07.12.1948
Efri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (3502)

47. mál, menntaskólar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að segja hér nokkur orð, þar sem ég á sæti í menntmn. og hef orðið viðskila við meiri hl. hennar, eins og hv. 3. landsk. hefur nú lýst. Ég furða mig ekkert á því, að meiri hl. skuli vera búinn að skila sínu áliti, jafnmikinn áhuga og hann virðist hafa á málinu, og hefði mér að vísu þótt skemmtilegra að geta látið prenta mitt sérálit samtímis, en það er því miður ekki tilbúið, en því verður hraðað í prentun eftir föngum. Ég er nú ekki sömu skoðunar og meiri hl. n., sem hefur gefið út sameiginlegt álit, þó að ég hins vegar játi, að áhugi meiri hl. sé eðlilegur og réttlátur varðandi æðri menntun í landinu og umhyggja fyrir menntun æskufólksins sé fögur hugsjón þeirra eldri. En hér kemur fleira til greina, sem gæti orðið til tafar, m. a. það, hvort hraða skuli svo mjög framkvæmd málsins, hvort það sé nógu vel undirbúið, að til framkvæmda komi, hvað sem lagaafgreiðslu líður.

Hér er boðið upp á menntaskóla á Ísafirði og Eiðum og á Laugarvatni. Ójá. Ég sé, að hv. flm. sýna lofsverðan áhuga á að stofnsetja menntaskóla í sínum héruðum, og ég ætti nú kannske að vera tilbúinn að taka í sama streng, þar sem þriðji skólinn á að vera að Laugarvatni, í mínu héraði. En ég verð að gera þetta upp við sjálfan mig og taka þá á mig þær ákúrur, sem ég kynni að fá fyrir að leyfa mér að efa, að þetta sé tímabær lögfesting. Ég held, að meginatriðið sé það, að stúdentaframleiðslan í landinu nú sé alveg nægileg miðað við, hvað hægt er að fylgja á eftir til æðra náms, sem stúdentspróf er nauðsynlegur milliliður í, og embætti í landinu virðast fullskipuð eins og nú er. Það hefur stundum komið fyrir, að þakklætið hefur ekki fylgt eftir á með hvatningunni til þess að verða stúdent og vita svo ekkert, hvað gera skal. Stundum er líka hitt, að fátækur piltur, en gáfaður vill verða stúdent, og eru vandræði að geta ekki liðsinnt honum til að ná því takmarki. En þegar um þetta er að ræða, þá álit ég, að það sé fleira, sem komi til greina til liðsinnis í þeim málum, heldur en umrædd fjölgun. Ég nefni þar t. d., að Akureyrarmenntaskólinn hefur heimavist, sem er ákaflega hagkvæm fátækum utanbæjarmönnum. Reykjavíkurmenntaskólarnir (Verzlunarskólinn útskrifar stúdenta) hafa ekki aðstöðu til að bera sig saman við Akureyrarskólann að þessu leyti. Þess vegna finnst mér frá sjónarmiði þeirra, sem vilja meira en orðin ein, að það ætti frekar en gert er að taka tillit til fátækra námfúsra aðkomumanna, því að það vantar hér að fullnægja skilyrðum, sem fullnægt er á Akureyri að þessu leyti. Þegar á þetta er litið og málsatriðum í fullri alvöru fylgt á eftir, þá álit ég, að vegalengdirnar til menntaskólanna séu ekki eins veigamikið atriði og hitt, að menntaskólarnir séu ekki fleiri en það, að hægt sé að gera fyllstu kröfur til þeirra um kennaralið og allt, sem þarf til þess, að skólinn ræki hlutverk sitt. Það er ekki alveg hættulaust, ef menntaskólarnir eru mjög margir, ef ekki er tilbúið nógu vel mannað kennaralið í viðbót, því að l. gera strangar kröfur til þess, eins og vera ber.

Það hefur á undanförnum þingum verið minnzt á það og fluttar till. um það að reisa menntaskóla í sveit, og þá aðallega miðað við sveit á Suðurlandi, og í samræmi við það er ákvæði í þessu frv. um menntaskóla á Laugarvatni. En ég held, að það sé mjög mikið álitamál, ef slíkur skóli ætti að koma á Suðurlandi, hvort slíkur skóli ætti að vera á Laugarvatni fremur en einhverjum öðrum stað. Það er af mörgum talað um það, að við eigum að vera þjóðrækið fólk, og Sunnlendingar eiga fornt og merkilegt menntaból, sem heldur hefur hrörnað á síðustu öldum, og finnst mér, að sá staður gæti einnig komið til álita í þessu sambandi. Ég verð að segja það eins og það er, að í mínu héraði hef ég ekki orðið var við neinn mikinn áhuga um þetta málefni enn sem komið er. En ef slíkur skóli verður settur niður í sveit, þá þarf hann að mínu áliti að vera þannig, að allra lifnaðarhátta sveitarinnar gæti í andrúmslofti og umhverfi skólans. Þar sem hver menntadeildin rís af annarri, eins og er að verða á Laugarvatni, af sumum rétt skilið og öðrum misskilið, þá gæti slíkt frv. sem þetta orðið álitamál. Jafnvel þótt það þætti að ýmsu leyti tímabært að fjölga menntaskólunum, þá vakir eitt málsatriði fyrir mér í þessu sambandi, og það er það, að slíka stofnun sem hér um ræðir og aðrar slíkar megi ekki lögfesta öðruvísi en með öryggi um, að l. verði meira en pappírsgagn. Við höfum nokkra reynslu af því, að lögfesting hefur verið gerð, bæði um skólastofnanir og fleira. Lögin hafa ákveðið, að þetta og þetta skuli gert, en framkvæmdirnar hafa oft orðið seinlegar og smáar frá sjónarmiði þeirra, sem telja aðgerðirnar nauðsynlegar og aðkallandi, og fyrir áhugamennina, sem vilja þetta af heilum hug, eins og t. d. flm. þessa frv., þá verður þetta, ef framkvæmdirnar dragast í mörg ár, hreinasti krossburður. Ég mun því gera till. um það, áður en frv. eins og þetta er lögfest, að fjárveitingarvald þingsins og ríkisstj. sé sá bakhjarl, sem segi til um, hvað hún vill leggja til framkvæmdanna, til þess að þetta verði ekki skrípamynd, sem fólkið fái trú á, að verði til gagns, en verði að falsvon.

En ég hef ekki rætt nema undan og ofan af því, sem mér er ofarlega í huga í sambandi við þessi mál. Ég hef orðið var við það, að það er fjöldi bænda sunnanlands, sem trúa á starf sitt og vilja vera því tryggir og vilja að æskumennirnir fái þá menntun, sem tilheyrir starfi ættarinnar, og þannig mun það vera í öllum starfsgreinum, og það kemur að því fyrr eða seinna, að það skýrist fyrir fólkinu, að það þarf að flokka fólkið, ekki eftir stundarlöngun, heldur eftir framtíðarstarfinu, til þess að atvinnuhlutföllin í landinu raskist ekki.

Ég vil svo með þessum formála láta þess getið, að ég mun, eftir því sem tími er til við þessa umr., ef henni fæst frestað, en að öðrum kosti við 3. umr., bera fram rökstudda dagskrá í þeim anda, sem ég hef nú lýst, og láta svo kylfu ráða kasti um, hver úrslitin verða.