13.12.1948
Neðri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (3647)

96. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á Alþ. 1947 í maímánuði var samþ. svo hljóðandi ályktun:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fram fara endurskoðun á gildandi lögum og reglugerðum um eftirlit með verksmiðjum og vélum. Endurskoðuninni skal hraða sem verða má og árangur hennar lagður fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Samkvæmt þessari ályktun var svo með bréfi, dags. 14. nóv. 1947, skipuð fimm manna nefnd til þess að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um eftirlit með verksmiðjum og vélum. Í n. voru skipaðir þrír menn samkvæmt tilnefningu ákveðinna aðila. Enda þótt þál. gerði ekki ráð fyrir tilnefningunni, þótti það rétt, og var yfir lýst af mér, að það yrði gert. Eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands var skipaður í nefndina Kristinn Ág. Eiríksson járnsmíðameistari, eftir tilnefningu Félags íslenzkra iðnrekenda Páll S. Pálsson lögfræðingur og eftir tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna Guðmundur H. Guðmundsson húsgagnasmiðameistari, en tveir menn voru skipaðir í nefndina án tilnefningar, þeir Jón Vestdal verkfræðingur og Sæmundur E. Ólafsson, gjaldkeri Sjómannafélags Reykjavíkur. Formaður nefndarinnar var skipaður Jón E. Vestdal. — Þessi nefnd tók svo til starfa og hefur unnið að endurskoðun þessara laga síðan og samið þetta frv., sem hér liggur fyrir, og skilað því til ráðuneytisins í októbermán. s. l. Frv. er eins og hv. þm. sjá, allýtarlegt og verulegar breyt. á því gerðar frá gildandi lögum um þessi efni. En frv. fylgir líka allýtarleg grg. og skýringar á þeim breyt., sem lagt er til með frv., að gerðar verði á lögunum, og auk þess skýrsla um störf verksmiðjueftirlitsins á undanförnum nokkrum árum, frá 1944 til 1947. En í skipunarbréfi n. var það tekið fram, að n. væri falið að athuga, hvernig eftirlitið, sem nú er starfandi samkv. lögum um eftirlit með verksmiðjum og vélum, hefði rækt störf sín að undanförnu. N. hefur, eins og ég sagði, unnið að þessum málum síðan og lagt í þetta frv. allmikla vinnu, haldið 50 bókfærða fundi og haft tal af fjölda mörgum mönnum úr hópi verkamanna og vinnuveitenda til að kynna sér viðhorf þeirra til þessara mála. N. hefur líka skoðað verksmiðjur og aðra vinnustaði hér í Reykjavík og nágrenninu og annars staðar á landinu, og hefur reynt að afla sér sem beztra upplýsinga í þessum málum, eftir því sem föng eru á. Enn fremur hefur n. kynnt sér lagafyrirmæli annarra þjóða í því efni, sem hér er um að ræða, og tekið upp úr þeim lögum og reglugerðum það, sem máli þótti skipta og ætla mátti, að yrði til bóta.

Lögin um eftirlit með verksmiðjum og vélum eru nú orðin 20 ára gömul, þau voru sett 1928, svo sem kunnugt er, og hafa verið í gildi síðan, með nokkrum breyt. þó, sem gerðar hafa verið bæði á lögunum sjálfum og eins á þeim reglugerðum, sem út hafa verið gefnar í sambandi við lögin. En lög þessi eru fyrst og fremst rammi og heimildir um reglugerðir, sem hægt er svo að gefa út eftir á og fela í sér nánari ákvæði, sem óheppilegt þykir að binda beinlínis með lögum, en þurfa að vera hreyfanleg, eftir því sem við á, á hverjum tíma. Lögin sjálf frá 1928, um eftirlit með verksmiðjum og vélum, hafa ekki orðið fyrir miklum breyt., ekki mjög miklum. Nokkrum sinnum hefur þeim þó verið breytt. En aðalbreyt., sem gerðar hafa verið á ákvæðum um þessi mál, hafa verið gerðar með reglugerðum, sem gefnar hafa verið út á því tímabili, sem lögin hafa verið í gildi. Og það er nauðsynlegt að hafa þetta þannig hreyfanlegt, hvað breyt. á þessum ákvæðum snertir, til þess að geta breytt til um ákvæði í þessum efnum eftir því, sem þykir heppilegast á hverjum tíma.

Þetta mál, lög um eftirlit með verksmiðjum og vélum, hefur ýmsar hliðar. En sú hlið þess, sem athyglisverðust er, er sú, að reyna að forða frá slysum og atvinnusjúkdómum. Það er ekki til nein tæmandi skýrsla um það, hve mörg slys við vinnu hafa orðið hér á landi. Einustu skýrslur um þetta efni eru skýrslur slysatryggingarinnar um þau slys, þar sem sá, sem fyrir slysinu verður, verður annaðhvort öryrki eða þá óvinnufær um 10 daga samfleytt eftir að slysið vill til. En vitanlegt er, að mörg minni slys eru þannig, að þeir, sem fyrir þeim verða, verða ekki óvinnufærir svo langan tíma, og koma því ekki til skráningar. En þótt ekki séu tekin nema þau slys, sem valda töfum frá vinnu um lengri tíma, en 10 daga eða þá örkumlum að einhverju leyti, þá eru þau það mörg, að telja má ísjárvert. Árið 1944 er fjöldi þessara slysa orðinn 657, árið 1945 691, árið 1946 708. Greiðslur trygginganna vegna þessara slysa hafa á þessum sömu árum verið þessar: Árið 1944 kr. 769.829,45, 1945 kr. 1.293.000.00, árið 1946 kr. .983.000.00, eða aðeins minni en 1945. Þetta eru hin beinu útgjöld trygginganna vegna þessara slysa. En tjón þjóðfélagsins og einstaklinganna af þeirra völdum er, eins og gefur að skilja, miklu meira. Það má gera sér nokkra grein fyrir því, hve mikið það tjón er, ef tekið er saman, hvað sá fjöldi vinnudaga er mikill, sem menn hafa verið frá vinnu vegna þessara slysa, og kemur þá út, að vinnudagar, sem menn hafa verið frá vinnu vegna slysa, hafa verið árið 1944 32.459, 1945 34.476 og 1946 37.296. Með þeim daglaunum, sem nú tíðkast, þá sést auðveldlega, að þetta tap nemur svo milljónum kr. skiptir á hverju ári. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að gerðar eru ráðstafanir af hálfu þess opinbera til þess að gera það ýtrasta til þess að koma í veg fyrir þessi slys. Og þó er enn ekki allt talið, því að fyrir utan fjárhagstjónið, sem verður af þessum slysum, þá er auðvitað ýmislegt annað, sem þar kemur líka til greina, eins og sú óhamingja og erfiðleikar, sem orsakast af sérhverju slysi, sem snertir ekki aðeins þá menn, sem fyrir þeim verða, heldur mikinn fjölda annarra manna, svo sem nánustu aðstandendur þessara manna, skyldmenni og venzlamenn. Það er því síður en svo ófyrirsynju, að þetta mál er tekið ákveðnum tökum, hvort sem litið er á þetta mál sem mannúðarmál gagnvart einstaklingum, sem fyrir slysum kunna að verða, eða sem beint fjárhagsmál frá sjónarhóli þjóðfélagsins í heild og enn fremur allra starfandi manna, sem á þessum vinnustöðum vinna, sem um er að ræða að forða slysum á. Málið er þess vegna mjög þýðingarmikið og fullkomlega þess virði, að því sé verulegur gaumur gefinn.

Frv. sjálft er, eins og hv. þm. sjá, í 10 köflum og 53 greinum, skipt niður eftir efni. I. kaflinn er um gildissvið laganna, tilkynningarskyldu o. fl. þess háttar, þar sem fram kemur, að gildissvið þessara laga, sem sett verða, ef frv. þetta verður samþ. í því formi eða svipuðu, er örlítið rýmkað frá því, sem verið hefur, þannig að gert er ráð fyrir, að það taki til fleiri vinnustaða en áður og skuli gilda yfirleitt þar, sem einn maður eða fleiri eru að vinnu auk vinnuveitanda. Síðan er skilgreining um það, hverjir teljast verkamenn og vinnuveitendur og hvar skyldugt er að framkvæma tilkynningu á vinnustað. — Í II. kafla þessara laga, 5.–11. gr., eru svo til teknar ýmsar almennar grundvallarreglur um það, hverjar kröfur séu gerðar til vinnuveitenda og verkamanna og trúnaðarmanna á vinnustöðum. Engin tilsvarandi ákvæði eru til í gildandi lögum, hvað snertir 6. og 7. gr. En ýmis ákvæði eru til í gildandi lögum, sem svara til ákvæða 5. gr. þessa frv. — Í III. kafla laganna eru svo sérstakar reglur varðandi ráðstafanir til verndar heilbrigði og velferðar verkamanna. Þara eru tekin upp ýmis ákvæði um aðbúnað á vinnustöðum, svo sem um lofthæð húsa, loftrúm, gólf, þak, veggi og loft, lýsingu, hreingerningu, hita, drykkjarvatn og fleira, sem kemur til greina á hverjum vinnustað, og sett ákvæði um það hvað eina, eins og segir í 13. gr. frv: Mikið af þessu eru nýmæli, eða þar, sem ekki er um nýmæli að ræða, þá eru ákvæðin fyllri, en í gildandi lögum um þetta efni. — Síðan eru í IV. kaflanum ákvæði um ráðstafanir til að verjast slysum, sem naumast eru til í gildandi lögum eða reglugerðum, nema að sumu leyti að því er tekur til véla og styrkleika húsa og annars þess háttar. — V. kafla frv. eru tekin upp alger nýmæli um lágmarks hvíldartíma verkamanna, þar sem því er slegið föstu, að vinnu skuli hagað þannig, að sérhver verkamaður geti notið samfelldrar hvíldar frá vinnu sinni á sólarhring eins og þar er nánar til tekið. Og þá eru ýmis ákvæði í sambandi við undanþágur og þess háttar, sem leyfðar eru. En þetta nýmæli telur n. og ráðuneytið líka, að sé þarft og eðlilegt og beri að takast upp, hvort sem það verður í þessari mynd eða einhverri annarri svipaðri, sem hv. n., sem fær málið til meðferðar, kynni að komast að niðurstöðu um. — VI. kafli frv. er svo um eftirlitið með framkvæmd laganna, sem er starfandi stofnun í landinu og þarf sennilega ekki mikið að auka frá því, sem nú er. Náttúrlega verður það eftirlit að vera þannig skipað starfskröftum, að það ráði fullkomlega við það verkefni, sem því er fengið á hverjum tíma, svo að ekki verði sakazt um við eftirlitið, að það geti ekki innt sín skyldustörf af höndum. — Í VII. kafla frv. eru svo ákvæði um öryggisráð, eða sérstakt ráð, sem skipað sé fimm mönnum til sex ára í senn, til þess að vera til aðstoðar og taka til athugunar mál, sem lög þessi ná til, láta álit sitt í ljós við ríkisstj. og öryggiseftirlitið og gera till. til ráðherra um breyt. á lögum og þess háttar. — Í VIII. kafla frv. er svo ákveðið, að setja megi eftirlitsgjald, sem ekki er slegið föstu í lögunum þó, heldur gert ráð fyrir, að gert verði síðar í reglugerð, svo a. m. k. að þessi stofnun geti staðið undir sér fullkomlega, eins og hún hefur gert hingað til og gerir enn, og að þessu gjaldi verði þá hagað í samræmi við það. — Að síðustu eru í IX. kafla ákvæði um refsiaðgerðir fyrir brot. — Og í X. kafla eru ákvæði um gildistöku laganna og hvaða lög séu felld úr gildi með samþykkt þeirra.

Ég tel ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins, hér við 1. umr., að rekja frv. grein fyrir grein, enda segir í þingsköpum, að það skuli ekki gert við 1. umr., heldur 2., og mun ég ekki frekar skýra nú, hvað í frv. stendur, enda er þess síður þörf, þar sem í mjög skilmerkilegri grg, sem frv. fylgir, er hægt að lesa um hverja einustu gr., hvað nýtt í hverri gr. felst og hvað hefur komið til athugunar og annað, sem til upplýsinga má vera í þessu skyni. — Ég gat þess í upphafi ræðu minnar, hvernig þessi n., sem samið hefur frv., hefði verið skipuð. Hún stendur að frv. einróma og óskipt, nema um tvö atriði, sem getið er um sérstaklega í aths. við frv. Annað atriðið er um skipun eftirlitsmanna á vinnustöðum, og hitt atriðið er um skipun öryggisráðs. Þetta eru þau einu tvö atriði, sem n. er ekki fullkomlega sammála um. Og ég vildi ætla, að sá ágreiningur, sem um þessi tvö atriði er sé ekki það verulegur, að um þau atriði ætti að geta náðst fullt samkomulag. Annars er þó um fyrra atriðið það að segja, að þar leggur meiri hl. n. sérstaka áherzlu á, að farin verði sú leið, sem meiri hl. n. leggur til, að farin verði, og telur af prinsipástæðum, að betri árangur muni nást með því móti um eftirlitið. En minni hl. telur, eins og kemur fram í aths., að þessi eftirlitsmaður þurfi að vera óbundinn og óháður, og þess vegna eigi ekki samkomulag að verða um val hans við vinnuveitanda. En um val þessa trúnaðarmanns segir í frv., eins og það liggur nú fyrir, að hann skuli valinn af verkamönnum í samráði við vinnuveitanda. Yfirleitt segir meiri hl. n., að hann leggi mikið upp úr því, að samvinna geti náðst milli vinnuveitenda og verkamanna um þessi atriði.

Af ráðuneytisins hálfu hef ég svo því einu við að bæta, að frv. er flutt samhljóða því, sem n. gekk frá því. Þar er engu haggað. Þó kannske megi segja, að sumt gæti kannske orkað tvímælis, þá tel ég ekki rétt, að það komi fram sem breyt. á frv. í flutningi þess, heldur kæmi það þá sem samkomulag við þá nefnd, sem fær frv. til meðferðar, svo að till. n., sem samdi frv., geti legið fyrir, alveg eins og þessi n. gekk frá þeim. Þessi n., sem frv. samdi, hefur haft nána samvinnu við verksmiðjuskoðunarstjóra og leitazt við að afla sér upplýsinga um starf hans og þeirrar stofnunar, sem hann veitir forstöðu, enda var beinlínis óskað eftir því í skipunarbréfi n., að þessi háttur yrði hafður á um vinnubrögð nefndarinnar. Aftan við frv. og aths., sem því fylgja, eru þess vegna prentuð þrjú fylgiskjöl, frá verksmiðjuskoðunarstjóranum tvö og frá landlækni það þriðja, þar sem greint er frá starfi verksmiðjuskoðunarstjórans og verksmiðjueftirlitsins og nákvæm skýrsla um skoðunargerðir á ýmsum fyrirtækjum, sem þar eru talin upp. Þetta er gert vegna þess, að við fyrri umr. um þessi mál hefur verið dregið í efa, að eftirlitið hefði staðið í sinu stykki eins og því bar að gera, og gefið í skyn, að það hefði ekki framkvæmt eftirlitið eins samvizkusamlega og hefði átt að gera. Af þeirri skýrslu sést, hvað gert hefur verið og gert ekki í hverju tilfelli þessu viðkomandi. N. hefur líka haft bréfaskipti við ýmsa aðila úti um land til þess að leita upplýsinga um framkvæmd laganna o. fl., en fengið lítið af svörum. En það, sem ástæða hefur þótt til að birta af því, er prentað sem fylgiskjöl í aths. við frv.

Ég hef svo ekki frekar um þetta mál nú að segja. Ég vildi leggja til, að frv. yrði að þessari umr. lokinni sennilega vísað til iðnn. Þó að málið í eðli sínu heyrði fremur undir heilbr.- og félmn., sennilega hvað helzt, þá hefur nú verið sá háttur á, að í ráðuneytinu heyrir þetta ekki undir félmrn., eins og það þó gerir í öðrum löndum, það heyrir það ekki hér hjá okkur, heldur hefur það verið látið fylgja þeim málum, sem til iðnaðarins teljast. Til þess að samræmi verði þar á milli, tel ég eðlilegast, að þetta mál fari til iðnn.