22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3538)

47. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þar sem fsp. þær, er ég bar hér fram í vetur, hefur nú borið á góma, þá vil ég segja nokkur orð af því tilefni. Fsp. mín var um það, hversu margir nemendur hefðu stundað menntaskólanám á Laugarvatni s.l. vetur og hversu margir stunduðu slíkt nám í vetur, og í 2. lið fsp. var spurt um, hver kostnaðurinn hefði verið við þessa kennslu. 3. liður fsp. minnar var um það, samkv. hvaða lagaheimild kostnaður þessi væri greiddur úr ríkissjóði. Hæstv. menntmrh. svaraði þessari fsp. á þann veg, að í fyrra hefðu 8 nemendur stundað þetta nám, en nú í vetur 18 nemendur, þar af 10 í 1. bekk og 8 í 2. bekk. Kostnað kvað hann hafa orðið um 20 þús. kr. í fyrra vetur, en mundi verða um 40 þús. kr. í vetur, og hæstv. menntmrh. játaði, að kostnaðurinn hefði verið greiddur úr ríkissjóði án sérstakrar lagaheimildar. Jafnframt tók hæstv. menntmrh. það fram, að þarna væri ekki verið að stofna menntaskóla, heldur væri með þessu verið að gera tilraunir í þá átt, hvort heppilegt mundi að hafa þarna menntaskóla eða ekki. Ég vil taka það fram, að ég tel þetta mjög óviðkunnanlegt, að fara þannig á bak við sjálft Alþ. í þessu, og ég tel algerlega óviðeigandi að efna til þessarar kennslu án nokkurrar fjárveitingar til hennar. Ef þurfa þótti að gera slíkar tilraunir, var sjálfsagt að taka upp fjárveitingu á fjárlögunum í því skyni, en ekki að fara þannig á bak við Alþ. Með þessu er ég ekki að ræða um það principielt hvort stofna skuli skóla á Laugarvatni eða ekki, heldur hitt, að með þessu, eins og það er framkvæmt nú, er verið að sýna Alþ. óvirðingu sérstaklega þar sem segir í lögunum, að stofna skuli menntaskóla í sveit, þegar veitt sé til þess fé á fjárlögum. Hér er því farið á bak við þingið, en úr því að farið er út á þessa braut, þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að eins sé farið að annars staðar á landinu, t. d. á Ísafirði, og ég sé satt að segja ekki, hvernig hægt er að standa móti því, ef viss skilyrði eru fyrir hendi. Það liggur auðvitað í augum uppi, að það er ekki heppilegt fyrirkomulag að hafa 8 eða 10 nemendur í bekk, eins og gert er á Laugarvatni, og ef skólastjórinn á Ísafirði, eða einhver skólastjóri einhvers staðar á landinu, telur sig hafa fleiri nemendur til þessa náms, þá finnst mér sjálfsagt, að hann fái frekar fé til þessarar kennslu, en Laugarvatnsskólinn. Annars virðist mér, að hér sé farið út á mjög hættulega braut, og tel það síður en svo til fyrirmyndar að stofna til slíkrar kennslu að Alþ. forspurðu.