25.04.1949
Neðri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3578)

34. mál, fjárhagsráð

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. A-Húnv. Hann hóf mál sitt með því að geta þess, að hann hefði upphaflega verið á móti l. um fjárhagsráð, þegar þau voru sett. Hann taldi, að þar hefði verið of langt gengið í því að leggja höft á viðskipti landsmanna, en þrátt fyrir þetta telur hv. þm. sér ekki fært að leggja til að þessum hömlum sé af létt. Hins vegar leggur hann til, að þessu sé hagað nokkuð öðruvísi en verið hefur, þannig að það sé aðeins ein n., fjárhagsráð, sem fari með gjaldeyrismálin og úthluti innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, og einnig að þessu verði skipað nokkuð öðruvísi en nú er. Þetta er nú í verulegu samræmi við það, sem við leggjum til í okkar frv. Samkvæmt því er gert ráð fyrir, að undirdeildir fjárhagsráðs verði lagðar niður, þ. e. a. s. viðskiptanefndin og skömmtunarskrifstofan og einnig verðlagseftirlitið sem sérstök stofnun. Hins vegar höfum við ekki gert neinar till. um, að breytt verði fyrirkomulaginu um skipun fjárhagsráðs, en þar er þó ekki um mikinn ágreining að ræða. Þá leggur hv. þm. A-Húnv. til í sínum brtt., að innflutningsleyfin fyrir vörum séu eingöngu veitt smásöluverzlunum, en engin heildverzlun né heldur einstaklingur fái slík innflutningsleyfi. Það má nú sennilega ýmislegt um þetta segja, bæði með og móti, en þó tel ég það nokkuð vafasamt, jafnvel þó að á það sé fallizt, að aðalreglan ætti að vera sú, að smásöluverzlanir fengju fremur innflutningsleyfi en heildsöluverzlanir, — að það ætti að binda þetta svo, að engir nema smásöluverzlanir geti fengið innflutningsleyfi. T. d. þegar hv. þm. telur, í 4. málsgr. 2. gr. í brtt. sínum, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir framleiðsluvörum, efnivörum til iðnaðar o. fl. verði veitt á sama hátt og veita eigi leyfi fyrir almennum neyzluvörum, þ. e. a. s. eingöngu smásöluverzlunum, þá tel ég vafasamt að ákveða það, að t. d. enginn mætti flytja inn skip, annar en einhver smásöluverzlun, og einnig ýmislegt, sem þarf til stærri iðnaðar: Þetta er þó ekki stærsta ágreiningsatriðið, og sé ég ekki ástæðu til að tala meira um það.

Hv. þm. A-Húnv. telur þetta mikla fjarstæðu, sem lagt er til í frv., að skömmtunarseðlarnir, sem úthlutað er til almennings, verði látnir gilda sem innkaupaheimild. Þarna lítum við flm. frv. og sömuleiðis minni hl. fjhn. öðruvísi á. Hv. þm. A-Húnv. leggur það til í sínum brtt., að innflutnings- og gjaldeyrisleyfum fyrir því vörumagni, sem fjárhagsráð ákveður, að flutt verði til landsins, kornvöru, kaffi, sykri og fleiri vöruflokkum, sem upp eru taldir í 1. málsgr. 2. gr., verði skipt milli verzlunarsvæða, kaupstaða og kauptúna í réttum hlutföllum við íbúatöluna á hverjum verzlunarstað. Þetta er í samræmi við samþykkt svokallaðrar kaupstaðaráðstefnu í fyrravetur. Ég hef ekki mikið við þetta að athuga, en hitt get ég ekki fallizt á, að það sé eðlilegt fyrirkomulag, að tvær stofnanir hér á landi, Verzlunarráð Íslands og S. Í. S., eigi að ákveða skiptingu á vörunum á milli smásöluverzlananna. Það tel ég mjög óeðlilegt, að þessar tvær stofnanir, þó að góðar séu, eigi að ráða því, ef þær koma sér saman um það, hvernig vörum er skipt milli hinna einstöku smásöluverzlana um allt land. Ég tel t. d. sjálfan mig alveg eins dómbæran um það, hvar hagkvæmast sé fyrir mig að kaupa þá vöru, sem ég á annað borð get fengið frá útlöndum handa mér og mínu heimili, eins og stjórn verzlunarráðsins og S. Í. S. Ég hef það álit á mér, að ég sé eins fær um það sjálfur að sjá, hvar heppilegast er fyrir mig að kaupa þessa vöru, eins og að skjóta því máli undir dóm þessara virðulegu stofnana. Mér finnst það einkennilegt, ef hv. þm. A-Húnv. treystir þessum stofnunum, betur en sjálfum sér til að ákveða, hvar hann kaupir vörur fyrir sig og sitt heimili. Í hans kjördæmi eru til tvö kaupfélög og eitthvað af kaupmannaverzlunum. Ég fullyrði, að ég þekki svo vel til þar, að meiri hluti bænda og annarra í hans kjördæmi hafa sín viðskipti við kaupfélögin þar í sýslunni og vilja hafa sín viðskipti þar. Nú skulum við segja, að útkoman yrði sú, þegar verzlunarráðið og Sambandið færu að skipta þeim vörum, sem í hlut Austur-Húnvetninga kæmu, milli verzlana þar í héraði, að kaupfélögin fengju t. d. þriðja partinn, en kaupmennirnir hitt, þá býst ég við, að ýmsum þætti hart að vera knúðir til þess með valdboði að verzla við kaupmannaverzlanir, ef þeir vildu heldur skipta við sín eigin kaupfélög. Það má snúa þessu við. Við skulum hugsa okkur, að eitthvert sinn yrði af verzlunarráðinu og Sambandinu, eða þá viðskmrh., ákveðið, að allar vörur eða svo til allar skyldu fara til kaupfélaganna þar í sýslunni og mjög lítið til kaupmannaverzlana, en hins vegar væru allmargir menn í héraðinu, sem óskuðu að skipta við kaupmennina, en þeim væri á þennan hátt meinað að haga sínum viðskiptum eins og þeir helzt óskuðu. Þetta tel ég mjög óviðeigandi. Ég tel það yfirleitt alveg óþarft, að ríkisstj. eða einhverjar n., sem ríkisstj. og Alþ. velur, og sömuleiðis stofnanir, eins og Verzlunarráð Íslands og S. Í. S., eigi að úrskurða um það fyrir alla landsmenn, hvar þeir eigi hver og einn að hafa sín viðskipti. Ég tel það mannréttindamál, að hver og einn geti ákveðið þetta sjálfur, eftir því sem hann telur sér bezt henta. Og það leggjum við til í okkar frv. á þskj. 37, að fyrirkomulagið verði þannig, að hver einstakur maður fái að ráða því, hvar hann hefur sín aðalviðskipti. Hv. þm. A-Húnv. og ýmsir fleiri telja það mikla fjarstæðu að láta skömmtunarseðlana, þ. e. innkaupaheimildirnar, gilda sem innflutningsleyfi. Ef hann getur bent á annað fyrirkomulag, sem leiðir til sömu niðurstöðu, þá er ekki nema gott eitt um það að segja. Fyrst hv. þm. telur þetta fyrirkomulag ófært, að láta skömmtunarseðlana gilda sem innflutningsleyfi, en ef hann hins vegar vill á það fallast, að eðlilegt sé, að hver maður fái að ráða því, hvar hann hefur sín viðskipti, þá væri því víst þakksamlega tekið af okkur flm. frv., ef hann vildi benda á annað fyrirkomulag, sem leiddi til þeirrar niðurstöðu, að við gætum ráðið því á hverjum tíma, hjá hvaða verzlun við keyptum okkar nauðsynjar. Ég tel allt annað óviðunandi, en að ég og hv. þm. A-Húnv. og raunar allir menn í þessu landi geti ráðið þessu sjálfir.

Ég held, að ég hafi þá tekið það fram, sem ég tel ástæðu til að minnast á í sambandi við brtt. hv. þm. A-Húnv., og get því látið mínu máli lokið.