05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (3683)

91. mál, skipamælingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta mál og rætt um það við skipaskoðunarstjóra. Henni er ljóst, að brýna nauðsyn ber til þess, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. N. ber fram í samráði við skipaskoðunarstjóra nokkrar brtt. á þskj. 474.

1. brtt. er við 1. gr. og er smávægileg. Breyt. er sú, að í stað orðanna „undir yfirstjórn þess ráðherra, er siglingamál lúta“ komi: „undir yfirstjórn ráðherra“. N. þótti öllu eðlilegra, að gr. væri orðuð þannig. — 2. brtt. er við 5. gr. Er gr. þar umorðuð., Það þótti skýrar orðað en eins og gr. er í frv. — Nokkur mistök urðu við 3. brtt. Till. á ekki við 12., heldur 14. gr. Auk þess hefur skipaskoðunarstjóri gert nokkrar aths. við orðun till., svo að ég mun taka hana aftur til 3. umr. — 4. brtt. er smávægileg viðbót, sem einnig er gerð í samráði við skipaskoðunarstjóra. Þar er bætt við „enda sé landið bundið við þann samning“. — 5. brtt. er við 19. gr., síðustu málsgr. hennar. Þar hefur orðið prentvilla, og veit ég ekki, hvort hæstv. forseti getur úrskurðað að laga hana án þess að bera brtt. fram. Annars verður að koma með brtt. við 3. umr. Þar er vitnað í 5. gr., en á að vera 15. gr.

Frv. er samið af Einari Arnórssyni, hæstaréttardómara og er samið í fullkomnu samræmi við þá samninga, sem gerðir hafa verið um skipamælingar milli ákveðinna landa og ríkja, og hefur n. fallizt á, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef nú lýst.

Ég vil minnast á það í sambandi við 19. gr., að ég er ekki viss um, hvort rétt er, að 1. málsliður sé þar sem hann er, hvort hann ætti ekki að koma síðar í gr.

Einn nm., hv. 6. landsk., var ekki á fundi, þegar málið var afgr. Hann mun hafa verið veikur, og hefur hann því ekki skrifað undir nál., en hinir leggja til, að frv. verði samþ., eins og nál. segir til um.