11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Við umr. voru víst flestir búnir að tala sig dauða, svo að hér verður sennilega ekki langt mál um þetta atriði, enda útrætt að flestu leyti. En ég skal taka fram, að fjhn. athugaði þessa till. á þskj. 80 og féllst á það, til þess að enginn vafi væri á, hvað hér er um að ræða, að bera fram till. þá, sem er á þskj. 90 og tekur af allan vafa um það, hvað langt það nær þetta skattfrelsi, sem er af happdrættisláninu. En aftur á móti er komin fram till., sem ég hafði ekki vitað um áður, hvernig yrði orðuð, frá hv. 1. þm. N-M. og er á þá leið, að það falli niður, að eignarskattur verði tekinn af þessu, eins og var í brbl., og yrði þá allmikil breyt. á l. frá því, sem áður var. Hv. 1. þm. N-M. hefur verið hér í húsinu, og hélt ég, að hann kæmi hingað. Mér skildist, að hann mundi taka till. sína aftur, en ég hef ekki umboð til þess og verð að óska, að atkvæði gangi um hana. En við fjhnm. vorum sem sagt sammála um það að bera fram þessa brtt., sem hér er á þskj. 90 og er þannig, að aftan við 2. lið 1. gr. bætist: á því ári, sem þeir falla til útborgunar. En hvað viðvíkur brtt. á þskj. 87 þá hefur hæstv. dómsmrh. tjáð mér, að hann mundi taka hana aftur, og lýsti yfir því við mig, að ég hefði heimild til að kalla hana aftur. Ég vænti þess, að hæstv. forseti vefengi mig ekki varðandi þetta, og tek ég því till. aftur. Þetta mál hefur nú verið allmikið rætt, og ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar, heldur læt hér staðar numið.