22.10.1948
Efri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3672)

19. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan mega spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh. viðvíkjandi frv. um manntal og heimilisfang, hvað þeim líði. Það voru nákvæmlega sömu orð, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta mál í fyrra, að fljótlega væri von á þessum frv. Ég geri ráð fyrir, að eitthvað hafi þokað áfram þeim undirbúningi, sem þá var verið að vinna. Ég tel það alveg ófært að ganga inn á þá braut, sem hér er verið að gera, að hætta að skipta útsvörunum og leggja þau aðeins á þar, sem menn eiga heimili, nema komi þá ný l. um heimilisfang. Á hverju ári eru 400–500 menn, sem aldrei finnst neitt um, hvar eigi lögheimili, og hvergi borga sín opinberu gjöld. Það næst ekki í þá. Ef hætt er að skipta útsvari, fá menn nýja átyllu til þess að komast undan því að eiga lögheimili og eru í þessum staðnum einn mánuð og í hinum staðnum hinn. Þá veit engin hreppsn., hvar á að leggja á manninn, þó að það standi hér: „Nú leikur vafi á um lögheimili manns eða úrslit um það bíða dómsúrskurðar, þá skal leggja á aðila þar, sem hann dvelur, er niðurjöfnun fer fram.“

Það er gefið upp, að maður heiti Jón Jónsson og eigi heima þarna og þarna, hann er á skipi, og enginn veit heimilisfangið. Þetta hefur komið fyrir. Ég vil þess vegna vita frekar um það, hvers mætti vænta um hið nýja frv. til l. , um lögheimili, því að eftir því, hvernig það verður, fer afar mikið fylgi mitt við þetta frv.

Ég benti á í fyrra, að mjög miklir ágallar væru í A-lið 4. gr., t. d., þar sem heimilt er að leggja sérstaklega á giftar konur. Það kemur að sjálfsögðu undir útsvars- og skattal., og skal ég ekki fara frekar út í það nú. En mig langar aðeins til þess að fá það upplýst frá hæstv. forsrh., hvort eigi megi vænta þessa frv. þráðlega. Það er liðið meira en hálft ár síðan, og hafi verið lögð í það nokkur vinna, hlýtur að mega vænta þess bráðlega, kannske næstu daga. Það vildi ég mega vona.