19.12.1948
Efri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef nú í nál., sem þegar hefur verið lesið hér í hv. d., tekið fram mína afstöðu til málsins, og málið hefur nú verið mikið rætt í báðum þd., svo að lítil þörf er að bæta þar miklu við. Þetta er síðasti áfanginn í viðureign hæstv. ríkisstj. við dýrtíðina, en langstærsta stefnumál hæstv. ríkisstj., sem sett var fram af miklum bægslagangi, var að vinna bug á verðbólgu og dýrtíð. Síðan hefur það skeð, að tollar hafa hækkað meira en dæmi eru til, eða um 50 millj. kr. á ári. Um sama leyti í fyrra lagði hæstv. ríkisstj. fram frv. um nýjar álögur á almenning, jafnframt því að kaupgjaldsvísitalan var bundin í 300 stigum, og nú er lagt fram nýtt frv. um nýjar álögur, sem nema yfir 30 millj. kr. Enn fremur er von á frv. um að margfalda benzínskattinn, og sömuleiðis á að hækka innlendar tollvörutegundir. Þessar hækkanir nema að líkindum milli 10 og 20 millj. kr., eða hækkanirnar alls 40–50 millj. kr. Á tveim árum hafa því nýjar álögur á almenning komizt upp í um 100 millj. kr. Á sama tíma er kaup lækkað með lögfestingu vísitölunnar. Vinnubrögð ríkisstj. einkennast af blygðunarleysi og belgingi, og það sama er um ræður sumra hæstv. ráðh. að segja. Þetta var þó ekki einkenni á ræðu hæstv. fjmrh., því að hann var tiltölulega hógvær í sinni ræðu.

Í upphafi 1. gr. dýrtíðarlaganna, sem hæstv. ríkisstj. bar fram í fyrra, er sagt, að þau séu fram borin til að vinna bug á dýrtíð og verðbólgu, og sýndi ég fram á þá, það sem lá í augum uppi, að frv. mundi ekki verða til þess, heldur til þess að auka dýrtíðina í landinu, svo sem komið hefur á daginn. Dýrtíðin hefur sem sagt stöðugt aukizt og kaupmáttur launanna þorrið. Raunverulega ætti vísitalan að vera á fimmta hundrað stig. Þetta er að vísu álitamál, en tveir hagfræðingar, sem athuguðu þetta, komust að þeirri niðurstöðu, að vísitalan ætti að vera 405 stig, og er þá ekki tekið tillit til svartamarkaðsverðs, en svartur markaður er nú sívaxandi þáttur í okkar þjóðlífi. Þessi aukna dýrtíð er til komin fyrir beinar aðgerðir hæstv. ríkisstj. og stafar af auknum tollum og gjöldum og vöruskorti. Kauplækkanir af þessum sökum hafa orðið slíkar, að verkalýðsfélögin hafa neyðzt til að knýja fram grunnkaupshækkanir. Þó hefur þeim ekki tekizt að halda í horfinu. En verkföllin, sem af þessu hefur leitt, hafa kostað þjóðina ótaldar milljónir. Það er sama, hvernig hæstv. ríkisstj. rembist, þessu verður ekki mótmælt, og það er sama, þótt hún rífi sig um vonzku kommúnista. Það er engin afsökun fyrir hana.

Kem ég þá að síðasta þætti í viðureign ríkisstj. við dýrtíðina, en það er það frv., sem hér er til umr. Þar er haldið áfram á sömu braut. Allar gömlu álögurnar endurnýjaðar og nýjum bætt við. Mér telst svo til, að nýjar álögur nemi samtals yfir 30 millj. kr., ef maður heldur sér við áætlun stj. Söluskatturinn hækkar um helming, eða um 17 millj. kr., en aðrar álögur í frv., eins og það er nú, nema samtals um 14 millj. kr. En í raun og veru hækkar söluskatturinn um meira en helming, enda þótt tekjur af honum séu ekki áætlaðar meiri en tvöfaldar tekjur s.l. árs. Þá eru þær greinar, sem um hann fjalla, torskildar og illa samdar, það vantaði t.d. í þær heilar setningar. Nú er sagt, að á leiðinni sé frv. um margföldun á benzínskatti og nemi hækkunin 10 millj. kr. eða meira. Alls verða þetta því 40–50 millj. kr., haldi maður sér við áætlun stj. Allt eru þetta nær eingöngu álögur á neyzlu, og dýrtíðin vex því að sama skapl. Söluskatturinn leggst á flestar neyzluvörur almennings, kvikmyndaskatturinn á þá, er sækja kvikmyndahúsin, en það er sem kunnugt er ein helzta dægrastytting almennings, og ef það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að á næsta ári verði fluttir inn jeppar og bifreiðar til atvinnubílstjóra, sem ég að vísu dreg í efa vegna undanfarandi reynslu, þá kemur skatturinn á þessi farartæki líka fram í hækkuðum fargjöldum og hvað jeppa snertir í þungum skatti á bændur, sem notaður verður sem röksemd fyrir hækkuðu verði á landbúnaðarafurðum, en það leiðir svo aftur af sér aukna þörf á niðurgreiðslum. Þessi skattur var lækkaður í Nd. samkvæmt kröfu Framsfl., en hann hlýtur að hafa áhrif á búrekstur bænda, sérstaklega þegar ráðgerð er stórhækkun á benzínskattinum. Um skattinn á rafmagnstæki til heimilisnotkunar er hið sama að segja, hann lendir einnig á almenningi. Skatturinn á utanferðir lendir ekki fyrst og fremst á ríku fólki, því að margt af því sleppur a.m.k. að verulegu leyti, þar sem það á gjaldeyri erlendis og fær bara gjaldeyri til málamynda. Ríkisstj., er ætlaði að vinna bug á dýrtíðinni, hefur unnið að því í tvö ár að auka hana. Í tvö ár hefur stj. flutt frv. um dýrtíðarráðstafanir, og það er rétt, það hafa verið frv. um dýrtíðarráðstafanir, en ekki til þess að draga úr dýrtíðinni, heldur til þess að auka hana. Réttnefni hefði verið frv. til l. um aukningu dýrtíðar o.s.frv. Ef þetta frv. er samþ., mun dýrtíðaraldan rísa enn á ný og kaupmáttur launanna þverra, svo að ekki verður hægt að framfleyta venjulegri fjölskyldu með venjulegri dagvinnu allt árið. Það hlýtur þá að því að draga, að verkamenn rísi upp til varnar. Þeir eiga einskis annars kost, ef þeir eiga að geta framfleytt heimilum sínum, og þó að stj. þykist eiga meiri hl. í Alþýðusambandinu, eiga verkamenn samt nóg afl til þess. — Því er haldið fram, að þetta frv. sé fram borið til þess að tryggja rekstur bátaútgerðarinnar og til þess að greiða niður landbúnaðarafurðir. Eins og hv. 6. landsk. hefur sýnt fram á, hafa sum blöð jafnvel haldið því fram, að allar 70 millj., sem renna skulu í dýrtíðarsjóð, eigi að fara til útgerðarinnar. Slíkt er náttúrlega fjarstæða, sem ekki tekur að ræða. Ef frv. er athugað nánar, lítur út fyrir, að það dugi ekki til þess að tryggja rekstur bátaútvegsins. Útgerðarmenn segjast ekki geta farið af stað, nema þeir fái 70 aura verð fyrir hvert kg. af fiski, það sé það lægsta, sem hugsanlegt sé. Það eru því beinlínis horfur á því, að útgerðin stöðvist, og ef farið hefði verið að ráðum stj. óbreyttum, þá hefði hún stöðvazt. Samtök hraðfrystihúsaeigenda og útgerðarmanna hafa sagt, að þau muni beita sér fyrir stöðvun, og þess vegna voru gerðar breyt. á frv. að ráði ríkisstj., og það eru vissulega hennar handbrögð á breyt. Stj. var heimilað að verja allt að 5 millj. kr. til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða á þann hátt, sem henni sýndist, án þess að nokkrar frekari reglur væru um það settar. Nú hefur verið lesið hér bréf af hv. þm. Barð., þar sem útgerðarmenn lýsa því enn yfir, að þeir muni ekki geta rekið báta sína, ef ekki verði gerðar frekari ráðstafanir en þær, sem felast í frv. Frv. nær því ekki þeim tilgangi að koma í veg fyrir það, að útgerðin stöðvist. Auk þess hafa verið færð rök fyrir því, að skuldaskilakafli frv. nær ekki þeim tilgangi að verða aðstoð fyrir bátaútveginn, heldur munu ákvæði hans valda miklum truflunum í rekstri útvegsins. Þegar nánar er að gáð, sést líka, að það er blekking ein, að skattar þeir, sem frv. gerir ráð fyrir, séu lagðir á til þess að standa undir ábyrgðarverði bátafisksins og til þess að greiða niður landbúnaðarafurðir. Gert er ráð fyrir því, að ríkissjóður þurfi ekki að greiða vegna fiskábyrgðarinnar á þessu ári nema helming þess, sem greitt var í fyrra. En nú er bætt við í þessu frv. nýjum álögum, sem nema yfir 30 millj. kr. Það koma þá 40 millj. kr. á landbúnaðarafurðirnar, þótt því hafi verið lýst yfir, að engar útflutningsuppbætur verði greiddar á kjöt. Það sjá allir, að þetta er fjarstæða, enda auðséð á grg. að þetta er ekki meiningin. Þar er gert ráð fyrir 10 millj. kr. hækkun til þessara hluta, 70 millj. í stað 60 millj., og er sú áætlun hærri, en ástæða er til. AF þessu sést, að það eru tylliástæður, að þessir skattar séu lagðir á af þeim sökum, sem stj. segir. Þeir eru ætlaðir til annars, eins og ríkisstj. veit bezt sjálf, og skal ég ekki leiða getur að því, hver ætlunin er, en það á eftir að koma fram. Ég veit, hvert svar stj. verður við till. mínum, ég hef heyrt það svo oft. Hún mun segja, að ekki nægi að bera fram till. um hækkun ábyrgðarverðsins, heldur verði um leið að benda á nýja tekjustofna. Nú er það misskilningur, að það sé hlutverk stjórnarandstöðunnar að semja tekjuöflunarfrv. fyrir hæstv. fjmrh., en ef stj. vill sinna till. sósíalista, þá skal ekki standa á okkur. Ég hef sýnt fram á, að hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða til þess að standa undir bátaútveginum, en ef um það væri að ræða, þá væri bezt að athuga fyrst, hvernig hægt væri að draga úr þenslu ríkisbáknsins. Annars eru stj. kunnar þær leiðir, sem sósíalistar hafa bent á til tekjuöflunar. Við höfum oft lagt þær fram, en þar skilur á milli. Ég álít, að það sé móðgun við útgerðina að gera hana ölmusuþurfa af almenningsfé. Útgerðin er mergsogin af verzlunarauðvaldinu, og hver útgerðarmaður velt, að fengi hún að njóta arðsins af þeim gjaldeyri, er hún skapar, væri hagur hennar góður, ég tala nú ekki um, ef vextir og vátryggingargjöld væru einnig lækkuð. Þá þyrfti útgerðin ekki að lifa á bónbjörgum. Meðan smáútgerðin er rekin með tapi og nokkrir menn hirða gróðann, er það ósvífni að skattleggja hverja spjör og aðrar nauðsynjar, svo að gróðinn renni ætíð í sama farveg. Ef nauðsynlegt er að leggja á skatta, þá er þetta það ráð, sem seinast ætti að grípa til. Það er líka afleitt, þegar blandað er saman sjávarútvegsmálum, fjárhagsmálum, nauðsynjamálum og skaðræðismálum, eins og gert er í þessu frv. Allir eru sammála um það, að fyrsta kaflann þurfi að athuga nánar. Eins og nú er, nær hann ekki tilgangi sínum. Ég legg því til, að I. kafli verði samþ. með mjög verulegum breyt. Ábyrgðarverð fyrir hvert kg. af nýjum fiski verði hækkað upp í 70 aura, og aðrar afurðir hækki í hlutfalli við það, enn fremur fái bátaútgerðin rétt til 1/4 af þeim gjaldeyri, sem hún aflar, miðað við innanlandsverð aflans, til kaupa á nauðsynjum til útgerðarinnar. Í Nd. kom fram till. um þetta, sem gekk lengra og var felld, en þessi till. mín er svo sjálfsögð, að ekki verður á móti henni staðið. Þá legg ég til, að 13. gr., sem fjallar um eftirgjöf til útgerðarinnar, verði samþ., en aðrar gr. II. kafla, sem ég tel að mundi valda miklum truflunum í rekstri útvegsins, felldar. Loks legg ég til, að III. kafli verði felldur niður, þar sem hann miðar að því að auka mjög dýrtíðina í landinu. Að því leyti sem tekjuöflunar þarf við, tel ég sjálfsagt að leggja fram sérstök frv. í því skyni.