02.11.1948
Neðri deild: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3568)

34. mál, fjárhagsráð

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég flyt hér, ásamt þeim hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. N-M. frv. á þskj. 37 um breyt. á l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Við flm. frv. höfum leitazt við að skýra efni þess í grg., sem því fylgir. En ég vil þó fara hér nokkrum orðum um helztu atriði frv. Við leggjum hér til, að tvær stofnanir, sem nú starfa að framkvæmd l., viðskiptanefnd og skömmtunarskrifstofan, verði lagðar niður, en fjárhagsráð annist úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa og vöruskömmtun, ef ákveðin verður. Einnig verði embætti verðlagsstjóra lagt niður og fjárhagsráð fari með verðlagsákvarðanir og eftirlit með verðlagi, eftir því sem þurfa þykir. Við leggjum til, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfum fyrir helztu nauðsynjavörum almennings, sem nú eru flestar skammtaðar, verði úthlutað beint til notenda, jafnt til allra. Fá menn þá innflutnings- og gjaldeyrisleyfin í stað skömmtunarseðlanna, sem nú er dreift út. Einnig leggjum við til, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til kaupa á fjárfestingarvörum verði látin fylgja öllum fjárfestingarleyfum, sem fjárhagsráð gefur út. Þetta gildi þó ekki um einstakar vörutegundir eða hluti, sem kosta innan við 200 kr. Verzlanir og önnur fyrirtæki, sem fá innflutningsleyfin frá einstaklingum, eiga að fá upphæðir þeirra taldar saman og þeim skipt fyrir heildarleyfi, er verði tölusett, eins og nú er.

Síðasta Alþ. hafði til meðferðar frv. um breyt. á þessum 1.,, sem flutt var af hv. 6. þm. Reykv., en byggt á till., sem fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði höfðu áður borið fram. Var þar lagt til, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir skömmtunarvörum skyldu miðuð við afhenta skömmtunarseðla til viðskiptan. Frv. þetta var samþ. hér í hv. Nd., en fellt með eins atkv. mun í hv. Ed. Á síðasta þingi var aftur á móti samþ. till. til þál. um skiptingu innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta. Var þar skorað á hæstv. ríkisstj. að taka til greina þær till., er samþ. voru á fundi fulltrúa frá kaupstöðum og kauptúnum á Norður-, Austur- og Vesturlandi, er haldinn var í s.l. febrúarmánuði. En ekki virðist hafa verið farið eftir þeirri áskorun Alþ.

Ég vil benda á það, að ákvæði þessa frv. eru í góðu samræmi við það frv., er flutt var á síðasta þingi, og þá þál., er þá var samþ. Sú niðurstaða, er þar var að stefnt í þessum málum, mun nást, ef frv. okkar verður samþ. En frv. okkar er að því leyti víðtækara, að með samþykkt þess verður framkvæmd viðskiptamálanna gerð einfaldari og umsvifaminni en hún er og um leið ódýrari. Samkv. okkar till. er vöruskömmtunin og veiting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa fyrir hinum skömmtuðu vörum sameinað í eitt. Með þeirri sameiningu hverfur úr sögunni það ósamræmi, sem verið hefur í þeim framkvæmdum að undanförnu. — Það er alkunnugt, að fjöldi manna hefur ekki getað fengið vörur, nema að nokkru leyti, gegn þeim skömmtunarseðlum, sem út hafa verið gefnir. Slíkt er með öllu óviðunandi. Þá hefur það einnig valdið mörgum fyrirhöfn, óþægindum og kostnaði, að þeir hafa ekki getað fengið þær skömmtuðu vörur á þeim verzlunarstöðum, þar sem þeim er hagkvæmast að verzla, heldur hafa þeir orðið að leita eftir vörunum annars staðar, jafnvel í öðrum landsfjórðungum. Með þeirri tilhögun, sem frv. okkar gerir ráð fyrir, er ráðin bót á þessu.

Ég vil að síðustu nefna það, sem ég tel aðalatriði frv. og höfuðtilgang þess, en það er að gera verzlunina svo frjálslega sem hún getur orðið á haftatímum. Verði frv. samþ., eru allir landsmenn sjálfráðir um það, hjá hvaða verzlun þeir kaupa þær nauðsynjavörur, sem þeim á annað borð er leyft að kaupa. Og það eitt tel ég viðunandi. En með því fyrirkomulagi, sem nú er, er langt frá því, að menn séu frjálsir ferða sinna og gerða í þessum efnum. Nú eru það stjórnskipuð ráð og nefndir, sem með úthlutun innflutningsleyfanna til verzlana raunverulega stjórna því og gefa landsmönnum fyrirmæli um það, hjá hvaða verzlunum þeir kaupa aðfluttar nauðsynjavörur. Þetta er óþolandi ástand. Vilji einhver heimilisfaðir eiga einhver ákveðin viðskipti við einhvern ákveðinn kaupmann, þá á hann að fá að gera það, óáreittur af yfirvöldunum. Vilji annar hafa viðskipti við ákveðið kaupfélag, á hann líka að hafa frelsi til þess. Báðir eiga þessir menn að hafa sama rétt til að ráða því sjálfir, hvar þeir verzla. Afskipti ríkisstj. eða ráða og nefnda, sem hún skipar, af því, við hvaða verzlanir menn skipta, eru hvort tveggja í senn, óþörf og óviðeigandi. Ríkisstj. og ríkisstofnanir hafa sannarlega nóg viðfangsefni, og ríkisreksturinn er nógu umfangsmikill og dýr, þótt opinberir aðilar hætti að stjórna því, hjá hvaða verzlun hver einstakur landsmaður kaupir sínar nauðsynjar.

Nú er þannig ástatt í okkar viðskipta- og gjaldeyrismálum, að þar er þörf opinberra afskipta. Óhjákvæmilegt er að takamarka vöruinnflutninginn. Oft þarf einnig að binda viðskiptin við ákveðin lönd. Það er vitanlega enn hægt eftir okkar frv. En ég vænti þess, að þm. geti orðið mér sammála um það, að æskilegt sé, að afskipti ríkisvaldsins af þessu máli séu ekki meiri en þörf er fyrir á hverjum tíma. Og það höfuðatriði, sem ég hef hér nefnt, sem sé það, að menn eigi að vera frjálsir að því að verzla þar, sem þeir telja sér hagkvæmast, það atriði vildi ég óska, að þeir menn taki sérstaklega til athugunar, sem um þetta frv. fjalla. Ef þm. flestir eða meiri hluti þeirra geta orðið á einu máli um það, að hver einstaklingur í þessu þjóðfélagi eigi sjálfur að ráða því, hjá hvaða verzlun hann kaupir sínar nauðsynjar, þykir mér ólíklegt annað, en hægt sé að komast að samkomulagi um eitthvert það fyrirkomulag á þessu máli, sem tryggi þetta. Og ég vil lýsa því yfir fyrir hönd flm., að telji aðrir eitthvert annað fyrirkomulag betra, sem tryggi þetta, þ. e. frelsi einstaklinga til að velja sér viðskiptastað, heldur en það fyrirkomulag, sem við höfum stungið upp á, erum við að sjálfsögðu til viðtals um það, en þetta tel ég vera höfuðatriðið, sem við stefnum að með flutningi frv., og um þetta vildi ég fyrst og fremst, að umr. snerust, því að um það vil ég fá upplýsingar, hvort menn geta ekki einmitt á þetta fallizt.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.