09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (3598)

34. mál, fjárhagsráð

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það, sem hér er um að ræða á þskj. 37, er breyt. á l. um fjárhagsráð. Að mínu áliti er talsvert mikil þörf fyrir að breyta þessum l. um fjárhagsráð, því að þau eru að mörgu leyti stórgölluð og að mörgu leyti afar einkennileg, eins og sjá má, ef litið er t. d. á 2. gr. laganna, þar sem talað er um verkefni fjárhagsráðs eða um það, sem fjárhagsráð á að miða störf sín við. Þar er t. d það að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls í landinu og að öllum verkfærum mönnum sé tryggð atvinna í landinu; enn fremur að öllum vinnandi mönnum og sérstaklega þeim, sem stunda framleiðslu til sjávar og sveita, séu tryggðir möguleikar til að halda í horfi atvinnu sinni. Enn fremur er þar til tekið, að komið sé í veg fyrir spákaupmennsku. Þessi ákvæði þarna í gr. eru ákaflega einkennileg, því að það er erfitt að hugsa sér það, að stofnun eins og fjárhagsráð geti tekið á sínar herðar að sjá svo um, að allir menn hafi næga vinnu í landinu. Ég veit ekki, hvaða stofnun það gæti verið, sem slíkt gæti tekið að sér. Hins vegar, ef ekki þyrfti annað en að búa til stofnun með lögum og segja henni að láta alla vinnandi menn í landinu hafa næga atvinnu, þá værum við búnir að finna ráð við vandamáli, sem allur heimurinn hefur leitað að í fjölda mörg ár og leitar að í dag. — Starfsemi fjárhagsráðs virðist ekki benda til þess, að þessi stofnun hafi getað afkastað þessu hlutverki, sem því er þarna ætlað, því að það hefur alls ekki komið nálægt þeim verkefnum, því að þetta ákvæði er út í loftið. Og mikið af þessum l. er meira og minna gallað, eins og ég tel það gallað, þegar við erum að fá voldugu ráði sem verkefni í hendur það, sem allir vita og ekki sízt þeir, sem búið hafa til l. um það, að þessu ráði er ógerningur að afkasta.

Það, sem er þungamiðjan í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er að skipta leyfum fyrir tilteknum vörutegundum, kornvörum til manneldis, kaffi og sykri, ávöxtum og grænmeti, fatnaði og vefnaðarvörum, skófatnaði, búsáhöldum og hreinlætisvörum, jafnt á milli allra manna í landinu. Þetta er í eðli sínu hin gamla höfðatöluregla, þ. e. að ætla öllum mönnum jafnan skammt af hvaða vöru sem er. Nú er það svo, að flestum hlýtur að vera kunnugt, að það er ekki sama notkun á þessum vörum, sem þarna eru upp taldar, alls staðar á landinu hjá einstaklingum. Í bæjum og sveitum nota menn misjafnlega mikið af sumum þessum vörum, t. d., skófatnaði, vefnaðarvörum og búsáhöldum. Af þessum vörum er notað miklu meira í bæjum en úti á landsbyggðinni, sem kemur að eðlilegum hætti, að notkun þeirra er ekki eins mikil utan bæjanna. Þess vegna er það í eðli sínu óeðlilegt að ætla sér að skipta öllum þessum vörum jafnt á milli neytendanna. Ég skal viðurkenna aftur á móti, að vörum eins og kornvörum, kaffi og sykri er eðlilegt, að sé skipt jafnt, vegna þess að af þessum vörum nota menn nokkurn veginn sama skammt hvar sem er á landinu.

Aðalatriðið í frv. er svo það, að einstaklingum skuli veitt innflutningsleyfi fyrir þessum vörum, sem um er að ræða. Það er m. ö. o. þannig, að það á eftir frv. að taka upp þá óhæfilegu og geipilegu skriffinnsku að veita hverjum einasta neytanda í landinu innflutningsleyfi. Þessum innflutningsleyfum eiga svo neytendur að framvísa í verzlunum, og verzlanir eiga síðan að snúa sér til innflytjenda eða S. Í. S., til þess að þeir geti svo aftur fengið leyfi út á þessi leyfi hjá sýslumönnum eða frá fjárhagsráðl. Þetta er svo óhemjuleg skriffinnska, að það er alveg furða, að nokkur maður skuli láta sér detta í hug að koma á slíkri framkvæmd. (GJ: Þetta er nú Framsóknar-frv., svo að það er nú engin furða.) — Vegna þess, sem ég tók fram áðan, að neyzlan er mjög mismunandi á ýmsum stöðum á landinu, annars vegar í bæjum, en í sveitum hins vegar, á þessum vörutegundum, yrði dreifing þeirra óeðlileg eftir þessu frv. Um leið og hver maður fær jafnan skammt á við alla aðra af þessum vörum, þá verður dreifingin á þeim óeðlileg í landinu, vegna þess að sumt af þessu fólki, og kannske mikið af þessu fólki, fær þá leyfi fyrir vörum, sem það notar ekki og ætlar sér ekki að nota. En þessi leyfi yrðu svo afhent í verzlanir og kaupfélög, og varan kemur á þá staði, þar sem eftirspurnin eftir henni er ekki til staðar. Það má segja, að þetta gildi ekki í jafnríkum mæli, ef um þrönga skömmtun er að ræða og ekki er flutt inn meira og jafnvel minna af vörum, en skömmtuninni nemur. En jafnvel þó að innflutningurinn sé ekki meiri en skömmtuninni nemur, þá mundi það vera í ákaflega mörgum tilfellum, sem neytendur eða leyfishafarnir keyptu ekki þá vöru, sem þeir hafa leyfi fyrir. Hins vegar mundi leyfið verða afhent og varan flutt inn af þeim, sem leyfið fær. Þá má segja, að í „theoríunni“ sé þetta framkvæmanlegt. Í „theoríunni“ má segja, að höfðatölureglan sé ekki mjög fráleit í þessu efni. En bara þegar maður athugar höfðatöluregluna í þessum efnum, eins og hún er kölluð, þá koma gallar á þessu fyrirkomulagi fram í framkvæmdinni, eins og þegar talað var um það á sinni tíð, að það ætti að skipta jafnt á milli landsmanna eða þeirra innflytjenda, sem sjá um vörudreifinguna, landbúnaðarvörum og sjávarútvegsvörum. Ef svo hefði verið gert, þá hefði það komið þannig út, að S. Í. S., sem flytur inn líklega 80 eða 90% af landbúnaðarvörum, það hefði samkv. höfðatölureglunni ekki átt að fá nema 30–40% af þeim vörum. Hins vegar hefði Sambandið eða kaupfélögin átt að fá 35% af sjávarútvegsvörum. En a. m. k. á þeim tíma, sem ég þekkti til, flutti S. Í. S. ekki inn nema 4–5% af sjávarútvegsvörum. Þetta er eitt lítið dæmi um það, hvað sú raunverulega höfðatöluregla er fráleit, ef á að framkvæma hana alveg eftir orðsins fyllstu merkingu.

Sú breyt., sem verður á þessari stofnun, ef þetta frv. verður samþ., er sú, að niður verður felld viðskiptanefnd. Það má segja, að niðurfelling viðskiptanefndar sem slíkrar sé þörf ráðstöfun, vegna þess að framkvæmd haftanna í höndum þessara tveggja stofnana — ég kalla þetta tvær stofnanir — hún er svo fráleit, að hún getur ekki verri verið. Og sem dæmi um það, hversu vinnubrögðin eru þar þunglamaleg, má benda á það, að einn maður í viðskiptanefnd getur fengið máli vísað með ágreiningi til fjárhagsráðs. Einn maður í fjárhagsráði getur með ágreiningi fengið sama máli vísað til ríkisstj. Ríkisstj. á svo að taka ákvörðun um málið, sem henni veitist oft erfitt að gera, vegna þess að hér er oft um pólitísk atriði að ræða, sem verður togstreita um í ríkisstj. Og venjulega verður niðurstaðan, að málinu er vísað enn aftur til fjárhagsráðs og fjárhagsráð vísar því aftur til viðskiptanefndar og viðskiptanefnd afgreiðir svo ekki málið. Og þá er málið búið að vera nokkrar vikur eða mánuði innan þessara stofnana og hjá ríkisstj., sem er nú höfuðið á þessum stofnunum. Og þannig eyðileggst öll skynsamleg afgreiðsla á þessum málum, sem eru kannske meira varðandi fyrir afkomu einstakra manna og alla afkomu í landinu en nokkuð annað. Það er næsta hryggilegt að hugsa til þess, að ríkisstj. skuli ekki koma sér saman um að fá fram einhvern skynsamlegan rekstur á þessari stofnun, sem um það bil hver einasti maður á landinu þarf eitthvað undir að sækja, heldur skuli þessi stofnun vera svo, að ekki einn einasti maður, sem maður hittir, mælir þessari stofnun bót, heldur eru allir undantekningarlaust, sem fordæma þessa aðferð. (BSt: Það finnast vonandi ráð í hv. fjhn., ef málið kemst til hennar.) Fjhn. á nú að segja sitt álit á þessu frv. hérna, og þá á hún að segja sitt álit um það, hvort með samþykkt þessa frv. mundu komast betri vinnubrögð á í þessari stofnun. Ég er ekkert frá því, að vinnubrögðin í þessum efnum mundu batna við það, að viðskiptanefnd sem slík yrði lögð niður. Viðskiptanefnd hefur talsvert mikið vald, eins og nú er. En með samþykkt frv. yrði sá valdaaðili burt numinn, og þetta vald yrði veitt fjárhagsráði, og fjárhagsráð yrði að taka ákvarðanir um hlutina, en ekki viðskiptanefnd. Og þetta er að mínu áliti eina till. í þessu frv., sem notandi er. Og ég vildi gjarna samþ. þann lið frv., sem um þetta fjallar.

Ég skal nú ekki þreyta hv. þd. lengur með umr. um þetta mál í kvöld, enda sé ég, að menn hafa tekið sér frí, sem hér eiga sæti. En ég vildi bara endurtaka það, að ég tel, að þetta frv. stefni til svo gífurlegrar skriffinnsku í viðbót við alla þá skriffinnsku, sem við höfum búið við, að af þeirri ástæðu væri full ástæða til þess að synja frv. um framgang.