22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (3535)

47. mál, menntaskólar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég teldi eðlilegast, að hæstv. menntmrh. hefði svarað þessari fsp., en hann mun nú vera að sinna skyldustörfum annars staðar hér í húsinu og getur það því ekki að sinni. Ég skal játa það, að ég hef ekki kynnt mér þetta atriði, en það mun vera rétt, að á Laugarvatni fer fram kennsla samsvarandi kennslu í 1. bekk lærdómsdeildar menntaskólanna. Á þessu þingi var borin fram fsp. um þetta mál, — mig minnir af hv. 4. þm. Reykv., og hæstv. menntmrh. svaraði þá þeirri. fsp., og hafi hv. þm. Ísaf. verið viðstaddur, þá hlýtur hann að hafa fengið upplýsingar um þetta. Ég álít því, að nægilegt sé að vísa til þess, sem áður hefur fram komið hér í þinginu um þetta mál, en vil geta þess, að ég fyrir mitt leyti álít ekki, að stofnaður sé menntaskóli á Laugarvatni, heldur sé stofnað til kennslu fyrir einn bekk í menntaskóla og honum haldið uppi af því starfsliði, sem fyrir var við skólann, en aukakennslan í þessu sambandi er greidd af fé, sem veitt er til aukakennslu, því að skólarnir fá alltaf fé til aukakennslu, bæði til að borga stundakennurum og kennurum, sem fengnir eru í forföllum. — Annars vil ég aðeins endurtaka það, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að hæstv. menntmrh. mun svara þessum fsp. við tækifæri.