22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (3476)

52. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til að svara þessari síðari ræðu hv. frsm. meiri hl. Ég vildi þá byrja á því, sem hann talaði um, að hér væri um of mikla stærð að ræða og þetta fyrirtæki mundi kosta yfir 10 millj. kr. Ég vil benda á það í fyrsta lagi, að ekki er um ákveðna stærð að ræða í frv., heldur „allt að“, sömuleiðis segir, að til byrjunarframkvæmda sé heimilt að taka að láni allt að 10 millj. kr. Ég geri ekki ráð fyrir því, þótt farið væri út í þetta, að byrjað yrði á öllu í einu, heldur mundi byrjað á hraðfrystihúsinu fyrst, og þess vegna séu full rök fyrir þessu eins og það er þarna áætlað. Annars tók ég það fram í minni fyrri ræðu, að ég gæti verið til viðtals um breyt., ef meiri hl. sýndi þann skilning að vilja hjálpa málinu áfram með þeim breyt., sem hann teldi æskilegar. Hv. frsm. sagði, að ég hefði komið inn í 8. gr. ákvæði, sem ætti að svíkja síðar. Ég vísa þessu algerlega á bug, þar sem þetta er það sama og gert er ráð fyrir með mörg fyrirtæki, sem ríkið rekur, og ég ætla, að um svipað sé að ræða við síldarverksmiðjur ríkisins, þó að það geti komið fyrir þau atvik, sem gera það að verkum, að slíkar stofnanir geti ekki staðið undir þessu, eins og þegar síldin bregst árum saman eins og nú, og skal ég koma betur að því síðar. Þá talaði hv. frsm. nokkuð um það, hvaða greiði væri gerður þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, með því að samþykkja frv. án þess að framkvæma það, og hann fór að benda á önnur frv. um stórmál, sem hefðu verið samþ. hér á Alþ., en ekki framkvæmd, og minntist m. a. á landshöfn í Keflavík o. fl. Ég verð að játa það, að ég flyt frv. í þeim tilgangi, að það verði framkvæmt, ef það verður samþ., og ég býst við, að þeir hafi líka ætlazt til þess, sem fluttu þau mál á sínum tíma, og maður getur alls ekki reiknað þannig að hugsa sér, að vinnubrögðum sé hagað þannig á Alþ., að aldrei sé flutt neitt mál, vegna þess að þótt það væri samþ., þá væri engin vissa fyrir, að ríkisstj, framkvæmdi það, það yrði þá lítið úr vinnubrögðum hér á Alþ., ef þeirri reglu væri fylgt. Þá vildi hv. frsm. færa rök fyrir því, að möguleikar ríkissjóðs væru engir, því að það vantaði fjármagn til þess að koma þessu í framkvæmd. Ég þykist hafa fært nokkur rök fyrir því, að möguleikar ríkissjóðs þurfi ekki að vera því til hindrunar, að þetta verk komist í framkvæmd. Ég skal benda á það, að það hefur nú verið framkvæmt annað verk hér, sem mjög mikill vafi er á, að hefði átt að gera, og ég veit, að kostar miklu meira fé, en þetta verk mundi kosta. Ég veit, að hv. þm. Barð. er ekki búinn að gleyma þeim ræðum, sem hann hélt fyrir nokkrum dögum, þegar hann deildi á síldarverksmiðjuskipið Hæring, og hvaða dóm hann gaf þeirri framkvæmd, en þar er búið að eyða stórkostlegum erlendum gjaldeyri og ekki vissa fyrir því, að það fyrirtæki mundi gera útflutningsframleiðslu landsmanna meira gagn en ef farið væri út í að fullgera fiskiðjuverið hér í Reykjavík, svo að það geti notið þess fjármagns, sem í það er komið, og byggja fleiri slík iðjuver af svipaðri gerð þar, sem það er nauðsynlegt, því að enn er eftir að byggja upp fiskiðnaðinn, til þess að útgerðin geti gengið sæmilega og skapað þjóðinni gjaldeyri. Enn fremur vildi hv. frsm. telja, að engin trygging væri fyrir því, þó að frv. yrði samþ., að þetta yrði neitt fremur rekið en fiskiðjuverið. Vil ég svara því með sömu röksemd og hinu atriðinu, að maður verður að reikna með því, að það, sem Alþ. samþykkir að framkvæma, verði framkvæmt og unnið.

Nokkrum tíma ræðu sinnar varði hv. frsm. til þess að ræða um stjórn fiskimálasjóðs og framkvæmdir hennar og benti á, að hún hefði stokkið frá öllu saman, þegar hún hefði verið búin að koma öllu í strand. Þetta hefur komið fram í umr. áður, og það var bent á það á síðasta þingi, að fiskimálanefnd hefði haft fulla heimild til að verja fé eins og hún gerði, til þess að byggja þetta fyrirtæki, því eins og ég tók fram áðan, þá var þetta fyrirtæki byggt samkvæmt sérstökum ákvæðum í l. um fiskimálasjóð, þar sem honum er ætlað það hlutverk að gera tilraun til að leita eftir nýjum leiðum í framleiðslu sjávarafurða, og á þeim grundvelli er þetta byggt, og þegar hv. frsm. hefur gífuryrði um það, að þessi stjórn hlaupi frá öllu, þegar það er komið í strand, þá veit ég, hvað hann á við. Hann á við það, að snemma á þessu ári skrifaði stjórn fiskimálasjóðs sjútvmn. bréf, þar sem hún tilkynnti, að ef ekki yrði búið betur að fyrirtækinu en hingað til, m. a. að tryggja niðursuðuverksmiðjunni rekstrarlán með svipuðum kjörum og öðrum fyrirtækjum af líkri gerð, þá sæi hún sér ekki fært að halda áfram stjórninni. Þetta var eðlilegt. Ég skal annars ekki fara út í þetta atriði, en get þessa aðeins fyrst hv. frsm. meiri hl. sá ástæðu til að fara að minnast á það.

Ein röksemd hv. frsm. var sú, að nú væru síldarverksmiðjurnar komnar í þau vandræði, að þær væru farnar að óska eftir sérstakri fjárveitingu úr ríkissjóði til þess að standa við sínar skuldbindingar, og vildi svo gera samanburð á einkaverksmiðjum, sem borga skatt í ríkissjóð, og síldarverksmiðjum ríkisins. Hv. frsm. er vel kunnugt, að hér er ekki um sambærilega hluti að ræða. Síldarverksmiðjur ríkisins eru byggðar vegna sjómanna, og það er ekki ætlazt til þess, að þær verði á nokkurn hátt féþúfa fyrir ríkið, en það er engin vissa fyrir því, hvernig það hefði verið með síldarútveginn, ef ríkisverksmiðjurnar hefðu ekki verið byggðar, en það er vissa fyrir því, að hann hefði ekki verið rekinn eins og hefur verið gert síðasta áratuginn, og þar með hefði þjóðin verið stórum fátækari en hún er nú, ef síldarverksmiðjur ríkisins hefðu ekki verið til. En hins vegar er vitað mál, að síldarverksmiðjur ríkisins hafa samkvæmt l., sem Alþ. hefur samþ., ráðizt í stórar framkvæmdir á seinni árum, og það vildi svo óheppilega til, að þegar búið var að gera þær framkvæmdir, þá hefur komið hvert síldarleysisárið eftir annað, svo að ekki hefur fengizt neitt verkefni til að vinna, og þá er ekki nema eðlilegt, að þar komi fjárhagserfiðleikar til greina. Það væri nógu fróðlegt að vita, hvernig síldarverksmiðjuskipið Hæringur verður statt eftir 2–3 ár, ef það fær ekkert að gera þann tíma.

Ég hef þá minnzt á aðalatriðin í því, sem hv. frsm. tók fram, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekar út í það, sérstaklega þar sem búið er að ræða málið svo mikið.