28.01.1949
Neðri deild: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (3629)

44. mál, jeppabifreiðar

Forseti (BG) :

Eftirleiðis mun verða haldið strangar á fyrirmælum þingskapa um umr. Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) : Ég ætla mér ekki að brjóta þingsköp, herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að ég skil vel, hvaða þörf eftirlitsmaðurinn á Þingvöllum hefur fyrir jeppabifreið, og um tíma í sumar stuðlaði ég að því, að honum yrði lánuð bifreið frá mínu ráðuneyti. — Ég vil lýsa því yfir, að þótt rætt hafi verið um í sambandi við innflutning jeppabifreiða, að þeir skuli fara til bænda, að verði því máli vísað til ríkisstj., þá tel ég, að þessi bóndi á Þingvöllum, sem er starfsmaður Þingvallan., sé meðal þeirra bænda, sem rétt eigi til þess að fá slíka bifreið. Hann er að vissu leyti bóndi og hefur mikið og merkilegt land, sem þarf mikla umönnun. Ef það kemur til minna kasta að úthluta þessum bifreiðum, þá mun ég beita mér fyrir því, að þessi bóndi komi til greina þar ekki síður en aðrir.