29.04.1949
Neðri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3547)

159. mál, þingfararkaup alþingismanna

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl., þá hefur n. ekki orðið sammála um þetta frv., og vill meiri hl. vísa því frá með dagskrá, sem studd er eingöngu með sparnaðarrökum, en minni hl. — þ. e. a. s. ég — vill samþ. frv. Ég vil nú fara nokkrum orðum um þetta mál. Ég tel, að það, að þm. hafi svo mikil laun, að þeir séu engum háðir, sé skilyrði fyrir því, að þm. geti gegnt skyldum sinum eins og þeim ber samkv. stjórnarskránni, enda sýnir saga þingræðisins í öðrum löndum, að að þessu marki hefur verið keppt. Nú eru laun þingmanna hér 79,12 kr. á dag, meðan þing situr, og getur hver maður séð, hvort nokkur, a. m. k. fjölskyldumaður, getur dregið fram lífið með þessum launum. Hv. frsm. meiri hl. benti á, að margir þm. gætu unnið önnur störf þrátt fyrir þingsetuna. Þetta er rétt, og þeir gera það líka, þ. e. a. s. hafa á hendi önnur embætti. Það munu vera hér um 20 þm., sem gegna öðrum embættum hjá ríkinu, en það þarf enginn að segja mér, að þeir ræki þau embætti jafnvel, þegar þeir sitja á þingi, og þann tíma, sem þeir sitja þar ekki. Við vitum, að það er ekki lítill tími, sem fer í fundastörf og nefndastörf og alls konar störf í sambandi við þingið, enda mun það svo, að ýmis embætti hv. þm. séu ekki yfir þingtímann nógu vel af hendi leyst. Í Frakklandi var það einu sinni svo, að menn gátu keypt embætti og hirtu svo launin án þess að koma nokkru sinni í embættið. Við erum nú að síga ofan í þessa sömu gryfju, og ein af ástæðunum fyrir því, að ríkisbáknið er nú orðið svo risavaxið, er sú, að margir af forstjórum ríkisstofnananna eru uppteknir við önnur störf, m. a. þingstörf. Það væri búið að kippa þessu í lag, ef forstjórarnir þyrftu að kaupa menn í staðinn fyrir sig, eins og þm. utan af landi þurfa að gera, en þeir, forstjórarnir, hirða sitt kaup, þótt þeir geti ekki innt störf sín af hendi og verði að fá aðra til að vinna þau. Eitt þýðingarmesta skrefið í baráttunni gegn skrifstofubákninu er það að gera kaup þm. svo hátt, að þeir þurfi ekki á öðrum launum að halda. Það væri þá eðlilegt, að nefndarstörf væru unnin án sérstakrar greiðslu, en það er oft greitt sérstaklega fyrir þau, og má náttúrlega segja, að það sé ekkert athugavert meðan þingfararkaupið er svo lágt. Það væri verulegur sparnaður fyrir ríkið að borga þm. hærra kaup, en láta þá vinna meira í nefndum án sérstakrar greiðslu, en ýmsir þm. eru kvaddir til nefndarstarfa og fá sérstaka borgun fyrir það, og mundi vera hollast, að þm. þyrftu ekki að vera á hnotskóg eftir slíkum bitlingum. Undirstöðurök hv. meiri hl. eru tómt slúður. Ég hefði gaman af því, að það færi fram rannsókn á tekjum þm., tekjum þeirra af ýmiss konar starfsemi og starfi þeirra í nefndum og milliþinganefndum. Það mundi ábyggilega koma í ljós, að það mundi verða sparnaður að fækka við þá bitlingunum og greiða þeim heldur sæmileg árslaun.

Þá er eitt, sem nokkru mun skipta um afstöðu hv. meiri hl. og ekki kom fram í ræðu frsm. Opinberir starfsmenn hafa farið fram á að fá 20% launauppbót á árinu 1949. Mun vera mikill hugur í stjórnarliðinu að synja þessu, og ekkert að furða, þótt þeir, sem þannig ætla að taka í það mál, séu dálítið feimnir við að samþykkja þetta. Kröfur opinberra starfsmanna koma væntanlega til afgreiðslu á þessu þingi, og mun ég ekki ræða það mál frekar. En öll rök, og einnig frá sparnaðarsjónarmiði, mæla með því, að þetta frv. nái fram að ganga. Það er hafið yfir allan efa, að eitt af skilyrðum þess, að Alþ. geti verið það sjálfstæða löggjafarvald, sem því er ætlað að vera, óháð duttlungum ríkisstj. á hverjum tíma, er það, að þannig sé búið að þingmönnum hvað efnahagsafkomu þeirra snertir, að ekki sé hægt að hræða þá frá að fylgja sannfæringu sinni með hótunum um að svipta þá öðrum störfum eða embættum. En það er enginn minnsti vafi á því, að hið lága kaup og bitlingafyrirkomulagið á mikinn þátt í því, að þingið er nú í æ vaxandi mæli að verða hópur manna, sem hlýðir fyrirskipunum í stað þess að hlýða sannfæringu sinni. Það hefur sýnt sig átakanlega, að þingmönnum þykir viðurhlutaminnst að rétta upp hendurnar eins og ríkisstj. þykir bezt í það og það skiptið.