19.12.1948
Efri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er, a.m.k. eitt, sem er alveg ljóst af þessu frv., að herkostnaður ríkissjóðs af dýrtíðarflóðinu er a.m.k. orðinn um 70 millj. kr. á ári. Hitt er svo öllum ljóst, að herkostnaður þjóðarinnar af dýrtíðaröldunni er margfalt meiri, og um það hafa sennilega fæstir gert sér glögga hugmynd í tölum. Og dýrtíðin er nú orðin svo óstjórnleg, að Alþ. er óneitanlega ráðafátt út af því ástandi, sem dýrtíðin hefur skapað. Það er kunnugt, að hér hafa aðallega verið nefndar þessar leiðir: Í fyrsta lagi lækka gengi ísl. krónunnar mjög verulega, fara inn á þá leið svona sem einhvers konar miðlunarleið, ef fleiri gætu sætt sig við það en algera gengislækkun, þ.e. að taka upp svo kallað tvöfalt gengi. Í öðru lagi að reyna enn á ný að færa niður vísitöluna með niðurfærsluaðferðinni svo kölluðu, og hygg ég, að lýst hafi verið yfir í Nd. við umr. þessa máls, að einn af stjórnarflokkunum teldi nauðsynlegt og æskilegt, að vísitalan væri lækkuð niður í 280 stig. Og í þriðja lagi hefur enn ein leið verið tekin í mál, að fara út í stórfelldan niðurskurð verklegra framkvæmda í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. En það lítur út fyrir það, að meiri hluti hv. þm. hafi ekki litizt það fýsilegt að fara neina af þessum leiðum, en þess vegna sameinazt um þá bráðabirgðalausn, sem allir viðurkenna, að það sé, sem í þessu frv. felst, að reyna eins og á s.l. ári að ábyrgjast bátaútveginum ákveðið verð fyrir fiskinn, það sama og á síðasta ári, að ábyrgjast hraðfrystihúsum um ákveðið verð fyrir sína framleiðslu og fisksaltendum ákveðið verð fyrir saltfisk og leggja fram nokkrar millj. kr. í viðbót við þá aðstoð, sem áður hefur verið veitt til bátaútvegsins, til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða og gefa fyrirheit um uppgjafir á geysilegum skuldafúlgum, sem safnazt hafa á vélbátaútveginn á undanförnum árum vegna aflabrests og dýrtíðar. En til þess að geta innt þessa hjálp af hendi við sjávarútveginn og þar með gert ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir stöðvun á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og þar af leiðandi atvinnuleysi hefur þótt óumflýjanlegt að afla tekna með ýmiss konar leiðum, sem III. kafli þessa frv. fjallar um. Þar er um að ræða 70 millj. alls. Ég geri ráð fyrir, að flestir séu sammála um, að sú hjálp við sjávarútveginn gengi allnærri ríkissjóði, og vafasamt, að ríkið þoli meiri framlög. Þó eru margir þm., sem telja lretta ekki nægilega aðstoð til þess að bátaútvegurinn komist af stað, og má benda á bréf frá útvegsmönnum, sem hér hafa verið lesin, því til staðfestingar. Ennfremur er fullyrt, að umrædd aðstoð við hraðfrystihúsin sé ekki nægileg til þess, að þau verði starfrækt. Þó er nefnt það verð, sem hæst hefur þekkzt hingað til, þ.e.a.s. sama verð og s.l. vertíð.

Hvað verkalýðsstéttinni viðkemur, þá átti kaupgjald að greiðast með vísitölu 319 stig fyrir ári síðan, en var þá fært niður í 300 stig, og með því fórnaði verkalýðsstéttin verulega af lífskjörum sínum, sem hún hafði tryggt sér. Síðan hefur dýrtíðin aukizt um 6 vísitölustig, sem hefur haft í för með sér, að kaupgjald hefur raunverulega lækkað sem svarar 25 vísitölustigum. Það má því segja, að verkalýðsstéttin hafi lagt fram sinn skerf. Ef það er á rökum reist, að sjávarútvegurinn stöðvist þrátt fyrir þessa aðstoð, og með því atvinnuleysi, sem það hefði í för með sér, þykir mér ekki ólíklegt, að verkalýðurinn reyni að vernda sinn hag. Verkalýðsfélögin hafa nú haldið þing sitt, og þar kom fram ósk og krafa til ríkisstj. og Alþ., að dýrtíðin yrði stöðvuð. Ef það hins vegar tækist ekki og kaupmáttur launanna rýrnaði áfram, þá var stjórn Alþýðusambandsins falið að beita sér fyrir hækkun á grunnkaupi, svo að „status qvo“ héldist að minnsta kosti. Ég álít því, að eins megi búast við, að verkalýðsfélögin beiti sér fyrir hækkunum á grunnkaupi til að vega á móti óbeinni kauprýrnun, sem leiða kann af samþykkt þessa frv. Slíkt mundi tvímælalaust hafa í för með sér enn erfiðari aðstöðu fyrir útgerðina og fiskverkun í landinu, en þá sýnist mér harla lítill árangur af löggjöf sem þessari. Verkalýðurinn er nú þegar búinn að aðvara, og stjórnarvöldin mega vita, að frá þeim aðila er ekki lengur hægt að sýna þolinmæði við vaxandi dýrtíð. Kaup Dagsbrúnarverkamanna er nú um 1.680 kr. á mánuði, og það liggur í augum uppi, að af slíkum launum er varla mögulegt að lifa fyrir fjölskyldumann, hvað þá er kaupmáttur þeirra verður enn rýrður.

Sú tekjuöflunarleið í þessu frv., sem ég tel hættulegasta, er söluskatturinn. Það er gert ráð fyrir að tvöfalda hann frá því í fyrra og áætlað, að hann gefi 34 millj. kr. í tekjur. Þessi skattur hlýtur að hækka vöruverð og vísitölu og þar af leiðandi rýra kaupmátt vinnulauna.

Ég mundi alls ekki telja mér fært að fylgja frv. sem þessu af öðrum ástæðum en þeim, að það er sú einasta leið, sem Alþ. hefur komið auga á til þess að halda bátaútveginum gangandi, en við áframhaldandi útgerð er afkoma verkalýðsins bundin. Söluskatturinn er illur og ekki verjandi öðruvísi en sem einn nauðsynlegur liður til þess að halda aðalatvinnuvegi þjóðarinnar gangandi. Ég fordæmi ekki hinar tekjuöflunarleiðirnar, því að með nokkrum rétti má segja, að þær skerði ekki beinlínis lífskjör alþýðunnar.

Niðurstaða mín í þessu máli er því sú: Í fyrsta lagi vegna þess, að veita á útveginum aðstoð með þessu frv., og í öðru lagi, að sú aðstoð ætti að forða atvinnuleysi, en hins vegar hefur verkalýðurinn aðvarað þing og stjórn og á þar af leiðandi opna leið til að bæta sér þá kaupgjaldsrýrnun, sem leiða kann af aðgerðum stjórnarvaldanna, þá sé ég mér fært að fylgja þessari bráðabirgðaleið til að bjarga aðalatvinnuvegi þjóðarinnar frá algerri stöðvun.