegan ís handa íslenzka fiskiflotanum og spara þannig gjaldeyri. — Enn fremur liggur fyrir áætlun framkvæmdastjóra um reksturinn. Annað, sem stjórnin óskaði eftir, var, að fyrirtækinu væri tryggt rekstrarfé til niðursuðunnar, án þess að sett væru skilyrði, sem öðrum fyrirtækjum væru ekki sett. Þá hefur stjórnin bent á það, að þrátt fyrir ráðherrabréf frá 20. okt. 1947 um, að fiskiðjuverið bæri að reka sem sjálfstætt fyrirtæki, hefði Landsbankinn neitað að viðurkenna niðursuðuna sem sjálfstætt fyrirtæki. En hér er aðeins um tylliástæðu að ræða til að hindra starf fyrirtækisins.

Þá vil ég leyfa mér að gefa upplýsingar um áætlun stjórnar fiskimálasjóðs, ef takast mætti að koma fyrirtækinu að fullu upp og á öruggan grundvöll. Stjórnin telur æskilegt að hefja framleiðslu á reyktum síldarafurðum, svo sem flökum af smá- og millisíld, sem þeir telja, að góður markaður muni vera fyrir. Það er rétt að athuga, hvort fyrirtækið mundi vera á fjárhagslega öruggum grunni, þegar það verður fullgert. Ég vil því gefa nokkrar tölur úr áætluninni um framleiðsluna, þegar búið er að fullgera fyrirtækið.

Áætlun um rekstur ísframleiðslukerfisins er á þessa leið:

Ársframleiðsla 10 þús. tonn. Kostnaður:

Vinnulaun ............ 500 þús. kr.

Rafmagn .............. 250 —

Beinn kostnaður ... .. 750 þús. kr.

Hagnaður verður svo af ísfisksölunni:

til smábáta ........ 75 kr. pr. tonn

til togara ........ 65 - - –

Þar frá dregst kostnaður við mölun og flutning um borð, og verður brúttó-hagnaður 324 þús. kr., eða mun hærri upphæð en sú, sem þarf til að fullgera ísframleiðslukerfið.

Það sér hver maður, að ekki er von, að fyrirtækið geti borið sig með því að starfa aðeins 200 daga af árinu, en framleiðir þó fyrir 270 þús., sem er nokkru meira en þarf til að fullgera ísframleiðslukerfið. Fjöldi togara kaupir nú ís erlendis, og er því hér um gjaldeyrissparnað að ræða, svo að ekki er hægt að bera við gjaldeyriserfiðleikum, að ísframleiðslukerfið er ekki fullgert. Að vísu verður að draga frá vexti og afborganir, sem áætlað er ríflega 70 þús. kr. — Enn fremur vil ég benda á áætlun um niðursuðuverksmiðjuna, þar sem gert er ráð fyrir, að framleiddir séu 420 kassar á dag í 4 mánuði. Þar er raunar ekki gert ráð fyrir heildarafköstum. Ég get getið þess um verð á þessari niðursuðu, að miðað við verð það, sem forstjórinn telur, að hægt sé að fá, verður töluverður hagnaður af sölunni miðað við framleiðslukostnað. Og sé miðað við vöru þá, sem seld var til Tékkóslóvakíu í fyrra, var verð á henni töluvert hærra en hér er gert ráð fyrir. Sama má segja um aðrar niðursuðuvörur, svo sem síld í tómatsósu, að von er til, að framleiðslukostnaðurinn verði mun minni en verð það, sem vara þessi var seld á til Tékkóslóvakíu í fyrra og hefði verið hægt að fá víðar, ef varan hefði verið til, sem ekki var, vegna þess að rekstrarfé vantaði.

Ég skal láta þetta nægja til að sýna, hve fjarstætt er að nota fjárhagsástæður þessa fyrirtækis til að vera á móti slíkum fyrirtækjum annars staðar, þar sem þeirra er sérstaklega þörf, eins og í Höfn í Hornafirði, þar sem venjulega er fjöldi aðkomubáta, en nú er að minnka vegna þess, að þar vantar fiskiðjuver.