19.12.1948
Efri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Það er hvort um sig, að ég hef sjálfur aldrei látið uppi annað álit á þessu frv. en að það væri tilraun til að fá bráðabirgðalausn á þessu máli, enda má heyra það á hv. þm., þeim sem hér hafa talað, að þeir eru ekki hrifnir af þeim till., sem í þessu máli felast. Annars er nú dálítið furðulegt að heyra á ræður sumra hv. þm. í þessu máli, þegar þess er gætt, að allir þessir menn hafa verið með í dansinum. Núverandi ríkisstj. bjó ekki upphaflega til dýrtíðarskrúfuna í þessu landi. Hún var komin í fullan gang og farin að verða sýnilega ofvaxin þjóðinni, áður en núverandi ríkisstj. tók við. Hún vitaskuld kemst ekki undan því, frekar en Alþ., að glíma við afleiðingar verðbólgunnar, þó að sú glíma gangi illa, — það er ekki nema skylt að játa það, þá er það ekki sök stj. út af fyrir sig. Það má vel vera, að hún leggi víða vitlaust á og fari skakkt að, og skal ég engan veginn firra hana ámæli í þeim efnum, og sjálfan mig ekki heldur sem einstakling eða þm. En það er næstum því broslegt að hlusta á ræður, eins og t.d. ræðu hv. þm. Str., sem hefur verið hér mikill valdamaður á öllu verðbólgutímabilinu og breiðir sig nú út yfir, hvað hefði mátt gera og hvað mætti gera. Mér þætti það ákaflega skemmtilegt, ef hans hugmyndir og hans skoðanir á því, hvað ætti að gera í dýrtíðarmálunum fyrir útveginn, hefðu óskipt fylgi hans flokks. Meira að segja hv. 4. landsk. þm. lýsti því Yfir hér, að hann vildi láta útgerðarmenn njóta góðs af sínum gjaldeyri. Ég skyldi ekki vera seinn að fylkja liði með þeim í þessu, ef ég vissi, að það kæmi að nokkru haldi. Það hefur lítið að segja, þó menn segi þetta, þegar flokkar þeirra vilja ekki gera það. Ég á þar ekki við flokk hv. 4. landsk. þm. fremur en flokk hv. þm. Str., en flokkar þeirra vilja ekki standa að lausn málanna á þann veg. Annars féllu skoðanir þessara tveggja hv. þm. ákaflega mikið saman, og hef ég ekkert við það að athuga. Núverandi ríkisstj. á ekki byrjunina að því að binda ríkissjóði fjárhagslegar ábyrgðir fyrir sjávarútveginn. Það var á þeim tíma, sem hv. 4. landsk. þm. var einn af ráðh., sem sú stefna var upp tekin og framfylgt af þeim mönnum, sem studdu þá stjórn, þ. á m. af mér sem þm., í góðri trú á, að þetta yrði til bjargar. En forustuna hafði ríkisstj. og þ. á m. hv. 4. landsk. þm. En það var ekki séð fyrir neinu fé í því efni. Það var ekki verið að gera sig óvinsælan með því að sjá fyrir tekjum eða leggja skatta á þjóðina. Það varð aftur á móti hlutverk núverandi ríkisstj. að taka við yfir 20 millj. kr. skuld af þeim ríkisábyrgðum, sem stofnað var til á árinu 1946, þegar hv. 4. landsk. þm. var í stj. landsins. Jú, það er talað um, að ríkissjóður hafi safnað miklum skuldum undanfarið. Það er rétt. En vegna hvers er það? Það er vegna þess, að hið háa Alþ. hefur verið svo ötult við það að samþ. ýmiss konar löggjöf, sem ríkisstj. hefur svo orðið að reyna að standa við eftir mætti, og þar sem tekjurnar hafa ekki hrokkið til þess að mæta þessum fyrirskipunum Alþ., hafa vitaskuld safnazt skuldir. En sú skuld er ekki eingöngu á reikning núverandi stj. Ég gæti talað hér miklu meira og lengra mál, ef mér þætti nokkuð þýða að fara í þess háttar umræður nú, þegar svo langt er liðið á nóttu sem nú er og verið er að reyna að ganga frá þessu máli, áður en þm. þurfa að fara úr bænum, sumir. Sem sagt, þó að ég, sem fyrirsvarsmaður fjárhagsins, þessa auma fjárhags, sem hv. þm. hver á fætur öðrum hafa lýst með svo svörtum litum, — þó að ég vildi fallast á þá gjaldeyrislausn fyrir útveginn með þeim þm., sem hafa verið að láta í hana skína hér, væri það ekki til neins, vegna þess að ég veit það, eftir því sem komið hefur fram í stjórnarsamvinnunni undir meðferð málsins, þá væri það þýðingarlaust. Það næst ekki þingvilji fyrir því, eins og menn líta á málin nú. Þegar menn eru svo að kvarta yfir því, að það séu gjaldeyrismálin, sem geti leyst þessi vandamál, hvers vegna vilja þeir þá ekki horfast í augu við það, sem hv. 1. þm. Reykv., sá er síðast talaði, benti á? Það er nefnilega alveg rétt, að búið er, ekki bara í ár og ekki bara í fyrra, heldur árum saman, að taka gjaldeyrinn af útvegsmönnum við allt of lágu verði. Þetta er sannleikur. En allar stj., sem setið hafa áður en þessi stj. kom ti1 valda, hafa horft á þetta og hvorki hreyft hönd né fót til lagfæringar. Ekki minnist ég þess, að hv. 4. landsk. þm. eða hans stj. hafi gert minnsta handarvik, meðan hún sat, til þess að rétta hag útvegsins á þá leið, sem hann vill nú vera láta. Nei, hún gerði annað, hún flutti frv. um að ábyrgjast fiskverðið, og með þeim afleiðingum, að ríkið varð fyrir yfir 20 millj. kr. áfalli, sem vitaskuld verður að borga. Ekki dugði að svíkja þá, sem búið var að lofa verðinu. Svo eru menn að barma sér yfir því, að verið sé að þyngja álögurnar á fólkinu o.s.frv. Það eru ekki tvær tungur, sem menn tala með í þessu máli, þær eru langtum fleiri. Menn eru að kvaka kringum þetta og segja, eins og satt er raunar, að hér sé ekki um að ræða nema bráðabirgðalausn. Það er ekkert launungarmál, að hér er um vandræðaástand að ræða. Mér hefur aldrei dottið í hug að mátmæla því, en ég vil ekki undirstrika, að núverandi ríkisstj. hafi ein búið þetta ástand til. Við, sem erum í henni, og við, sem verið höfum þm. undanfarið, berum okkar hluta af ábyrgðinni, engu síður — en ekki fremur — en þeir menn, sem áfellast nú ríkisstj. fyrir það, að hún kemur ekki með þann „voltakross“, sem útgerðarmenn segja um: „Þarna er lækningin, við erum ánægðir“ — og fyrir það, að hún leitast við að gera þær fjárhagslegar ráðstafanir, sem þarf að gera til þess að halda í horfinu, þannig að ríkissjóður lendi ekki í þroti vegna þeirra ýmsu útgjalda, sem hér er verið að stofna til. Ekki byrjaði núverandi ríkisstj. á því að greiða niður landbúnaðarafurðirnar, ýmist í útflutningsuppbótum á kjöt, ýmist beinum styrkjum til bænda eða þá með niðurgreiðslum til neytenda. Þetta var allt komið í fullan gang, áður en hún kom hér að. Hún hefur að vísu gert það, sem nú virðist vera synd í augum þessara hv. þm., að halda því áfram. En mundi nú ekki t.d. hv. 4. landsk. þm. telja gengið á rétt verkalýðsins, ef hætt væri niðurgreiðslum til neytendanna? Hann veit eins vel og ég, hvað það kostar, 22 millj. kr. á ári sá liður út af fyrir sig.

Þó að full ástæða væri til að fara nokkrum frekari orðum um þetta mál, þá skal ég ekki þreyta hv. d. með öllu lengra tali um þessi mál. Það er búið að tala svo mikið um þau í hv. Nd., og ekki ástæða til að taka þær umr. upp aftur hér. En út af fyrirspurnum þeim, sem til mín hefur verið beint, vildi ég bæta við nokkrum orðum. Hv. þm. Barð. vildi fá yfirlýsingu um, hvað liði aflatryggingasjóðsfrv., sem heitið hefði verið. Það frv. er eiginlega tilbúið til þess að leggja fyrir Alþ. Ég hef alveg nýlega fengið álit þeirra flokka, sem að stj. standa, um afstöðu þeirra til þessa máls. Og það stendur til, að það verði lagt fram, þegar þingið kemur saman aftur eftir jólin og nýárið. Svo spurði sami hv. þm. um það, hvort ríkisstj. vildi greiða fyrir útgerðinni og hraðfrystihúsum að mér skildist með því að leggja velviljaðan skilning í lögin í sambandi við framkvæmd á ýmsum atriðum eftir þessu frv., sem fyrir liggur, varðandi t.d. geymslu á fiski og rýrnun á honum, og ég ímynda mér, að hv. þm. hafi átt við saltfiskinn. Og enn fremur talaði hann um, að endurskoða þyrfti reglugerð varðandi saltfiskinn. — Ég verð nú að segja það, að ég held, að fiskábyrgðarnefndin, sem hefur verið ráðgjafi eða ráðunautur ríkisstj. í þessum málum, hafi reynt að gera það, sem hún hefur getað, til þess að fara réttlátlega með þessi mál í samræmi við þau lög, sem sett hafa verið. Hitt er svo annað mál, að ráðuneytið getur skorizt í það, að eitthvað sé rýmkað til á þessu sviði, án þess þó að brjóta lög, en með breyt. þá á reglugerð. Og að svo miklu leyti sem ég tel það vera hægt laganna vegna og líka ef ég tel það fjárhagslega óhætt eða mögulegt, þá vil ég gera það, sem í mínu valdi kann að standa, ef ég fer með þau mál, við að leggja velviljaðan skilning í útfærsluna á þessum atriðum, sem ég veit, eins og ég líka fann, að lá í fyrirspurninni hjá hv. þm., — að getur verið til þæginda fyrir þá, sem að þessu eiga að búa. En frekari eða meiri yfirlýsingu um þetta atriði get ég ekki gefið.

Um það, hversu varið skuli þeim 5 millj. kr., sem heimilaðar eru eða stendur til að heimila ríkisstj. að verja til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða, get ég á þessu stigi málsins ekki sagt neitt ákveðið, vegna þess að það er vitað, að þessi upphæð er tekin inn við nánari athugun málsins og í samráði við hv. fjhn. Nd. og ýmsa hv. þm. úr þessari hv. d., og þetta ákvæði var tekið upp í frv. á s.l. sólarhring. Og það verður vitanlega að athugast, ekki bara, hvað ríkisstj. vill gera í þessu efni, heldur líka, hvar þörfin sé mest fyrir aðstoð eftir þessu ákvæði. Og þar kem ég líka að því, sem hv. þm. mæltist til, að framkvæmt yrði, að það verði athugað, hvernig ástandið er hjá hraðfrystihúsunum og að hve miklu leyti þau hafa þörf fyrir hjálp á þennan hátt. En hv. þm. er það kunnugt eins og mér, að aðallega voru það víst bátarnir, sem hafðir voru í huga, þegar þessi upphæð var sett inn. Varðandi endurskoðun á viðgerðum samkvæmt 11. gr., þá er ég sömu skoðunar og hv. þm., að ég tel, að það þurfi, ef þetta frv. verður samþ., strax að vinda sér að því að gera þær ráðstafanir, sem þar um ræðir. — Hv. 1. þm. N-M. spurði um þessa sömu upphæð, 5 millj. kr., hvort hugsað væri, að þær væru greiddar frá ríkissjóði eða frá dýrtíðarsjóði. Ég held nú, þó að það komi ekki alveg ljóst fram í orðalaginu um þetta atriði, að þetta hafi verið hugsað þannig, að þetta fé kæmi frá dýrtíðarsjóði, og þá yrði það að skiljast þannig, að það yrði svo framarlega að hann gæti undir þessu staðið. En lögin segja — ef frv. verður samþ. —, að ríkisstj. sé heimilt að verja þessu fé á þennan hátt. Og geti dýrtíðarsjóður ekki staðið undir því, en ríkisstj. aftur á móti telji nauðsynlegt að nota sér þessa heimild, þá er vitanlega ekki í annan stað að venda heldur en að ríkissjóður yrði að leysa það fé út. En ég ætla, að ekki muni til þess þurfa að koma, ef tekjuöflun til dýrtíðarsjóðs fer eftir þeirri áætlun, sem gerð hefur verið. Og vil ég, í sambandi við þá aths., sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi, hvað tekjuöflunina snertir, benda á það, að ákvæði frv. um tekjuöflunina eru ekki eins út í bláinn og hann vildi vera láta. Er eðlilegt, að sá hv. þm. sé ókunnugur þessu máli, þar sem hann hefur ekki haft tækifæri til að fylgjast eins vel með því eins og aðrir hv. þm. Þetta er byggt á samkomulagi innan ríkisstj. um það, að flutt sé inn t.d. það magn af þeim vörum, sem þarna eru nefndar, sem á að geta staðið undir þessum útgjöldum. Verði það ekki gert, mundi ég a.m.k. sem fjmrh. og tollheimtumaður telja brugðið við mig heitum. (GJ: Illa svikinn.)

Þá spurði hv. 1. þm. N-M. um 14. gr. frv., 4. tölul., og um þann fjárhagslega trygga grundvöll, sem þar er talað um. Ég vil benda á, að það er ekki ráðh., sem á að dæma um það, hvað teljist fjárhagslega tryggur grundvöllur í þessu tilliti, heldur er það skilanefndin, sem á að dæma um það atriði. Þess vegna get ég að svo komnu máli ekki gefið yfirlýsingar um það, hvernig grundvöllur sá eigi að vera smíðaður. Það eru aðrir þar til valdir menn, sem ég er þegar búinn að skipa samkv. lögum um aðstoð við vélbátaeigendur, sem samþ. hafa verið nýlega, og það verða þeir, sem eiga að dæma um þessi atriði, enda eru þelr færari til þess allir fimm en ég einn a.m.k.

Viðvíkjandi brtt. hv. 1. þm. N-M., þá held ég, að það hafi verið sams konar brtt., sem felld var í hv. Nd. (PZ: Hún er ofurlítið öðruvísi.), um landbúnaðarvélar og fóðurbæti. Og ég vil benda á, að landbúnaðarvélar eru hliðstæðar við mótorvélar í báta, og þær falla undir söluskatt. En varðandi fóðurbætinn, þá er óþarft að vera með till. um hann, því að ég lýsti yfir í hv. Nd. og get endurtekið það hér, að það er samkomulag um það við hæstv. landbrh., að það verði framkvæmt eins og þó að það væri talið í þessari upptalningu. (StgrA: Þótt ekki sé til þess heimild í lögum?)

Ég held ég geti látið hér staðar numið með mínar aths., svo langt sem þær ná. Ég veit að vísu, að það væri hægt að segja margt meira um þetta mál. En ég tel, að það hafi ekki nokkra þýðingu að halda hér uppi löngum umr. um þetta mál. Og ég bið hv. þm. að taka það á engan hátt sem neina lítilsvirðingu á þeirra ræðum eða því, sem fram hefur komið, því að vitaskuld er ástandið þannig, að það er hjá hverjum einasta hv. þm., sem um málið hefur talað, mikið af því, sem er rétt athugað, og margt af því, sem gagnrýnt er, þannig, að það á skilið að vera gagnrýnt. En það breytir bara ekki því, að það verður, meðan menn eru ekki búnir að koma sér saman um það að láta allt reka í strand og hafa enga viðleitni um að forða því, samt sem áður að gera tilraun til þess að fá atvinnuleysinu bægt frá, þ.e. með því að reyna að halda atvinnuvegunum gangandi. Hv. þm. segja að vísu margir: Þetta er ekki nóg tilraun, það er engin vissa fyrir því, að hún heppnist. Ja, ég skal ekkert um það segja. Aðrir segja: Hér er allt of miklu til kostað, það er vitleysa, að ríkið taki á sig þessa ábyrgð og komi sér í skuldir fyrir það. Einhvers staðar milli öfganna liggur þó meðalvegurinn, sem, þó að hann e.t.v. sé ekki fær leið og nái ekki til fullkominnar úrlausnar í þessum atriðum, getur samt orðið til þess að halda nokkuð uppi atvinnurekstri, sem e. t. v. annars yrði ekki haldið við. Ég hef aldrei verið neitt stórorður um fyrirætlanir eða framtíðaráætlanir núverandi ríkisstj. Mér hefur frá upphafi verið það algerlega ljóst, að það eru örðug viðfangsefni við að fást í þessu þjóðfélagi fyrir hvaða ríkisstj. sem er og örðugri en svo, að hægt sé með einstökum aðgerðum að ráða bót á ástandinu. Menn tala um það, að það séu þungir skattar lagðir á, og það er satt, þeir eru þungir. En það er bara búið að stilla því þannig upp, að ríkið krefst svo þungra fórna af þegnunum, vegna þess að menn vilja láta ríkið standa undir þessu öllu, svo og svo miklum framkvæmdum, fjárframlögum til ýmissa greina, svo sem landbúnaðar, kennslumála o. fl., sem allt kostar stórfé. Og þetta fé verður vitaskuld ekki tekið annars staðar en af þegnum þjóðfélagsins. Væri einhver önnur leið opin en sú, þá býst ég við, að einhverjir væru svo skarpskyggnir að vera búnir að koma auga á hana. Með dýrtíðarskrúfunni, sem menn voru svo hjartanlega sammála um að setja hér af stað á árunum, var hafinn sá leikur, að með hækkuðu vinnuverði væri hækkað afurðaverð, og þegar hækkaði afurðaverðið, þá hækkaði vinnuverðið. Síðan komu til sögunnar niðurgreiðslur úr ríkissjóði til þess að halda niðri vöruverðinu, sem námu miklum fjárframlögum. Þetta er saga, sem við þekkjum allir, og er næsta fánýtt að standa í steinkasti innan þingsins vegna þessara hluta.