13.12.1948
Efri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3519)

47. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég vildi nú helzt vera stuttorður. Mér virðist við umræður, að frekar sé reynt að draga málið á langinn, en varpa ljósi yfir það. Þó voru ýmis atriði í ræðu hv. 8. landsk., sem upplýstu málið í ýmsar áttir, og var prýðilegt að fá þau fram, og hið sama hjá hv. 2. flm.Hv. þm. Barð. hefur tvívegis vikið að fjárhagshlið þessa máls. Eins og ég hef tekið fram, þá tel ég, að með þessu frv. sé ekki lagt í sérstaklega mikinn kostnað og að fjárhagshliðin komi fyrst til greina, þegar kemur að því, að hús þurfi að reisa, og yrði þá að flytja ný frv. um það á Alþ. En ég veit, að það vakti fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir kostnaðinum í framtíðinni. Það gæti hann t. d. gert með því að líta á kostnaðinn við Menntaskólann á Akureyri í fjárlagafrv. 1949. Það er allfjölmennur skóli með stórri heimavist, og heildarkostnaður er 825.710 kr. Á Ísafirði yrði langt þar til skólann sæktu fleiri en ca. 120 nemendur, og hið sama mundi að segja um Eiða og Laugarvatn um langa framtíð. Skólinn á Ísafirði yrði fyrst um sinn heimavistarlaus, en heimavistir yrðu aftur á Eiðum og á Laugarvatni. Ég get af þessum samanburði ekki ímyndað mér, að fjárhagshliðin fældi menn frá að samþykkja þetta frv., sem fyrst og fremst er stefnuyfirlýsing um það, hvort talið sé heppilegra, að skólarnir séu fleiri og smærri og dreifðir um landsbyggðina eða eitt allsherjar skólahús í Rvík. Og með samþykkt frv. yrði þetta svona, að skólarnir væru staðsettir í öllum landshlutum — þar af tveir í sveitum — og þetta væri kerfið, sem með þessu væri slegið föstu í framtíðinni. Og hve sá maður, sem búinn er að gera það upp við sig, að þessi skipun sé eðlilegust, getur greitt atkv. með þessu frv. Afstaðan til hinna tveggja sjónarmiða, um víðari eða þrengri staðsetningu, á að ráða öllu um afstöðuna til frv. og annað ekki. Ef til þess kæmi, að t. d. Ísafjarðarskólinn þyrfti að fá fjárhagslega aðstoð á næstunni til kennslu vegna samþykktar þessa frv., þá þyrfti til þess sérstaka fjárveitingu frá Alþ. ein 30 þúsund, en ekki meira, svo að kostnaðarhliðin er hverfandi.

Ég vil minna á, að fyrir 25 árum kom andstaðan gegn menntaskóla á Akureyri fram í sömu myndum og hún birtist nú gegn þessu frv. Það var talað um, að réttara væri að byggja bara heimavist, og það kom fram rökstudd dagskrá þá eins og nú. En þó að miklir krafta- og áhugamenn vildu drepa málinu á dreif og töluðu um að byggja heimavistir við menntaskólann í Rvík, liðu samt þau 25 ár, sem síðan eru liðin, án þess að sú heimavist léti á sér bóla. Hv. þm. Barð. spyr, hvort það sé ekki fyrst og fremst Pálma Hannessyni að kenna. En það er fjarstæða. Það er fyrst og fremst því að kenna, að þetta var aldrei annað en tal, sem notað var í blekkingaskyni til að koma góðu máli fyrir kattarnef. — Nú horfir málið hins vegar svo við, að sýnilegt er, að menntaskólar hljóta að rísa í sveitunum, og mér þykir því ólíklegt, að það verði nokkuð af heimavist við Menntaskólann í Rvík. Þeir menn eru á eftir tímanum sem impra á því lengur, og því ekki eins þægilegt að nota þá hugmynd í blekkingaskyni.

Í sambandi við skólann á Laugarvatni upplýsti hv. þm. Barð., að þegar hann og aðrir í fjvn. komu þangað um daginn, hefðu þeir séð, að það var sérstakt eldhús fyrir húsmæðraskólann og annað fyrir héraðsskólann, og hann dró þá ályktun, að úr því þeir gátu ekki haft sameiginlegt eldhús, mundi svo fara, að menntaskólinn hefði þriðja eldhúsið, og væri því ekki betur settur þarna en annars staðar. Þarna virðast nú ráða önnur sjónarmið en skólamannsins. Ég hafði talið, að það skipti mestu máli, að með því að fleiri skólar væru saman, væru tryggðari not af góðum kennslukröftum, og væri það að því leyti mestur vinningur. En svo er t. d. einn íþróttasalur og ein sundlaug fyrir alla skólana á Laugarvatni, og ef til vill gætu skólarnir átt sameiginlegan samkomusal — miklu fremur en sameiginlegt eldhús.

Þetta frv. hefur verið flutt tvisvar sinnum alveg óbreytt, en er nú flutt í þriðja sinn breytt. Það hefur sem sagt verið byrjað á að halda menntaskóla einn vetur á Laugarvatni, og er þetta því annað árið, sem menntaskóli er haldinn þar, svo að þróunin er búin að skera úr um menntaskólastað á Suðurlandi. Hvað viðvíkur því, að ég vilji ekki hlynna að hinum 100 ára gamla menntaskóla í Reykjavík og menntaskólanum á Akureyri, þá teljum við, að þótt þróun tímans hafi sýnt, að menntaskóla vantaði á Austur- og Vesturlandi, þá eigi ekki að vanrækja hina. Hvað viðvíkur ummælum hv. þm. Barð., að ég hefði gert lítið úr kennaraliði menntaskólans í Reykjavík, þá er það misskilningur, því að skólinn hefur á að skipa úrvals kennaraliði, en verður auk þeirra að notast við misjafna stundakennara. Hvað viðvíkur því, sem hann hafði eftir mér, að Reykjavík væri hinn versti staður til uppeldis æskulýðsins, þá er orðalagið tekið eftir öðrum hv. þm., tekið úr alþingistíðindunum frá þeim árum, sem barátta stóð yfir um menntaskóla á Akureyri. Ég var sammála þm. um það, að sem uppeldisstöð væri Reykjavík ekki heppilegasti staðurinn, og er ekkert hallað á Reykjavík með því.

Ég er sammála einu atriði, sem hv. 2. þm. Árn. tók fram, að það væri gefinn hlutur, að hvert hérað fengi sína skóla, og hafið yfir allar umræður. Ég er hv. þm. algerlega sammála um þetta, og þróunin verður sú, að bæði Austurland og Vesturland fá sína menntaskóla fyrr eða síðar og árangurslaust að bolast við þeirri þróun í skólamálum. Bjarni frá Vogi, Jón Þorláksson, Magnús Jónsson o. fl. sáu ekki, að þróun tímans heimtaði menntaskóla á Norðurlandi. Hið sama hendir nú þá, sem berjast gegn menntaskólum á Austur- og Vesturlandi. Þeim blöskraði, að 20 stúdentar skyldu útskrifast á ári og útlit væri þá, að þeir yrðu 30. Þeir voru hræddir við þessa miklu stúdentaviðkomu. Og enn er hamrað á því, að stúdentaviðkoman sé of mikil. En þó þarf nú stúdentsmenntaða menn á fleiri og fleiri sviðum. Eru of margir læknar? Stendur ekki fjöldi læknisembætta óskipuð víðs vegar um landið? Og hér virðast læknarnir hafa nóg að gera, langar biðraðir hjá hverjum lækni. Eru of margir prestar? Nei, víða eru óskipuð brauð hingað og þangað um landið. Ég hef ekki heldur enn heyrt um atvinnuleysi hjá lögfræðingum. Að vísu fást enn menn í embætti eins og sýslumanna- og bæjarfógetaembættin, en svo er fjöldi fyrirtækja, sem þarfnast manna með þessa menntun, fyrir utan þá, sem praktisera. Hin gömlu embætti ein útheimta margfalda þá tölu, sem menn óraði fyrir fyrir 25 árum, auk þess, sem atvinnuvegirnir taka fjölda manna til sín. Auk þess gegnir fjöldi manna, sem ekki hafa tilskilda menntun, kennarastörfum við framhaldsskólana. Það verður því áreiðanlega ekki hægt að vera á móti þessu frv. á þeim grundvelli, að of margir stúdentsmenntaðir menn séu nú í landinu og að það yrði offramleiðsla á stúdentum. Og ég held, þótt kæmi menntaskóli á Ísafirði, sem útskrifaði árlega 20–30 stúdenta og annar eins á Eiðum, að enginn þyrfti að kvíða offramleiðslu á stúdentum. Hér liggur nú fyrir rökstudd dagskrá, þó að ég verði að segja, að ég hafi aldrei séð eins órökstudda dagskrá. Mér þykir því einsætt, að hún verði felld.