26.04.1949
Neðri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (3581)

34. mál, fjárhagsráð

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við umræðurnar um þetta mál í gær gerði ég nokkra grein fyrir brtt. mínum á þskj. 97. 1. flm., hv. þm. V-Húnv., gerði þessar brtt. nokkuð að umtalsefni og virtist eigi geta fallizt á að ganga inn á þá leið, sem þar er stungið upp á. Þessi hv. þm. lýsti sig að vísu samþykkan því ákvæði, sem er í samræmi við kaupstaðaráðstefnuna í haust, að skipta innfluttum vörum eftir mannfjölda milli verzlunarsvæðanna. En aðalandstaða hans er í því fólgin, að hann vill halda fast við þá skipun, að öllum landsmönnum, er þess óska, skuli gefin innflutningsleyfi fyrir vörum og skömmtunarseðlarnir látnir gilda sem innflutningsleyfi. Er þetta uppistaðan í frv. hans. Ég tel, þótt núverandi fyrirkomulag sé fráleitt og ég sé samþykkur því, sem kom fram við umræðurnar í gær í Sþ., að aldrei hafi verið slíkt ófremdarástand í verzlunarmálunum og nú, áð þá sé þó þessi till. hv. þm. V-Húnv. enn fráleitari, því að ég get eigi hugsað mér öllu fráleitara fyrirkomulag, en gefa öllum innflutningsleyfi fyrir vörum. Fer hlutfallið að verða einkennilegt, ef lögleiða á þetta, og það leiddi til þess, að til viðbótar við þann svarta markað á vörum, sem nú er ríkjandi, brask og baktjaldasölu, kæmi svartur markaður með skömmtunarseðlana, sem reynt væri að klófesta. Það er eigi von, að afkvæmið sé gott frá sósíalistum og framsóknarmönnum, enda er það næsta ófélegt útlits. Segja má, að ráð það, sem ég er með, sé ekki gott, að takmarka vald fjárhagsráðs eingöngu við að skipta niður innflutningsleyfum milli verzlunarsvæða í réttu hlutfalli við íbúatölu hvers svæðis og síðan skuli þeim skipt á milli smásöluverzlana af Verzlunarráði Íslands og stj. S. Í. S. En þetta er einfaldasta leiðin af þeim, er bent hefur verið á, því að hvað er eðlilegra en það, úr því að höft eru á annað borð, að leyfin séu afhent til þeirra, sem dreifa vörunum út á meðal fjöldans? Leyfin, sem verzlanirnar fá, mundu síðan verða afhent þeirri heildverzlun, er einstaklingarnir kynnu að vilja láta útvega vörur fyrir sig. Ýmsir hafa sagt, að þetta verði ekki samþ. á þ., því að það sé of einfalt. Virðist hafa verið keppni um það, að gera allt sem flóknast og erfiðast. Hv. þm. V-Húnv. sagði, að flestir mundu treysta sjálfum sér til að skera úr um, hvar þeir vildu verzla. Nú er þeim skv. till. mínum tryggt, að vörunum verði skipt í réttum hlutföllum milli verzlunarsvæða. Þegar búið er síðan að skipta vörunum milli verzlananna, þá er tækifæri til fyrir menn að skera úr um, hvar þeir vilji helzt verzla. Má segja, að nokkur takmörkun sé hér, en hún er eigi meiri en verið hefur, síðan höftin voru lögfest hér, og sú takmörkun var á því byggð, að þeir geta ekki verzlað, sem eigi hafa leyfi. Og allt það bras, sem hefur verið ríkjandi hér, hefur miðað að því, að sumum verzlunum hefur verið hampað, og þetta hefur skapað misrétti í verzlunarviðskiptum undanfarin ár, og hefur það gengið lengst til óréttlætis síðustu ár, svo að smákaupmönnum utan Reykjavíkur hefur verið varnað að fá innflutningsleyfi. Hv. þm. V-Húnv. sagði, að of langt væri gengið í því að skipta innflutningsleyfum milli smáverzlana, ef um stærri, óskammtaðar vörur væri að ræða. En það sést eigi, hver er tilgangurinn með iðnaðar- og byggingarvörur í frv. hans. En hv. þm. V-Húnv. nefndi t. d. skip. Ég þekki þó engin dæmi til, að skip hafi verið flutt inn sem vara til einstakra verzlana. En hitt er algengara, að þeir hafi fengið innflutningsleyfi fyrir skipum, sem þau kaupa, bæjarfélög, útgerðarmenn o. fl., en ekki heildverzlanir, kaupfélög eða aðrir. Þess vegna tel ég, að þetta dæmi, sem hv. þm. V-Húnv. tók, sé með öllu út í loftið að þessu leyti til, því að skip koma þarna alls ekki til greina sem almenn verzlunarvara, því að það er öðru máli að gegna með þau en venjulegar neyzluvörur og auk þess þær vörur, sem notaðar eru til framleiðslunnar, því þegar ég tala um framleiðsluvörur, þá á ég auðvitað fyrst og fremst við þær vörur, sem eru nota þarfir framleiðslunnar, svo sem útgerðarvörur, vörur til landbúnaðarframleiðslu, vörur til iðnaðar o. s. frv., veiðarfæri, áburður og aðrar þær vörur, sem óhjákvæmilegar eru fyrir þá, sem reka atvinnu, hvort sem er til sjávar eða sveita, til þess að geta haldið áfram atvinnu sinni. Þar í eru eðlilega efnivörur til iðnaðar og svo auk þess, sem ég taldi, fóðurbætir og annað slíkt, sem telja verður undir þessum flokki vara. — Hv. þm. V-Húnv. endaði ræðu sína með því að segja, að hann gæti fallizt á hvert annað fyrirkomulag en sína till., sem tryggði það, að menn gætu haft frjálsar hendur um það, hvar þeir verzluðu. Það er nú erfitt að koma með nokkrar allsherjarreglur, sem tryggi þetta, meðan verzlunarhöft eru ríkjandi í landinu. En ég er nokkurn veginn viss um, að mínar till. tryggja þetta betur og á miklu eðlilegri hátt en sú fáránlega till. að ætla sér að gera skömmtunarseðlana að allsherjar innflutningsleyfum, sem allir menn í landinu eiga að fá í sínar hendur. Að öðru leyti en þessu sé ég nú ekki ástæðu til að svara hv. þm. V-Húnv.

En ég sé ástæðu til að fara um málið nokkrum orðum í tilefni af ræðu hæstv. viðskmrh. Í sjálfu sér er meðferð þessa máls nokkuð glöggt dæmi um það ástand, sem nú ríkir hér í okkar landi. Það flytur einn stjórnarflokkanna þetta frv. um gerbreyt. á viðskiptamálunum í landinu. Hann flytur það svo að segja í þingbyrjun, fyrir mörgum mánuðum. Hann gengur í bandalag um afgreiðslu þess við stjórnarandstöðuna. En hvað gera hinir stjórnarfl.? Samkv. yfirlýsingu hæstv. viðskmrh., þá hefur hann, að sjálfsögðu í umboði ríkisstj., farið fram á það við fulltrúa Alþfl. og Sjálfstfl. í fjhn. að skila ekki áliti um þetta mál í alla þá mánuði, sem liðnir eru síðan þetta mál var lagt hér fram. Nú er þetta eitt af elztu, viðkvæmustu og stærstu deilumálunum, sem um er að ræða í okkar fjármálalífi. Og reynslan af þeim l., sem okkar viðskiptamál eru nú byggð á, er svo herfileg, að það er furðulegt að heyra annað eins og það af munni hæstv. viðskmrh., að hann hafi orðið var við litla óánægju út af skiptingunni á leyfunum. Ég verð að segja, að ég hef engan mann hitt, ekki af neinum flokki, ekki neins staðar, sem ekki er óánægður með það fyrirkomulag, sem er í þessum efnum. Og samkv. þeirri yfirlýsingu, sem kom fram hjá hæstv. viðskmrh., þá tók það sig glöggt út, að hann er líka orðinn sannfærður um, að þetta fyrirkomulag getur ekki haldið áfram óbreytt. Það getur ekki haldizt áfram það fyrirkomulag, sem hæstv. viðskmrh. lýsti, að þegar ein stofnunin heldur í austur, þá fer hin í vestur, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, Hér er um að ræða fjórar eða fimm nefndir, sem hafa með þessi mál að gera. Við höfum fjárhagsráð, viðskiptanefnd, verðlagseftirlit, skömmtunarskrifstofu og millibankanefnd, auk svo bankanna sjálfra. Þetta fyrirkomulag er þannig, að það er engin furða, þó að vörur séu orðnar dýrar og það séu miklir erfiðleikar, sem þeir hafa við að etja, sem á vörum þurfa að halda, einstaklingar, félög og verzlanir, — enda er þetta svo. — Þá lýsti hæstv. ráðh. því, sem við vitum allir og allir hljóta að játa, að það er algerlega óhæft fyrirkomulag, að yfirstjórn þessara mála er í höndum allrar ríkisstj., sem saman stendur af þremur óskyldum flokkum, í stað þess að vera í höndum eins ráðherra. Og að sjálfsögðu á þetta að vera í höndum þess ráðh., sem fer með viðskiptamál. En að þetta fyrirkomulag er sett á og sett upp þetta stóra ráð, sem sumir hafa kallað stórráð, í samræmi við stórráð fasista og kommúnista í einræðislöndunum, og að þetta ráð er sett undir alla ríkisstj., er byggt á því, að skv. 2. gr. laganna, sem það er stofnað eftir, þá er þessu ráði ætlað að þenja sitt vald út yfir alla skapaða hluti í okkar þjóðfélagi, því að sú lagagr. er eins og stefnuskrá einhvers flokks, sem hyggst ætla að gera allt, sem hægt er að gera, til endurbóta á fjármála-, atvinnu- og menningarsviði og öðrum sviðum. Allar þessar nefndir heyra undir alla ríkisstj., en ekki einn ráðherra. Og það loforð, sem hæstv. viðskmrh. gaf í ræðu sinni í gær, er hann lagði fram sínar till., sem hann hafði í smíðum og ekkert samkomulag hefur orðið um í ríkisstj., allan þann tíma, sem þingið er búið að standa, er á þá leið, að í þeim till. felist það, að yfirstjórn þessara mála allra sé í höndum eins ráðuneytis. Það er fullkomnara skipulag, því að þá ber eitt ráðun. ábyrgð á hlutunum. En nú er þessu grautað saman á svo fáránlegan hátt, að furðu sætir, að það skuli vera liðið fram á þennan dag.

Ég skal nú ekki að þessu sinni fara miklu fleiri orðum um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að það komi til atkvgr., enda þótt það sé nokkuð undarlegt í sjálfu sér og óvenjulegt hér á þingi að taka mál til meðferðar og afgreiðslu, sem meiri hl. nefndar hefur ekki skilað áliti um. Ég geri samt sem áður ráð fyrir því, að það komi til atkv., vegna þess, hve langt er um liðið, síðan það var borið fram. En ef von er á öðru frv. um svipað efni, þá er náttúrlega mjög æskilegt fyrir hæstv. A1þ. að sjá framan í það frv., áður en þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer til úrslitaatkvgr. við 3. umr. hér í hv. d.

Skal ég svo láta þessu máli lokið. Vil ég þó að endingu taka fram, að ég get ekki fallizt á, að nein þau rök hafi komið fram í ræðum þeirra, sem hér hafa talað gegn mínum till., er sýni það, að á þessum málum sé í vændum annað heppilegra, einfaldara og eðlilegra skipulag en það, sem þar er stungið upp á.