17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (3615)

34. mál, fjárhagsráð

Frsm. meiri hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og d. er kunnugt, hefur fjhn. klofnað um málið. Minni hl. hennar hefur þegar skilað áliti, en meiri hl. n. hefur beðið með að skila áliti sínu, því að hann áleit rétt, að athugað yrði, áður en málið væri afgr. út úr d., frv. það, sem nú liggur fyrir hv. Nd. og lagt hefur verið fyrir d. af hæstv. viðskmrh. N. taldi nauðsynlegt, að þessi tvö frv., sem fjalla um sama mál, yrðu athuguð með tilliti til samræmingar á frv., því að þótt hún kunni að vera á móti því frv., sem hér liggur fyrir, eins og það er nú, kann að vera, að menn mundu geta framkvæmt skynsamlega samræmingu á þessum tveimur frv. og þannig fengið breyt. á l. um fjárhagsráð, sem ýmsir telja, að mikil nauðsyn sé, að fram geti gengið. En meiri hl. n. telur alveg fráleitt að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, ef ekki getur unnizt tími til að láta slíka athugun fara fram, sem ég nú hef nefnt. Og þar sem komið er að þinglokum og sýnt er, að þetta mál verður knúið hér fram til atkvgr., án þess að tími geti unnizt til að sinna slíkri athugun, leyfir meiri hl. n. sér að bera fram svohljóðandi dagskrártill.:

„Með því að nú liggur fyrir neðri deild frv. um sama efni frá viðskmrh., sem ekki hefur unnizt tími til að athuga með tilliti til samræmingar á þessum tveimur frv., en hins vegar æskilegt, að ekki sé tekin ákvörðun um svo mikilvægt mál án rækilegrar athugunar á samræmingu frumvarpanna, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu dagskrártill., því að ekki hefur unnizt tími til að fá hana prentaða.