13.12.1948
Efri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (3516)

47. mál, menntaskólar

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir skoðun minni í þessu máli, en vil þó segja fáein orð til viðbótar vegna þess, sem fram hefur komið. — Þetta frv. sætir allmikilli mótstöðu, og eru helztu rökin, sem færð eru gegn því, þau, að stúdentaframleiðslan sé þegar of mikil. En mér finnst andstæðingar frv. ekki gá nægilega vel að því, að stúdentsmenntunin er aðeins spölur á leiðinni til háskólanáms og nú er háskólanámið orðið svo miklu fjölþættara en það var áður og þörfin fyrir háskólagengna menn á hinum ótalmörgu sviðum alltaf að aukast. En svo er auk þess annað atriði, og það er, að kröfur um almenna menntun eru svo miklu meiri en þær voru áður, og má segja, að stúdentsprófið nú sé hlutfallslega ekki meiri menntun en gagnfræðaprófið var fyrir 30 árum.

Þegar l. um menntaskóla á Akureyri voru sett fyrir 25 árum, voru rökin nákvæmlega þau sömu sem færð voru gegn því frv. og þessu, sem hér liggur fyrir. Andstæðingar frv, beita þeim rökum, að hægt sé að bæta úr aðstöðumun þeim, sem nú er til menntaskólanáms, með því að byggja mikla heimavist í Rvík., og víst gæti það verið til bóta, en það bætir ekki aðstöðumuninn, sem fólginn er í því að hafa slík menntasetur í héraðinu. Þess vegna tel ég frv. stefnuyfirlýsingu í þá átt að minnka aðstöðumun fólksins í Rvík og fólksins úti á landsbyggðinni og þar af leiðandi spor til þess að draga úr fólksstraumnum til Rvíkur.