13.12.1948
Efri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (3518)

47. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Ég vildi taka til máls vegna þess, sem hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. N-M., sagði. Hann gerði hér tilraun til að blása sig út af vandlætingu vegna þess, að ég kæmi með aðdróttanir í nál. mínu, þar sem ég varaði við því, að menntaskólar væru reistir á þeim stöðum í sveitum, þar sem sukk væri eins og í stórborgum — og taldi að ég hefði átt við Eiða og Laugarvatn. Þessu er alls ekki þann veg farið. Ég hef ekki hugmynd um það, hvort t. d. á Eiðum er nokkuð slíkt að forðast. Um Laugarvatn er það á hinn bóginn vitað, að það er ákaflega mikil tilhneiging í þá átt að dyngja þar saman mörgum skólum; og þó að það geti allt faxið vel, þá vildi ég benda á, að þessu geta fylgt vissar hættur. Hvað breiðan sem hv. þm. gerir sig, er þetta athugavert. Ég get tekið það dæmi, að þegar byggingar húsmæðraskóla hafa verið til umræðu, hafa húsmæðurnar í vissum héruðum mælt á móti því, að þeir væru settir þar, sem fjölmennir skólar eru fyrir, og heldur viljað, að þeir væru út af fyrir sig. Þessi athugun er einmitt nauðsynleg, áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar í þessu efni. Það er því ekkert annað, en misheppnaður smáleikur, sem hv. 1. þm. N-M. setur hér á svið út af þessu.

Hv. þm. taldi stúdentsmenntun mjög nauðsynlega og minntist í því sambandi á íhald og „aftaníossa“. Nú er hann raunar ekki stúdent, og hann er því dæmi um það, að menn geta orðið ágætir borgarar, þótt menn hafi ekki þá menntun — hann er beinlínis praktexemplar af slíkum manni. En þetta er nú sagt í gamni. Hitt er annað mál, að stúdentsmenntunin þarf að vera sem gagngerðust, og þegar stúdentaskólarnir rísa í sveitum, þurfa þeir að vera stúdentaskólar í orðsins beztu merkingu.