25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (3661)

3. mál, menningarsjóður

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að verða við tilmælum hæstv. fjmrh. og mun því sleppa að halda framsöguræðu nú fyrir hönd menntmn., en út af ræðu hv. 7. landsk. vil ég taka það fram nú þegar, að n. er það ljóst, að tekjur sjóðsins 1945 af sektum eru ekki nokkurt hámark og allar líkur til, að þótt þetta frv. nái fram að ganga, þá muni aldrei til þess koma, að greiða þurfi tekjur af áfengissölunni í Menningarsjóð til þess að ná þessu hámarki, 60 þús. kr. með vísitölu. En 1945 námu tekjurnar kr. 107.203,60, og hefði því ekki þurft að bæta nema 20 þús. kr. við það ár til að ná hámarki því, sem frv. fer fram á. Og ég geri ekki ráð fyrir, að 1947 hafi lögin um hækkun sekta verið farin að verka nema að nokkru leyti. Sennilega hefur hækkunin verið orðin einhver, en ekki verið allt árið, en það sést ekki á plöggum nefndarinnar. Ég vil benda á það, að þetta frv. er ekki borið fram vegna þess, að búizt sé við meiri tekjum, heldur til að tryggja sjóðnum, að hann hafi eitthvað fast að byggja á, ef tekjur þessar brygðust einhverntíma, sem vonandi er. Þetta vildi ég að kæmi fram strax. Ég vona, að ekki líði á löngu þar til að hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. kæmi fram með sínar tillögur.