06.05.1949
Neðri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (3562)

166. mál, utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess erlendis

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa þetta langt mál. Eins og hv. þm. Ísaf. sagði, gátum við í n. ekki átt samleið um málið. Minni hl. telur réttmætt, að settar séu nokkrar takmarkanir fyrir fjölda þessara starfsmanna. Í fyrsta lagi teljum við þetta nauðsyn vegna þess, að gæta verður sparnaðar. Samkv. fjárl. ársins sem leið hygg ég, að ætlað hafi verið til þessarar þjónustu nær 2 millj. kr., og er þá þar með talið það, sem greitt hefur verið sérstökum sendimönnum, er sendir hafa verið til þess að semja um afurðasölu, því þó að ræðismenn séu allmargir, geta þeir ekki annazt þess konar erindi til fulls. Það má því gera ráð fyrir því, að umfram sendiráðin verði sérstakar sendinefndir sendar til samninga, og eykur það kostnaðinn, þó að af því leiði hins vegar, að sendiherrar geti verið færri. Ég er ekki að gera litið úr starfsemi þessara manna, en við verðum að gæta þess að reisa okkur ekki hurðarás um öxl. Komizt jafnvægi á og viðskipti verða með öðrum hætti en tíðkazt hefur um skeið, má og ætla, að nokkuð megi draga úr þessum störfum. Það er heldur ekki alls kostar hyggilegt að hafa svo lauslega um þetta búið, að ráðh. geti stofnað til eins margra sendiráða og hann telur nauðsyn. Þetta mæli ég ekki til þeirra, sem haft hafa þessi mál með höndum og hafa nú, heldur með tilliti til skipan þessara mála í framtíðinni. Maður veit ekki, hverjir koma til með að hafa þessi mál með höndum eða hvað aðgæzlusamir þeir verða. Ég tel því hyggilegt, að með l. séu reistar nokkrar skorður við þessu, og vil vona, að ekki verði til tjóns, þó að slík ákvörðun sé tekin. Ef það sýnir sig síðar, að þörf er á að bæta við þá tölu sendiherra, sem frv. ákveður, þá má gera það með breyt. á l. Ég er sannfærður um, að þingið fellst á það, ef það telur, að ávinningur sé að því.

Ef þannig kynni að standa á gagnvart störfum þeirra, er nú eru erlendis, að heppilegra væri, að l. gengju ekki í gildi svo fljótt, skiptir ekki máli, þó að þau gangi fyrst í gildi um næstu áramót, ef þá stæði betur á um samfærslu þeirra, er hafa þessi embætti.

Eins og ég sagði áðan, er hér fyrst og fremst um sparnað að ræða, en málið er einnig flutt með framtíðarskipan þessara mála fyrir augum. Ég held, að það sé réttmætt, og sé ekki ástæðu til að ræða það frekar.