22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (3475)

52. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál mikið, en vil gera athugasemdir við það, sem rangt hefur verið hjá frsm. og flm. Frsm. sagði, að felld hefði verið niður höfuðástæðan gegn því að setja upp fyrirtækið. Þetta virðist benda til þess, að hv. frsm. hafi ekki lesið nál. Það byrjar á því að vísa til nál. í fyrra, en þar er gerð grein fyrir því, hvers vegna ekki er lagt til, að fiskiðjuver verði reist í Höfn í Hornafirði, og er það ekki fellt niður nú, heldur aðeins vísað til þess, þar sem þau rök, sem þá voru færð fyrir því að reisa ekki iðjuverið, eru jafngild nú og fyrir ári síðan. Hv. flm. gerði að umtalsefni afköst fiskiðjuversins í Reykjavík og taldi rangt að blanda því í þetta mál. Ég vil benda á það, að í frv. er gert ráð fyrir, að byggt verði hraðfrystihús, sem frysti 30 tonn af flökum sams konar og í Reykjavík, niðursuðuverksmiðja, sem sjóði niður 10 tonn eins og í Rvík. En þar er ekki gert ráð fyrir ísframleiðslu eins og í Rvík, en í þess stað er gert ráð fyrir fiskimjölsverksmiðju og lifrarvinnslustöð, en þetta hvort tveggja kostar mun meira en ísframleiðslukerfið. Og þegar rætt var við forstjóra fiskiðjuversins í Rvík, lét hann í ljós þá skoðun, að þetta fyrirtæki mundi kosta mun meira en fiskiðjuverið í Rvík, eða yfir 10 millj. kr., en flm. gerir ráð fyrir 4 millj. kr. láni til verks, sem kostar yfir 10 millj. kr. Þeir hafa þá gert ráð fyrir, að 6 millj. kr. kæmu annars staðar frá, ef til vill á fjárlögum. Hér er því um 10 millj. kr. fyrirtæki að ræða, sem bæði á að greiða upp og láta bera sig. Í 8. gr. er sagt, að áður en hráefni séu greidd, skuli reikna kostnaðinn og auk þess taka 2% í varasjóð auk fyrningargjalda. Það er rangt hjá flm., að ég sé á móti þessu af því, að fyrirtækið geti ekki borið sig. Ég sagði, að með tilliti til frv. og einkum 8. gr. þá gætu útgerðarmenn og sjómenn ekki fengið gangverð fyrir fiskinn. Það er ekki hægt að reisa verksmiðju austur á Hornafirði fyrir 10 millj. kr. og láta framleiðsluna bera kostnaðinn, ef greitt er gangverð fyrir fiskinn, enda hefur næg reynsla fengizt af slíku hér í Rvík. Hv. flm. mega ekki loka augunum fyrir því, að jafnvel þótt hægt væri vegna fjárhagsins að samþ. frv., þá yrðu Hornfirðingar ekkert sérlega þakklátir, þó að fyrirtækið væri reist, ef ekki er hægt að tryggja reksturinn. En það er ekki hægt að láta fyrirtækið standa undir sér með því að greiða gangverð, og er þetta álit allra, sem hugsað hafa um málið. Ég vil spyrja hv. flm., hvaða greiði Hornfirðingum sé gerður með því að reisa hjá þeim fiskiðjuver, sem ekki er tryggt, að geti starfað. Hvað er að segja um landshöfnina, sem ákveðið var að byggja í Njarðvík? Hvað er að segja um Austurveg, sem ákveðið var að leggja? Hvað geta hv. flm. keyrt þar mikið? Hv. flm. loka augunum fyrir því, að fjárhagurinn er þannig nú, að þótt frv., yrði samþ., gæti ríkið ekki lánað til þessa fyrirtækis, svo að lögin yrðu ekki annað en dauður bókstafur. Það er ekki af illvilja, sem sjútvn. leggst á móti þessu. Ég vil benda á það, að eins og tímar eru nú er meira verð fyrir saltfisk en niðursuðu og hraðfrystan fisk, og mætti koma upp saltfiskverkun á Hornafirði, þó að þar væri ekki 10 millj. kr. iðjuver, en það hafa hv. flm. aldrei komið inn á, heldur reynt að berja fram 10 millj. kr. iðjuver á staðnum.

Flm. hélt langa ræðu um afkomu fiskiðjuversins í Rvík og kenndi hæstv. ríkisstj. um, að allt gengi þar ekki vel, en hvert orð, sem hann sagði, var gegn verinu í Hornafirði, því að ef hæstv., ríkisstj. getur ekki eða vill ekki leggja fé til fyrirtækis, sem komið er upp, hvaða líkindi eru þá til, að sú sama hæstv. ríkisstj. geti eða vilji leggja nægilegt fjármagn til fiskiðjuvers austur í Hornafirði? Og hvað eru Hornfirðingar bættari að standa við hornstein þessa iðjuvers í fjölda ára? — Allur kostnaður við iðjuverið hér í Rvík var 9 millj. og 800 þús. kr., og það var byggt af fiskimálan., sem hafði til þess vafasama heimild, en nokkurt fé og lét í það 1.265 þús. kr., en gafst síðan upp, þótt þeir hefðu nægilegt fjármagri. Þeir fengu stórar fúlgur til að standa undir kostnaðinum, en köstuðu frá sér allri ábyrgð og löngun til að gæta sóma síns í þessu sambandi. Þetta er hv. þm. kunnugt um. Mundi ekki hið sama ske aftur, ef hinir sömu menn sæju um þetta. Þeir enda svo með því að tilkynna hæstv. ráðh., að þeir segi sig úr stjórn fyrirtækisins, og hlaupa þannig frá öllu saman. Það er engin furða, þótt menn vilji fá annað slíkt fyrirtæki á Austurlandi. Þeir höfðu fengið nær 3½ millj. kr. úr stofnlánadeildinni, sem áttu ekki að ganga til þessa fyrirtækis, og þannig íþyngt útgerðarmönnum, og 400 þús. kr. hjá fiskveiðasjóði og enn íþyngt útgerðarmönnum. Það er lítill sómi að slíkum mönnum sem þessum í starfinu og engin furða, þó að hæstv. ráðh. láti ekki takmarkalaust fé í hendur þessara manna, sem ekki hafa staðið sig betur en þétta. Ég vil í sambandi við þetta mál benda hv. flm. á, að nú er svo komið fyrir S R., að þær verða að leita beint til ríkissjóðs, til að hann greiði fyrir þær áfallin gjöld, án þess að þær hafi greitt svo mikið sem 1 kr. í ríkissjóð. En ef þær hefðu verið reknar af einstaklingum, hefðu þeir greitt fleiri millj. í ríkissjóð í skatta. Eftir öll þessi ár er ástandið þannig, að 50% er rekið af einstaklingum, þar sem þeir enn uppfylla þær skyldur sínar við ríkissjóð að greiða skatta og skyldur, en hinn helmingurinn er rekinn af ríkinu, sem hefur brugðizt þeirri skyldu að láta stofnanirnar standa undir sér fjárhagslega, heldur hafa þær orðið að sækja í ríkissjóð ábyrgðir og sumpart stórkostlegar fjárfúlgur til þess að geta staðið við sínar skuldbindingar. Það er þessi stefna, sem meiri hl. sjútvn. vill ekki ganga inn á. Ég veit, að hv. frsm. minni hl. vill fara inn á þá stefnu, en hann getur ekki láð okkur, sem erum inni á hinni stefnunni, meðan þetta tekur ekki öðrum breyt. en reynslan hefur sýnt, þótt við viljum ekki vera með til þess að keyra út í þetta fen. Það er talað um það í alvöru að leggja milljónir á þegnana sem skatt á hverju ári í mörg ár til þess að standa undir sumpart fyrirsjáanlegu tapi og sumpart því tapi, sem þegar er orðið á síldarverksmiðjunum, og þegar fjvn. ræddi þetta við stjórn síldarverksmiðjanna og sagði: Hér er ekkert annað fyrir ykkur að gera en að lækka verðið á síldinni til þess að reyna að vinna stofnanirnar upp, — þá var svarið, að það væri ekki hægt, af því að einstaklingar gætu borgað meira. Ef það væri enginn einstaklingsrekstur, þá væri það áreiðanlega gert.

Ég vil ekki vera að fara út í smáatriði í þessu máli, en vil benda á, að hv. frsm. hefur annaðhvort af ókunnugleika eða löngun til að halda sér ekki við sannleikann fullyrt, að togararnir keyptu allan ís í Englandi. Ég get sagt honum, að þetta er alveg gagnstætt, það er undantekning, ef togararnir kaupa þar ís, einstaka skip kann að hafa gert það, en allur fjöldinn kaupir ís í Reykjavík, en þetta er aukaatriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að vera að deila um þetta atriði. Ég hef þegar rætt þetta undanfarið, og ekkert nýtt hefur komið fram. N. telur það enga lausn á þessu vandamáli, þó að þetta frv. væri samþ., nema síður sé. Það hefur aldrei verið efazt um nauðsynina fyrir því að koma upp frystihúsi, mjölverksmiðju og lýsisbræðslu á Hornafirði og af þeirri stærð, sem væri eðlilegt, en ég tel heldur ekki útilokað, að þessir menn, ef þeir vilja nokkuð sjálfir, séu færir um að gera það með þeirri aðstoð, sem ríkissjóður veitir slíkum aðilum í gegnum fiskveiðasjóð og fiskimálasjóð, og tel, að ekki eigi að fara inn á þá braut, sem ætlað er að fara inn á með þessu frv. Þess vegna leggur meiri hl. n. til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.