05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (3651)

174. mál, húsaleiga

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Við 2. umr. 88. máls, frv. til l. um húsaleigu, skýrði ég frá því, að félmrn. hefði í undirbúningi heildarlöggjöf um húsaleigu. Nú er það hér til umr. Þessu frv. fylgir ýtarleg grg., bæði almenns eðlis og skýringar á einstökum greinum og það, sem óvant er í frumvörpum, að gerð er grein fyrir kostnaði við framkvæmd, ef að l. verður, og sparnaði, sem ynnist. Ég vil skjóta því fram, að nauðsynlegt væri, að hverju frv., er aukin útgjöld hefði í för með sér fyrir ríkissjóð, fylgdi grg., þar sem gerð væri grein fyrir því, hver stöðug útgjöld l. hefðu í för með sér, ef samþ. væru. Þar eð ég við 2. umr. frv. þess til l. um húsaleigu, sem fellt var áðan, lýsti innihaldi þessa frv. með almennum orðum, get ég sparað mér að endurtaka það. En höfuðatriðin eru þessi:

Breytingar þær, sem verða mundu frá því, sem nú er, ef frv. þetta til l. um húsaleigu ásamt bráðabirgðaákvæðum, eins og frá þeim er gengið nú, yrði að l., eru í aðalatriðum þessar:

1. Heildarlöggjöf um húsaleigu hefur ekki verið til hér á landi fyrr, því að núverandi svokölluð húsaleigulög er aðeins bráðabirgðalöggjöf, framkölluð af erfiðleikunum fyrir síðasta ófrið og við haldið vegna stríðsins. Með þessum l. yrði sett heildarlöggjöf um skipti leigusala og leigjenda, og er löggjöfin sniðin eftir norrænni löggjöf um þessi efni, en miðuð við íslenzka sérhætti og varðveittar og lögfestar þær dómsvenjur, sem myndazt hafa í þessum málum á liðnum tímum.

2. Þess er gætt að taka ekki inn í sjálf lögin bráðabirgðaákvæði, sem ætla verður, að falli úr gildi, ef venjulegir tímar koma aftur, heldur eru þau tekin upp í sérstakan viðauka, sem kallaður er „bráðabirgðaákvæði“. Þar eru því aðalatriði núgildandi húsaleigul. Að sjálfsögðu fellur ýmislegt af því, sem húsaleigunefndir hafa nú með höndum, undir þá aðila, sem með framkvæmd húsaleigulaganna eiga að fara skv. frv., en það eru húsaleigudómur og sveitarstjórnir. Þess vegna verða óþörf mörg ákvæði núgildandi húsaleigul.

3. Höfuðbreyt. á skipun þessara mála frá því, sem nú er, verður sú, að allar húsaleigunefndir hverfa úr sögunni. Sveitarstjórnir taka við ýmsum verkefnum, sem húsaleigunefndir hafa nú, og valdsvið þeirra til afskipta af húsnæðismálum er verulega aukið frá því, sem nú er, og er það í samræmi við það, sem er annars staðar á Norðurlöndum. Aðalverkefni húsaleigunefnda færast þó til nýs dómstóls — húsaleigudóms, — sem leigusalar og leigutakar geta skotið málum sínum til, og fellir hann úrskurði um ágreininginn í samræmi við lögin. Húsaleigudómur verður þó hvergi fastur dómstóll nema í Reykjavík, og fellur Hafnarfjörður einnig undir umdæmi hans. Annars staðar er dómurinn „laus,“ þannig að héraðsdómari dæmir málin með tveim meðdómendum, sem hann kveður til hverju sinni.

Dómum húsaleigudóms má áfrýja til hæstaréttar, öðrum en þeim, sem snerta matsatriði, en þeim verður að vera hægt að áfrýja til sérstaks dómstóls, ef um verulegar upphæðir er að ræða, og er gert ráð fyrir slíkum yfirmatsdómi í frv. og að hann verði skipaður hverju sinni með líkum hætti og þegar mat er framkvæmt vegna eignarnáms. Þeir, sem eigast við fyrir dómnum, greiða kostnaðinn eftir mati dómsins. Ekki verður áfrýjað til dóms þessa nema fjárhæð sú, sem um er deilt, nemi 5.000 kr. eða meira. Úrskurðir húsaleigudóms um minni verðmæti eru fullnaðarúrskurðir (sjá 86. gr.). Húsaleigudómur er í senn venjulegur dómstóll og matsdómur, og verður því að hafa þennan hátt á um áfrýjun frá honum.

4. Atvinnuhúsnæði er ekki lengur látið vera háð bráðabirgðaákvæðunum, heldur er frjálst að segja því upp, en um það gilda áfram ýmis ákvæði í lögunum sjálfum (sbr. 46.–52. gr.).

5. Íbúðarhúsnæði er áfram háð lögþvingaðri leigu, meðan bráðabirgðaákvæðin eru í gildi, en þó rýmkað frá því, sem er, þannig:

a. Einstök herbergi eru tekin undan bráðabirgðaákvæðunum og falla undir ákvæði heildarlaganna.

b. Réttur eiganda til að segja upp vegna sjálfs sín eða ættingja sinna er rýmkaður þannig, að þann rétt öðlast nú þeir, sem eignazt hafa íbúðir fyrir 1. jan. 1945 (í stað 9. sept. 1941 áður).

6. Bráðabirgðaákvæðin er ætlazt til að gildi fyrst og fremst fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð, en þó sé sveitarstjórn í kaupstað eða kauptúni, þar sem eru 500 íbúar eða fleiri, heimilt að kveða svo á með sérstakri samþykkt, að þau skuli einnig gilda þar.

Ég hef þá rakið nokkuð helztu ákvæði þessa frv. Og eins og ég sagði í upphafi þessara orða minna, sé ég því minni ástæðu til að fjölyrða um málið í hv. d., þar sem ég hef gert það nokkuð áður, að gefnu öðru tilefni hér í sömu d. Ég minntist á það einmitt, að með ráðstöfunum þeim, sem lagðar eru til í þessu frv., ætti að fást sparnaður fyrir ríkisstj., sem næmi allt að 175 þús. kr. á ári. Húsaleigunefndir kosta nú ríkissjóð hér um bil 227 þús. kr. á ári. En ætla má með nokkuð skynsamlegu viti, að húsaleigudómstóll sá, sem við á að taka helzta hlutverki húsaleigunefndanna, mundi ekki þurfa að kosta meira en um 50 þús. kr. á ári. Er gert ráð fyrir því, að dómstóll þessi, sem er fyrst og fremst fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð, hefði starfshætti nokkuð svipaða og félagsdómstóll hefur, þannig að dómendur hefðu starfið ekki að aðalatvinnu, heldur sem aukastarf, og mundi því unnt að greiða þeim lægra, en ella.

Ég skal svo að lokum geta þess, að inn í þetta frv. hafa slæðzt og ekki verið leiðréttar við lestur síðustu prófarkar nokkrar villur. Vil ég sérstaklega biðja n., sem væntanlega verður allshn., að taka til athugunar það, sem ég nú bendi á: Í 23. gr., næstsíðustu línu gr. stendur „leigusali“, en á að vera leigutaki. Þá hefur svipuð prentvilla skotizt fram hjá leiðréttingu í 47. gr., næstsíðustu málsgr., sem byrjar svona: „Nú kýs leigusali . . “, en á að vera „leigutaki“. Að lokum eru nokkrar misfellur seinast í frv., því að niðurlagsákvæði eiga að færast aftur fyrir 89. gr., þar sem fer betur á því í efnisniðurröðun í frv. Bið ég hv. n. einnig að athuga það mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Þar sem nú rétt áðan var fellt í hv. d. frv. þingmanna um eins konar afnám húsaleigulaganna, álít ég a. m. k. að allir þeir, sem vilja láta fara fram eðlilega endurskoðun og leiðréttingu á núgildandi húsaleigulögum, ættu að reyna að taka höndum saman um að koma þessu frv. gegnum Alþ. Ég álít að þau almennu ákvæði frv., sem eru höfuðinnihald þess, séu til verulegra bóta og skapi reglur, sem tilfinnanlega vantaði áður í íslenzka löggjöf um þann þýðingarmikla viðskiptaþátt, sem tengdur er við húsaleigu almennt. Þarna er brýn þörf nýrrar löggjafar, því að eftir að húsaleigulögin gömlu, sem að mjög litlu leyti fjölluðu um þetta mál, eru brott numin, stendur ekkert eftir annað en þær dómvenjur, sem myndazt hafa. En þær ná að sjálfsögðu ekki til nema fárra atvíka í viðskiptum milli leigusala og leigutaka almennt. — Um bráðabirgðaákvæðin vildi ég segja, að þar er gerð tilraun til rýmkunar frá núgildandi l., sem ég að mestu leyti treysti mér til að mæla með. En ég undirstrika það, sem ég áður sagði, að húsaleigul. eiga aðeins að vera til bráðabirgða, miðuð við það óeðlilega ástand, sem skapaðist af áhrifum stríðsins, beinum og óbeinum. Með því að setja þessi nýju ákvæði sem bráðabirgðaákvæði er enn þá meir undirstrikað en áður var, að það sé aðeins spurning um tíma, hvenær flest af þessum ákvæðum mega niður falla.

Það getur alltaf að sjálfsögðu verið álitamál, hvað mikið eigi að rýmka um nú á þessari stundu, og veit ég, að þar er nokkur skoðanamunur milli þm. Þó held ég allir séu sammála um, að þörf sé endurskoðunar og breyt. á núgildandi húsaleigulöggjöf. Ætla ég, að þetta frv. geti verið góður vísir að þeirri endurskoðun. Ég vildi skjóta því til n., þótt væntanlega sé allmikið liðið á setu Alþ., að athuga svo fljótt sem auðið er, hvort ekki væri hægt að greiða fyrir máli þessu gegnum þingið, því að þótt greinar séu þar margar og feli í sér mörg ákvæði, þá ætla ég, að ekki sé ýkjamikið starf að fara í gegnum þær og taka afstöðu til þeirra. Og nú vill svo til, að í hv. allshn. sitja þrír lögfróðir menn. — Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.