10.12.1948
Efri deild: 28. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (3512)

47. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti, formaður menntmn., sagði, hafði hv. 2. þm. Árn. tekizt allvel það verk að stuðla að drætti málsins með því að vera svo síðbúinn, að enginn hefur getað vitað um, hvað honum liði. En nú hefur hann bætt einum kapítula við fyrri framkomu sína í þessu máli til að sýna hæfileika sinn til að þvælast fyrir í vegi góðra mála. Ég sé engan veginn tilganginn með þessu síðbúna nál. minni hlutans. En út af fyrir sig getur það haft það hlutverk sem endranær að tefja málið og draga það á langinn. Ég hefði þó talið eðlilegra að vera annaðhvort heill með málinu eða tygja sig hreinlega til bardaga gegn því.

Ég vil svo svara nokkrum spurningum hv. þm. Barð. í sambandi við málið. Hann spurði um, hvort mþn. í skólamálum, sem enn starfaði, hefði fengið málið til umsagnar. Til þess þótti ekki ástæða, þar eð það var sent henni á næstliðnu þingi. Hafði hún það lengi til meðferðar og fékk send gögn, þ. á m. skýrslu, sem var mjög dregin inn í umræðurnar. Hún sýndi, að notin af menntaskólunum eru mjög miklu meiri fyrir fólk, sem á heima í Reykjavík og á Akureyri, heldur en fyrir unga menn úr öðrum landshlutum. Úr Reykjavík og frá Akureyri var hundraðshluti nemendanna margfaldur að hæð til samanburðar við Vestfirðingafjórðung og Austfirðingafjórðung, sem nú eiga að fá menntaskóla skv. þessu frv. til að jafna aðstöðu ungmenna í landinu. Ég hygg, að fyrirspyrjandinn muni fallast á, að ærið tilefnislitið sé að senda málið til sömu n., er áður hefur skilað till. sínum um það og telur sig hafa lokið verki sínu. Held ég, að starf hennar úr þessu sé aðeins að senda frá sér till. um frv. til l. um iðnskólafyrirkomulagið í landinu. — Þá eru þau atriði, sem varða staðsetningu skólanna og hv. þm. Barð. vék að. Kvað hann menntaskóla vera mundu eins vel stæðan á Rafnseyri og hvar annars staðar. Tók hann þó fram, að það væru eigi sínar till. í málinu. N. hefur ekki tekið slíkt til athugunar. Hygg ég, að nm. hafi verið ásáttir um, að sá staður, þar sem gagnfræðaskóli væri og legði til meginþorra nemenda, ætti að vera menntaskólasetur. Yrði ríkissjóði með því sparað fé, því að þá væri síður þörf fyrir heimavist, sem hleypir nú stofnkostnaði allténd fram. Ég álít þessi rök hafa sannfært n. um, að lítt væri hugsanlegt að reisa skólann annars staðar á Vesturlandi. En um Rafnseyri er það að ræða, að sá staður er nú í eyði, fyrst og fremst fyrir sakir afskipta hins opinbera í sambandi við lýðveldisstofnunina, þeirra er sýna áttu ræktarsemi við minningu Jóns Sigurðssonar forseta. Ég hef átt tal við marga Rafnseyrarbændur, og þeir ljúka upp einum munni um það, að staðurinn sé ekki byggilegur. Ábúandanum er leigður hann til eins árs í senn, svo að engin trygging er fyrir því, að hann fái að halda staðnum áfram. Allt er þar í niðurníðslu og engin framtíðarvon fyrir hendi. Er svo lítil rækt lögð við minningu foringjans mikla. — Þetta var nú útúrdúr í tilefni af ræðu hv. þm. Barð. Hann vék og að því, að þetta væri stórt fjárhagsatriði fyrir Ísafjarðarkaupstað sjálfan og því hafi áskorunin komið þaðan. Ég fullyrði, að Ísfirðingar hafa hér eigi í huga fjárhagslegan ábata. Þeim leikur aðeins hugur á auknu menningarlegu jafnrétti á við Reykvíkinga og Akureyringa. Það er hin rökstudda þörf, sem þeir styðja. Hitt er annað mál, að af þessu mun jafnframt leiða fjárhagsleg hlunnindi fyrir þennan kaupstað sem hina tvo. Hver kaupstaður, þar sem er menntaskóli, hlýtur ævinlega að hafa fjárhagsnytjar af þeim sökum. Ég veit t. d., að Akureyri á mikið af vexti sínum og viðgangi að þakka áhrifunum frá menntaskólanum þar. Minna má og á, að gagnfræðadeildin við Reykjavíkurskóla hefur ætíð verið kostuð af ríkissjóði, og Akureyrarskóli hefur notið sömu hlunninda, síðan menntaskóli var þar settur árið 1930. Hins vegar verða hinir kaupstaðirnir að bera kostnaðinn við gagnfræðaskóla sína sjálfir. Ef einblína ætti á fjárhagslega hlið málsins, má virðast tími til kominn að veita Ísfirðingum fjárhagslegt jafnrétti við Reykjavík og Akureyri í því skyni að rétta hlut kaupstaðarins, þó að seint sé. — Hv. þm. Barð. vék að kostnaðarhlið þessa máls, að því er kæmi til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Ég held, að þessi hv. þm. leggi of mikið upp úr því, er í frv. felst, en það fer fram á stefnuyfirlýsingu Alþ. þess efnis, að auk núverandi menntaskólasetra verði reistir tveir nýir menntaskólar, á Ísafirði og í Austfirðingafjórðungi, á Eiðum. Meira felst ekki í frv. En á því Alþ., er ákvæði framlög til þessara framkvæmda í fjárlögum, kæmi fyrst til kasta fjárveitingavaldsins. Hér er á hinn bóginn eigi um neina útgjaldaliði að ræða, þó að frv. verði samþ. Benda má á, að þessu máli er svo farið, að komi ekki menntaskólar á Vestfjörðum og Austfjörðum, þá er vitanlegt, að tala þeirra nemenda, sem færu í hina skólana, mundi aukast, og legðu þeir þá leið sína m. a. til Reykjavíkur. Auk þess má benda á, að menntaskólinn í Rvík hefur engin tök á að veita öllum þeim nemendum skólavist, sem rétt eiga til hennar. Það yrði því að byggja hér mikið skólabákn, ef fullnægja ætti þörfinni, en slíkt fyrirkomulag er varla heppilegt.

Það var eitt atriði í ræðu þm. Barð., sem gladdi mig, en það var, að hann vildi jafna aðstöðu æskunnar til náms. Nú er þetta einmitt kjarni þessa máls, og ef alvara er á bak við þessi orð hjá hv. þm., þá er hann samþykkur anda þessa frv.

Ég tel, að ekki væri nauðsynlegt að hefja framkvæmdir í þessu máli með byggingum, þó að til þess leiddi. Það væri auðvelt á Ísafirði að byrja kennslu 1. og 2. bekkjar menntaskóla í húsnæði gagnfræðaskólans og hrinda málinu þannig í framkvæmd án verulegs kostnaðar, en það er sú aðferð, sem vakir fyrir mér og öðrum Ísfirðingum, er áhuga hafa á þessu máli.

Þá vil ég víkja að hinu síðbúna áliti minni hl. n., 2. þm. Árn. Hann talar um hvatlegar ákvarðanir að ætla Laugarvatn sem skólastað. Ég held, að hér sé alls ekki um hvatlegar ákvarðanir að ræða. Fyrst og fremst eru nú lög fyrir því að reisa menntaskóla í sveit á Suðurlandi, svo að það er ekki aðeins um hugmynd að ræða, en auk þess má benda hv. 2. þm. Árn. á, að á grundvelli þessara laga er nú þegar hafin kennsla, sem svarar til 2. bekkjar menntaskóla, og er það framhald af því, að s.l. vetur starfaði þar 1. bekkur. Það virðist sem þetta hafi alveg farið fyrir ofan garð eða neðan hjá hv. þm., þó að það sé í hans eigin kjördæmi, hvernig sem það hefur mátt verða. Ég tel, að 2. þm. Árn. nægi þetta svar við því, að menntaskóla sé raunverulega ætlaður staður á Laugarvatni. Annars er 2. þm. Árn. hjalandi um það, að þörf unga fólksins verði betur leyst með því að byggja góða heimavist við menntaskólann í Rvík. Þetta er gömul hugmynd, sem var mikið notuð í baráttunni gegn menntaskólanum á Akureyri, en þó að nú séu liðin 25 ár síðan sú barátta stóð, þá bólar ekki á neinni heimavist við menntaskólann í Rvík. Ef áhugi fyrir jafnrétti til náms hefði verið fyrir hendi hjá þeim mönnum, sem ísmeygilegast börðust gegn Menntaskólanum á Akureyri og með tungumýkt reyndu að eyða því máli, eins og t. d. ummæli þeirra, að ráðlegra væri að byggja góða heimavist fyrir utanbæjarnemendur við menntaskólann í Rvík, sýna, þá ættu nú að vera einhverjar heimavistir hér, en það er ekki svo mikið sem eitt einasta rúm við Menntaskólann í Rvík eftir aldarfjórðungsbaráttu. Slík er reynslan af afturhaldinu í landinu, — og er nokkuð minni ástæða að ætla að eins færi nú? Hv. 2. þm. Árn. segir í sínu nál., að málið skorti undirbúning. Hvaða undirbúning telur þm. að vanti? Ég sé ekki, að það þurfi neinn frekari undirbúning til þess, að Alþ. gefi þá viljayfirlýsingu, að menntaskólar skuli verða stofnaðir á Ísafirði og Eiðum.

Ein röksemdin gegn menntaskólum á umræddum stöðum er sú, að núverandi menntaskólar hafi miklu betri aðstöðu til góðrar kennslu, en smærri skólar dreifðir um landsbyggðina og auk þess hafi þeir söfn og fleiri slík hjálpargögn. Þetta er að miklu leyti rétt, — en á að draga þá ályktun af því, að í Rvík eigi að staðsetja allt, vegna þess að aðstaðan sé þar yfirleitt betri? Á t. d. að flytja alla skóla til Rvíkur vegna þess, að þar er aðstaðan betri til kennslu? Ef til vill er það skoðun þessa hv. þm. Eða er það yfir höfuð álit manna, að allir Íslendingar eigi að búa í Rvík? Ef svo er ekki, sem ég geri frekar ráð fyrir, — skyldi þá ekki vera tímabært að gera tilraun til að jafna aðstöðumun fólksins, sem býr úti á landsbyggðinni, og þeirra, sem búa í Rvík, og gæti ekki þetta mál einmitt verið spor í rétta átt? Loks kemur 2. þm. Árn. að því í nál. sínu, að það kunni að leiða að því, að rétt sé að reisa menntaskóla í sveit, og í því sambandi kemst hann svo að orði: „En þá yrði líka að vanda til alls, svo að andrúmsloft sveitanna kæmist þar að og nyti sín. Slíkur menntaskóli mætti ekki verða í neinni þeirri hvirfingu, er kynni á leiðinlegan hátt að minna á það, er raskar rónni í stórbæjunum.“ Þarna kemst þm. að þeirri niðurstöðu, að jafnvel sé of mikil hvirfing á Laugarvatni, — en hvað mun þá um báknið, sem hann vill reisa í Rvík? Hv. þm. vildi sennilega frekar staðsetja menntaskóla á eyðibýlinu Skálholti, þó að hann bæri það ekki fram. (EE: Var ekki nógu fljótfær til þess.) Hins vegar tel ég, að Laugarvatn sé bæði fjárhagslega og menningarlega heppilegasti staðurinn fyrir umræddan skóla. — Hugleiðingar sínar endar svo 2. þm. Árn. með því að leggja til, að málinu verði vísað frá með svohljóðandi rökstuddri dagskrá: „Í trausti þess; að ríkisstj. hlynni sem bezt að þeim menntaskólum, sem nú eru í landinu, svo sem með því, að gerðar verði heimavistir fyrir fátæka utanbæjarnemendur, og taki jafnframt til athugunar, hvar hentast mundi síðar að reisa menntaskóla í sveit, ef skólum þessum yrði fjölgað, sem eigi þykir ástæða til að svo komnu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“ Ég skil ekki, hvers vegna sumum er svo annt um að bregða fæti fyrir þetta frv. Það er ekki eins og það sé markmiðið með frv. að rýra á nokkurn hátt hlut þeirra skóla, sem fyrir eru, heldur þvert á móti.

Annars er það ekkert nýtt, að afturhaldsmenn í landinu þvælist fyrir menntaskólastofnun. Við höfum í því efni fyrir okkur sögu menntaskólamálsins fyrir 25 árum. Aðalandstæðingar þess máls, þeir Magnús Jónsson, Bjarni frá Vogi og Jón Þorláksson, héldu því fram, að nægilegt væri að hafa einn menntaskóla og að stúdentaviðkoman, sem þá var, 20–30 á ári, væri alveg nægileg, en hins vegar þóttust þeir vilja byggja heimavist til að jafna aðstöðu nemenda, sem ekki er þó búið að byggja enn. Þeir, sem börðust fyrir málinu, bentu á, að nú þegar væri hluti þjóðarinnar búsettur í Rvík og hversu hættulegar afleiðingar það gæti haft fyrir þjóðina, ef fólksflutningarnir úr sveitum og sjávarþorpum til Rvíkur héldu áfram. Hvað mundu þessir menn segja nú, þegar nálægt 2/3 hlutar þjóðarinnar eru búsettir í Rvík. Nei, það er alveg víst, að menn verða að gera það alvarlega upp við sig, hvort þeir óska eftir, að öll þjóðin setjist að í Rvík, og ef þeir komast að þeirri niðurstöðu, sem ég geri ráð fyrir, að það geti orðið mjög háskalegt fyrir þjóðina, þá verða þeir að stuðla að með raunhæfum aðgerðum, að aðstaða þeirra, sem úti á landsbyggðinni búa, verði bætt. Eða á það að fara eftir því, hvaða hæfileika og hvaða þroska menn hafa, hvar sem þeir eru búsettir á landinu? Og það er táknrænt, að þeir, sem lögðu sig mest fram um að þvælast fyrir menntaskólamálinu fyrir um 25 árum síðan, þeir reyndu það — eins og nú er reynt að gera af veikum burðum — með því að slá því fram, að þetta væri langbezta lausnin, að byggja heimavist við Menntaskólann í Rvík. En ekki sjást merki þess, að þennan aldarfjórðung, sem liðinn er síðan, hafi þeir gert mikið til þess að koma þessari ágætu hugmynd í veruleika. Það hefur vakið furðu mína, að það voru einmitt háskólaborgarar á Alþ. fyrir 25 árum, sem börðust hatramlegast á móti því, að Norðlendingar fengju jafnrétti við Sunnlendinga um að fá menntaskóla. Svo að segja hver einasti þm., sem mælti í gegn málinu þá, var háskólaborgari, og hv. 2. þm. Árn. er víst háskólaborgari. En alþýðumennirnir á þingi og ýmsir góðir menn með þeim, einstöku háskólaborgarar líka, höfðu góðan skilning á málinu, og þeirra innsýn í framtíðina virðist hafa verið nær veruleikanum heldur en hinna lærðu manna og skarpvitru á þeim dögum. Sveinn í Firði var einn þeirra manna, sem fyrir 25 árum skildi menntaskólaþörf Norðlendinga. Aðrir sögðu þá ýmsir, að það mál væri einskisvert og metnaðarmál Norðlendinga. Sveinn í Firði svarar þessu þannig þá: „Metnaðurinn á alltaf fullan rétt á sér, ef hann er heilbrigður og horfir fjöldanum til heilla, svo sem hér er. Hér er á ferðinni gott mál og nytsamlegt. Málið stutt af mönnum úr öðrum landshlutum. — Eftir mínum hugmyndum um þessa hluti, er Reykjavík einhver allra óhollasti og lakasti staður á landi hér fyrir uppeldi ungmenna. Mótbára, að ekki mundu verða til sómasamlegar stöður fyrir allan þann sæg stúdenta og lærðra manna, sem kæmi, ef skólarnir yrðu tveir. Ég er þó ekki hræddur við þetta. Þeir gætu orðið bændur, iðnaðarmenn, kennarar, o. s. frv. Og hvað er við því að segja nema gott eitt að eignast skólagengna, jafnvel háskólagengna bændur? Það er engin nýlunda hjá nágrannaþjóðunum að hitta slíka menn meðal bænda, og bæði hafa þeir verið hér og eru til í bændastétt.“

Einn af þeim, sem lögðust á móti menntaskólamáli Norðlendinga, var Jón Auðunn Jónsson. Hann sagði þá: „Kostnaðurinn við þennan alóþarfa Akureyrarskóla væri fé, sem að mestu væri kastað á glæ.“ — Hvað ætli reynslan hafi sýnt nú um þennan dóm fyrrv. þm.? Ég efast um, að nokkur sé til á Alþ. nú, sem vildi taka undir þetta. Og þessi þm. sagði: „Við höfum nóga menn til að standa fyrir verklegum framkvæmdum, nema ullarverksmiðju. Ekki er þörf á stofnun menntaskóla á Akureyri vegna þessara tveggja manna.“ Svona talaði þessi þm. En ég hygg, að það hafi orðið verkefni til fyrir þá, sem útskrifazt hafa frá Menntaskólanum á Akureyri, nokkurn veginn allt til þessa dags, og skipta þeir menn þó mörgum hundruðum.

Það gekk ekki fyrir sig á einu ári að koma fram menntaskólamáli Norðlendinga. Því var hreyft árum saman, og það var barizt á móti málinu eftir ótrúlegustu leiðum. Meira að segja — ég get ekki stillt mig um að skýra frá því — eftir að Norðlendingar höfðu fengið leyfi til þess, að ungt fólk fengi að stunda stúdentsnám fyrir norðan, en ekki að taka stúdentspróf þar, en piltarnir áttu að fara til Reykjavíkur til að taka þar próf, þá vitnaðist það, að þáverandi rektor menntaskólans hafði beðið kennara Menntaskólans í Rvík að veita ekki piltum að norðan stundakennslu. Svona frekt var hamazt á móti málinu, að það var beinlínis gert í menntaskóla þjóðarinnar að bregða fæti fyrir pilta að norðan, sem óskuðu að kynnast kennurum við Menntaskólann í Reykjavík, með því að fá hjá þeim tímakennslu. Kennaralið skólans var á þeim tíma beðið um það af rektor skólans að veita þeim ekki tímakennslu. — Ég hygg, að menn sjái, að þegar svona er hamazt á móti góðu máli, þá er komið í óefni fyrir mönnum.

Rétt áður en menntaskóli Norðlendinga fékk afgreiðslu á Alþ.-–1924 var það, sem þál. fékkst samþ. um málið — lagði þáverandi fræðslumálastjóri, núverandi hv. þm. V-Ísaf., málinu lið með þessum orðum:

„Ótti manna við stúdenta er annars broslegur. Og eins og þingið virðist hrætt við þá, sýnist undarlegt, að það skuli ekki grípa til róttækra ráðstafana til að girða fyrir, að nokkrir verði stúdentar. — Að menn skuli t. d. ekki hrifsa stafrófskverin af börnunum, áður en þau verða læs, af ótta við, að þau verði einhvern tíma stúdentar. En stúdentahræðslan er gersamlega ástæðulaus í sambandi við þessa tillögu, nema menn vilji draga úr stúdentamenntun með þeim hætti að gera námið svo dýrt, að ekki geti aðrir en Reykvíkingar og auðugustu utanbæjarmenn komið sonum sínum og dætrum á framfæri. En þess er að gæta, að fleiri landshorn eiga rétt á sér en það, sem við byggjum. Hér í Reykjavík senda foreldrarnir börn sín á menntaskólann, og ríkið greiðir kostnaðinn, ca. 500 kr. á hvert barn á ári. — Nú greiðir hver að meðaltali 80–100 kr. í ríkissjóð á ári, og hagnast því Reykjavíkurbúar ekki lítið á þessum viðskiptum við ríkissjóð. Það er meiri en lítil hætta búin menningu vorri af þessari sérstöðu Reykjavíkur. Kjarni þjóðarinnar hefur til þessa ekki þroskazt í Reykjavík. ...... Tillagan sparar að vísu ekki fé ríkissjóðs, heldur fé fátækra námsmanna.“

Ég hef með þessum tilvitnunum í umræður frá 1923 og 1924 komið inn á mörg atriði, sem hafa verið uppistaða í umr. nú, þegar þetta mál, sem hér liggur fyrir, var flutt í fyrra og nú, þegar það er flutt á þessu þingi. Og ég tel, að sagan hafi endurtekið sig hér, bæði að því er snertir málstað þeirra, sem berjast nú fyrir þessu máli, og einnig saga þeirra, sem börðust á móti menntaskólamálinu 1923 og 1924, í baráttu þeirra, sem berjast á móti málinu nú.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið. Ég treysti því, að allir hv. þm. sjái, að hér er á nákvæmlega sama hátt eins og fyrir 25 árum síðan verið að reyna að bregða fæti fyrir þetta mál og með sömu aðferðum, með því að hjala um heimavistarbyggingu við Menntaskólann í Rvík, sem leysi allra þörf og veiti öllum jafnréttisaðstöðu, og með því síðan að bera fram rökst. dagskrá um að vísa málinu frá. En eins og þeim ágætu mönnum, sem börðust gegn menntaskólamálinu fyrir 25 árum, sem þá lá fyrir hæstv. Alþ., missýndist hrapalega um hættuna, sem þeir töldu, að stafaði af aukinni stúdentaframleiðslu, og um, að engin þörf væri fyrir menntaskóla Norðurlands, eins missýnist hv. 2. þm. Árn. og þeim, sem við hlið hans standa til þess að berjast á móti þessu máli, þrátt fyrir það þótt þeir hafi stórt og gott höfuð á herðunum.