10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (3603)

34. mál, fjárhagsráð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð í sambandi við þetta mál hér við þessa umr. Ég skal nú ekki fara mjög út í hinar einstöku gr. frv., en geyma það, þar til málið kemur aftur úr nefnd og séð verður, hvaða till. hv. fjhn. hefur fram að flytja um breyt. á frv.

Þegar lögin um fjárhagsráð voru samþ. hér á Alþ., þá var farið þar inn á mjög nýja og víðtæka braut í verzlunarmálum þjóðarinnar, í ýmsum athafnamálum og í raun og veru í öllum málum þjóðarinnar, sem snerta líf hennar og afkomu. Ég held, að því verði varla neitað, að þessi lagabálkur, sem settur var á sínum tíma af miklum meiri hluta Alþ., hann hafi fullkomlega brugðizt vonum manna, og ég held á hverju einasta sviði, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti hér á í gær. Ég held, að það sé varla nokkur maður í nokkurri stétt í þjóðfélaginu, sem ekki viðurkenni í dag, að þær vonir, sem bundnar voru við þennan lagabálk, hafi brugðizt. Þar með er ekki sagt, að ýmislegt gott hafi ekki komið frá fjárhagsráði í sambandi við ákvæði þessara laga. En það er áreiðanlegt, að dómur þjóðarinnar er sá, að þaðan hafi komið meiri erfiðleikar og meiri hömlur og meira illt en gott. Þegar svo þessi dómur liggur fyrir, þá er einkennilegt, að það skuli ekki geta náðst samkomulag um breyt. á þeim lagabálki til bóta. Að vísu eru einstakir menn, sem halda því fram, að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 37, sé hér stórkostlega til bóta, ef það nær fram að ganga. En það er út af fyrir sig heldur ekki nema nokkur hluti þingsins, sem er á þeirri skoðun, þótt þetta frv. hafi náð samþ. í hv. Nd. Og ég er einn af þeim, sem telja, að þær breyt., sem hér er lagt til, að gerðar séu á þessum l., stefni í öfuga átt og séu því siður en svo fallnar til þess að bæta úr þeim ágöllum, sem fyrir eru í þessum efnum. Mér er það fullkomlega ljóst, að fyrsta skilyrðið til þess, að þjóðin virkilega geti fengið að njóta hæfileika sinna, er, að hún hafi sem mest frelsi í landinu, en lögin um fjárhagsráð fara í öfuga átt við það. Þau reyra böndin að einstaklingum og félögum og því harðari, því erfiðara sem er í ári. Og reynslan hefur sýnt, að því meir sem þessi bönd eru reyrð og frelsið er skert, því verr líður þjóðinni, því lakara verður bæði atvinnuástand hennar og fjárhagsafkoma öll. Það er því ekki leiðin til þess að bæta úr þessu að fara enn lengra inn á haftakerfið og enn lengra inn á yfirstjórn einstakra manna yfir þjóðinni, manna, sem hljóta að hafa mjög takmarkaða hæfileika til þess að geta fyrirskipað einum í dag og öðrum á morgun um það, hvernig þeir skuli haga sínum atvinnuháttum og fjármálalífi hér í landinu. — Ég hefði því haldið, að eftir að fengizt hefur þessi reynsla, þá væri hægt að komast að samkomulagi um að snúa við á þessari braut, en fara ekki lengra inn á hana, eins og þó hér er ætlazt til með þessu frv. En um það virðist ekki vera samkomulag enn. Aðalástæðan fyrir því er auðsjáanlega eiginhagsmunir einstakra manna, sem þetta snertir, nákvæmlega á sömu lund eins og á sér stað hjá einni ákveðinni stétt í þjóðfélaginu, sem nú ris upp þessa dagana, — þ. e. bílstjórastéttin — sem krefst þess, sem allir menn vita, að er hverjum manni nema þeim sjálfum til stórógagns. En þannig er orðið ástandið í viðskipta- og athafnamálum hjá þjóðinni, að einstakir menn sjá sér hag í því að halda áfram höftum og þrengja enn meir að einstaklingsfrelsinu og hafa höftin, enn meiri en nokkru sinni áður. Það er svona líkt eins og er menn taka að sér að vinna eitthvað á óþrifastað, að þegar þeir eru búnir að vera nægilega lengi þar, finna þeir ekki lyktina af því, sem þar er óþverralegt. Og hins sama virðist kenna hjá Íslendingum í sambandi við öll þessi mál. Og þetta er því einkennilegra sem vitað er, að eftir því sem þjóðin hefur höggvið fleiri helsi af sjálfri sér, eftir því sem hún hefur fengið meira sjálfsforræði, eftir því sem henni fór að vegna betur, þá skuli hún nú, nokkru eftir að hún hefur orðið sjálfstæð, reyra sjálfa sig í þá fjötra, sem hér er um að ræða. En því miður virðast nú ekki miklar leiðir vera til þess, að þjóðin komist út úr þessu öngþveiti, beinlínis vegna tillits til einstakra manna og einstakra stétta, sem hugsa um aðstöðu sína til þess að geta krafsað til sín meira af verðmætum þjóðarinnar en þeir mundu geta, ef frjáls samkeppni væri í landinu eins og hjá menningarþjóðum. Ég tel, að það sé fyrsta skilyrðið fyrir hina íslenzku þjóð nú til úrbóta í viðskipta- og verzlunarmálum að viðurkenna það, sem raunverulega er í okkar viðskiptamálum, að kaupmátturinn inn á við er margfalt meiri en kaupmátturinn út á við og að gengi varanna á móti peningum er rammfalskt. Það þarf ekki að draga fram mörg dæmi til þess að sýna fram á þetta. Það er öllum ljóst, að á hinum svarta markaði í landinu er erlendur gjaldeyrir seldur fyrir tvöfalt verð eða meira á við skráð gengi. Jafnvel sjálft Alþ. hefur farið inn á þá braut að selja erlendan gjaldeyri með 75% álagningu, og er víst meiri eftirspurn eftir honum en innstæður erlendis þola. Það er vitað, að enginn atvinnurekstur, sem byggður er á útflutningi, getur lengur borið sig í landinu og að ríkissjóður verður að verja tugum milljóna kr. til þess að bæta upp verð til þeirra manna, sem standa að útflutningsframleiðslunni, sem beinlínis stafar af því, að gjaldeyri landsmanna er misskipt. Meðan þetta ástand er í landinu, þá er að sjálfsögðu ekki hægt að leysa þessa fjötra, sem hér eru á, eða jafnvel slaka neitt til á þeim. Og það er þess vegna, sem það er í raun og veru meginþörfin fyrir landsmenn nú að viðurkenna þetta ástand og breyta þessu fyrirkomulagi, létta af höftunum, leyfa einstaklingunum að sýna mátt sinn og möguleika og hæfni til þess að flytja vörur til landsins fyrir sem minnstan gjaldeyri — eins og raunverulega var ákveðið í þessum lögum frá upphafi og í þeim samningi, sem gerður var á milli þeirra flokka, sem styðja núverandi hæstv. ríkisstj., og líka milli þeirra flokka, sem studdu fyrrv. hæstv. ríkisstj., — og láta þannig jafnvægi skapast í landinu í viðskiptamálum og atvinnumálum þjóðarinnar. Og fyrr en þessi staðreynd er viðurkennd, er ekki hægt að búast við, að nokkur jákvæður árangur náist til úrbóta. — En ekkert af því, sem ég hef hér minnzt á, er í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Hér eru aðeins fyrirmæli um það að fara enn lengra inn á haftabrautina, enn lengra inn á svarta markaðinn, gefa aðilum enn betri og meiri möguleika til þess að verzla með innflutningsleyfi, ekki til þess, að það lækki vörur í verði til neytenda, heldur til þess að hækka það stórkostlega. Slíkt fyrirkomulag er ekki til þess að leysa þann vanda, sem hér er á ferðinni.

Ég skal viðurkenna, að sumt af því, sem fjárhagsráð hefur gert, síðan það var stofnað, hefur verið nauðsynlegt. En ég tel, að það, sem nauðsynlegt hefur verið gert hjá fjárhagsráði, það hefði mátt gera, þó að ekkert fjárhagsráð hefði verið til. Það var starf, sem að langmestu leyti lá í að afla upplýsinga fyrir viðkomandi aðila til að haga sér eftir. Það var allt annað en það vald, sem þessi stofnun hefur beitt til óþurftar í þjóðfélaginu — ekki af illgirni, síður en svo, heldur af því, að það er ekki hægt annað, eins og málum er komið nú, hversu góðir og samvizkusamir menn sem þar væru. Auk þess sem vitað er, að sú stofnun hefur verið rekin ákaflega mikið pólitískt og flokkarnir notað þar sinn pólitíska styrkleika, eftir því sem þeir hafa haft möguleika til á hverjum tíma, enda er það svo í þessu landi nú, að sá, sem hefur valdið á innflutningnum; hann hefur allt vald hér. Það er ekki lengur peningavald, skynsemi, menntun og frelsi, sem ræður, heldur er það innflutningurinn, valdið yfir verzluninni, sem ræður öllu í landinu. Þar er aðstaðan sterkust og mest valdið. Það má geta nærri, hve hollt það er fyrir þjóðina, að innflutningsverzlunin ráði þannig öllu. Það er því engin furða. þó að framleiðslustörfin, sem hafa í för með sér áhættu og gefa hvorki arð né völd, séu ekki eftirsótt, því að innflutningsverzlunin gefur mestar tekjur og mest vald yfir öðrum mönnum. En þetta er áreiðanlega ekki leið til frelsis og frama, heldur er þjóðin að kollsigla sig með þessu. Reynslan sýnir, að því lengra sem farið er inn á þessa braut, því verri er hagur landsins, bæði inn á við og út á við.

Ég hef aðeins viljað láta þetta koma fram við þessa umr. Síðar mun ég ræða einstök atriði frv., ef það þá kemur aftur í d. á þessu ári.