25.04.1949
Neðri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (3579)

34. mál, fjárhagsráð

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður, en vildi segja nokkur orð um þetta mál, áður en lengra er haldið umræðunni. Í fyrsta lagi út af afgreiðslu málsins er það að segja, að hér liggur fyrir nál. frá minni hl. fjhn. og nokkrar brtt., en ekkert nál. frá meiri hl. fjhn., sem þó hefði verið mjög eðlilegt, að fyrir hefði legið, eigi síður en álit minni hl. n. Það liggja sjálfsagt gildar ástæður fyrir því, að meiri hl. fjhn. hefur ekki skilað áliti. Ég þekki m. a. eina, og hún er sú, að ég hafði óskað eftir því við n., að ákvörðun um afgreiðslu málsins yrði frestað, þar til ég hefði getað sýnt n. frv., sem lengi hefur verið í smiðum hjá mér og ríkisstj. Frv. var raunar tilbúið fyrir alllöngu síðan, en það hefur ekki náðst fullt samkomulag um það. Þétta frv. var samið út frá nokkuð svipuðum forsendum eins og mér virðist, að frv., sem hér liggur fyrir, hafi verið gert, sem sé vegna þess, að fram hafa komið í framkvæmd fjárhagsráðsl. ýmsir annmarkar, sem æskilegt hefði verið að bæta úr og fá út úr heiminum. Eins og áður er getið, átti ég þess vegna þátt í að semja frv. um þetta sama efni, sem var tilbúið frá minni hendi upp úr síðustu áramótum. Þetta frv. hefur verið rætt allýtarlega í ríkisstj., en þó ekki náðst um það enn sem komið er fullt samkomulag. Ég veit ekki, hvort rétt er að bíða lengur með flutning þess og flytja það hér þá eins og það er. Ég hafði hugsað mér að leita frekara samkomulags og sjá, hvort hægt yrði að koma sér saman um það að lokum. Þetta er mjög viðkvæmt mál og erfitt viðfangs, eins og allir vita, sem koma nálægt því, svo að ekki er hægt að segja í skyndi, að svona skuli það vera, þetta má gera og annað ógert láta. Það eru mörg atriði, sem þarf að athuga mjög vandlega og reyna að sigla milli skers og báru til þess að fá einhverju réttlæti fullnægt. Ég gat þess, að sjálfsagt hefði fyrir flm. þessa frv. vakað eitthvað svipað og vakti fyrir mér, þegar ég fór að reyna að semja þetta frv., sem ég gat um, en það er, að komið hafa í ljós alveg óumdeilanlegir gallar við framkvæmd fjárhagsráðslaganna. Ég skal nefna nokkra þeirra. Í fyrsta lagi er það, að samstarfið milli fjárhagsráðs og undirnefnda þess hefur ekki alltaf verið eins gott og æskilegt hefði verið og bandið milli ráðsins og undirnefndanna hefur ekki verið eins traust og eðlilegt og maður hefði viljað vera láta. Það hefur komið fram, að samstarfið milli fjárhagsráðs og undirnefndanna hefur ekki verið í eins föstum skorðum og ætlazt var til. Þessu þarf náttúrlega að breyta. Það þarf að vera föst stjórn á þessum stofnunum. Þær þurfa að mínu viti að heyra undir ákveðið ráðuneyti í stjórnarráðinu, ekki sérstaklega undir mitt ráðun. eða viðskmrh., en ákveðið ráðun., sem fylgist með störfum þess, eins og er um flestar aðrar ríkisstofnanir. Nú heyrir fjárhagsráð ekki undir eitt sérstakt ráðun., heldur ríkisstj. alla. Að vísu eru bréf fjárhagsráðs og málaleitanir sendar forsrh., eins og vera ber. En hann afgreiðir þau ekki eins og sín mál, sem heyra undir hans ráðun., heldur kallar saman ráðherrafund, og það er ekki hægt að skera úr um neitt mál, sem fjárhagsráði og undirn. þess tilheyra, nema öll stj. fái þau til meðferðar á ráðherrafundi. Þetta er allt annar háttur og miklu þunglamalegra en er við stjórn nokkurra annarra ríkisstofnana. Ég tel, að fjárhagsráð þyrfti að heyra undir eitt ráðun., svo að meðferð mála þess komist í fastar skorður, en sé ekki eins þung í vöfum og seinfær og nú er. Það hefur líka komið fyrir, að á þennan hátt hefur ýmislegt farið á milli mála hjá fjárhagsráði og undirn., eitt í austur og annað í vestur. Þess vegna er að mínu viti eitt hið fyrsta, sem leiðrétta þarf, að koma fjárhagsráði og undirn. þess, ef einhverjar verða, í fastar skorður, undir fasta stjórn. Hins vegar eru svo ýmis höfuðatriði, sem ekki verða ákveðin nema af ríkisstj. í heild, eins og t. d, samning innflutningsáætlunar og fjárfestingaráætlunar o. fl., sem að eðlilegum hætti þarf að vera ákveðið af stj. allri, því að það þarf að vera í samræmi við stjórnarstefnuna í heild, og er æskilegt, að allir ráðh. segi sitt álit um það. Ég tek þetta fram, sem að mínu áliti er einn aðalgallinn á því, hvernig fjárhagsráð er byggt upp. Hins vegar er því ekki að neita, að fjárhagsráð hefur þrátt fyrir þetta unnið ákaflega merkileg störf síðan það tók til starfa. Það hefur verið þess verk, að nokkurn veginn jöfnuður hefur náðst á inn- og útflutningi. Það hefur líka verið þess verk að koma — ég vil segja góðu skipulagi á þau fjárfestingarmál, sem undir það hafa heyrt og voru algert nýmæli, þegar það tók til starfa. Ég hef ekki heyrt að verulegu leyti undan því kvartað að það hafi ekki tekizt eins og til var ætlazt. Fleira mætti nefna, sem það hefur vel gert, og ber að segja frá því, ekki síður en hinu, sem miður hefur farið, sem í raun og veru ekki er fjárhagsráði að kenna, heldur hvernig að því er búið með þeim l., sem það starfar eftir. Annað atriði, sem stöðugt er um deilt, ekki frekar nú síðan fjárhagsráð tók til starfa en áður, er innflutningurinn, hvernig skipta á innflutningnum milli einstakra aðila, sem við innflutning fást. Það ætla ég, að sé þungamiðjan í þessu frv. að taka skömmtunarseðlana og gera þá að innkaupaheimild fyrir vörum, ekki aðeins úr búðum, heldur gjaldeyris- og innflutningsleyfum fyrir því vörumagni, sem skömmtunarseðlarnir greina. Ég fyrir mitt leyti tel þetta ekki heppilegt fyrirkomulag af ýmsum ástæðum, sem ég mun ekki rekja hér nú, af því að hæstv. forseti benti mér á að vera ekki of langorður. Sumar þessar ástæður liggja í augum uppi, en aðrar ekki eins, en eru þó ekki siður þýðingarmiklar. Ég skil vel, hvað fyrir hv. flm. frv. vakir, sem er það, eins og hv. þm. V-Húnv. sagði, að hver og einn geti verið frjáls að verzla þar, sem hann vill helzt verzla. Ég fyrir mitt leyti tel, að því marki sé hægt að ná með öðrum og betri hætti. Hv. þm. V-Húnv. lýsti eftir till. í þá átt, og skal ég í stuttu máli segja honum, hvað fyrir mér vakir í því efni. Mín till. er sú, að stöðugt, eða a. m. k. í upphafi, yrði flutt inn nokkru meira magn af þeim vörum, sem skammtaðar eru, heldur en skömmtunin sjálf greinir, og allra sízt má flytja inn minna magn, en skammtað hefur verið, eins og komið hefur fyrir undanfarið ár, en það leiðir til vitleysu. En þetta kemur af því, að samstarfið milli skömmtunaryfirvaldanna og fjárhagsráðs er ekki eins náið og vera á. Ef þessar stofnanir væru allar undir einni og fastri stjórn, þá verður vitanlega að vera samræmi í því, sem inn er flutt, og því, sem skammtað er. Till. mín er þess vegna sú, að fyrst um sinn verði flutt inn meira magn en það, sem skammtað er, og einhverjum vissum hluta þess, við skulum segja 70–80% eða þar um bil, yrði skipt á milli innflytjendanna, sem annazt hafa innflutninginn áður og í svipuðum hlutföllum og þar hafa áður verið höfð, t. d. að miðað væri við meðaltal einhvers undanfarins árs, — en síðan yrðu þau 20–30%, sem afgangs væru, notuð til að veita nýjum mönnum, sem kæmu til sögunnar, einhvern hæfilegan innflutning, ef það þætti æskilegt, og til þess að jafna á milli þeirra, sem telja sig órétti beitta, og loks yrðu þessi 20–30% notuð til að veita þeim, sem fyrstir yrðu til að selja vöru sína, uppbót, svo að þeir geti alltaf haft vöruna á boðstólum í sínum búðum. Þetta er hægt með því að flytja inn nokkru meira af vörum en skammtað er, svo að birgðir safnist, og þá getur hver maður verið sjálfráður að því, hvar hann kaupir sínar nauðsynjar, farið í þær búðir, sem hann kýs helzt, og fengið sig afgreiddan þar, en innflutningurinn er þá veittur þeim mun meiri til þess manns, sem fyrst getur selt af þeim hluta, sem ekki er skipt eftir kvótamagni. Ég sé ekki annað en að þetta fyrirkomulag nægi, til þess að hver og einn einstaklingur geti farið í þær búðir, sem hann vill skipta við, og geti haft viðskipti þar, án þess að skömmtunarseðlarnir séu gerðir að innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, sem ég tel að ýmsu leyti óhentugt, eins og ég sagði áðan. Þetta fyrirkomulag má „diskutera“, og eru sjálfsagt á því annmarkar ekki síður en á öðru fyrirkomulagi, en ég held þó, að með þessu mætti ekki síður ná góðum árangri en því, sem lagt er til í frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil svo aðeins segja nokkur orð um brtt. hv. þm. A-Húnv., sem mér finnst, að í verulegum atriðum séu ekki óskyldar till. hv. þm. V-Húnv. Hann fer fram á það, að í staðinn fyrir, að gjaldeyris- og innflutningsleyfin séu veitt til einstaklinganna sjálfra, þá séu smásölunum eingöngu veitt þessi leyfi. Ég tel það orka mjög tvímælis, hvort þetta er réttari leið en hin, og ég tel, að sama árangri mætti ná með þeirri aðferð, sem ég hef hér bent á, þeirri leið að hafa leyfin að mestu leyti í sama farvegi og verið hefur, en veita þeim viðbótarinnflutningsleyfi, sem fyrst seldu og fólkið vildi verzla við. Þetta mætti „kontrolera“ með því að láta skömmtunarseðlana, sem kaupmennirnir fengju fyrir vörur, vera að nokkru leyti innkaupaheimild fyrir vörum, sem þeir fengju í staðinn frá heildsalanum, og þá gæti þetta smám saman færzt í þær skorður, að sá, sem seldi mest, fengi mestan innflutning. Þetta eru þau grundvallaratriði, sem ég tel, að ættu frekar að koma til greina en það frv. og þær brtt., sem hér liggja fyrir.