28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (3584)

34. mál, fjárhagsráð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. þm. A-Húnv. hafði sagt um þetta mál. Ég tók eftir því bæði í ræðu hans og hv. 3. þm. Reykv., að þeir gerðu sér ekki ljóst, hvaða áhrif þetta frv. mundi hafa. Mér heyrðist á þeim, að með þessu væri verið að koma á sem næst því frjálsri verzlun. Ég vil nú biðja þessa hv. þm. að rifja upp, hvernig málum var háttað, þegar hér var frjáls verzlun. Það er að vísu alllangt síðan eða síðan fyrir 1914 og því von, að menn séu farnir að gleyma því. Þá var það þannig, að sá maður, sem átti peninga, gat pantað hvaða hlut sem var hjá einhverjum kaupmanni og gat borgað þetta með íslenzkum peningum. Þá voru íslenzkir peningar sem sé ávísun á útlenzka vöru. En hvað hefur breytzt? Það, að okkar íslenzku peningar gilda ekki lengur sem slík ávísun. Þeir hafa ekki sama gildi gegn erlendri og innlendri vöru. En hvernig getum við komizt sem næst frjálsri verzlun? Með því að fá hverjum manni í landinu ákveðinn seðlaskammt, sem sé ávísun á þá erlendu vöru, sem ríkið getur látið hvern einstakling hafa. Þetta er það skipulag, sem kemst næst því að vera frjáls verzlun. Ég er hræddur um, að þessir hv. þm. hafi gleymt, hvernig frjáls verzlun er, enda kemur það í ljós, að þeir óttast frjálsa verzlun, og hv. 3. þm. Reykv. vill láta úthluta leyfunum til S. Í. S. og heildsalanna. Hv. þm. A-Húnv. vill hins vegar útvíkka sérréttindahópinn þannig, að hann nái einnig til smásalanna. Það má segja, að það sé að vísu skárra, en það eru þó sérréttindi gagnvart neytendum. Með þessu er fólki því veitt leyfi til að nota peningana eins og fyrir 1914. Af þessu leiðir svo, að um leið og fólkið fær þessa miða í hendur, leitast kaupsýslufélög og kaupmenn við að fá þessa seðla og þannig skapast samkeppni, og það er einmitt það, sem við viljum fá. Hv. þm. A-Húnv. sagði, að afleiðing af þessu yrði mjög hörð samkeppni milli verzlana og svartur markaður. Við viljum einmitt fá harða samkeppni, þannig að verzlanir keppi um viðskipti fólksins. Það má vera, að einhver svartur markaður skapist um þessa seðla, en ég vil þó heldur, að hver fjölskylda njóti ágóðans af því heldur en fáeinir kaupmenn og kaupfélög. En hvaða þýðingu hefur það, ef kaupmenn og kaupfélög keppast um að ná í viðskipti fólksins? Það þýðir það, að kaupmenn og kaupfélög keppast um að lækka dýrtíðina. Við viljum, að kaupmenn séu þjónar fólksins, og frv. stefnir því í hárrétta átt. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að þetta mundi leiða til harðvítugrar samkeppni innbyrðis milli verzlana. Við viljum fá harðvítuga samkeppni. Þetta þýðir því það, að í staðinn fyrir, að kaupmenn hafi samráð sín á milli um hátt vöruverð, og í staðinn fyrir einokun, svartan markað og bakdyraverzlun, þá munu verzlanirnar keppa um fólkið. Ummæli þessara hv. þm. eru beztu meðmælin með þessu frv. Ég álít, að þar sem ekki hefur verið gert mikið af hálfu Alþingis til að minnka dýrtíðina, þá ættu hv. þm. að sjá sóma sinn í því að tefja ekki fyrir málum, sem miða í þá átt, og vona ég því, að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu.