07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (3705)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það er vitanlega bæði sjálfsagt og æskilegt, að kauptún og kaupstaðir hafi yfir að ráða því landrými, sem þau þurfa, en ég álit, að með þeirri till. frá hv. allshn., sem hv. frsm. gerði grein fyrir, þá sé gengið nokkuð langt í þá átt að svipta menn yfirráðum yfir eignum sínum. Þar er rætt um, að greiða skuli 50% söluskatt af því andvirði selds lands, sem er umfram þrefalt fasteignamat. Með því að draga slík mörk hefur n. líklega talið sig vera innan takmarka hófs og sanngirni, en hér er þó fyrst og fremst um það að ræða, að það er verið að afnema vissan hluta af eignarrétti einstaklinganna, sem þeim hefur verið fenginn með stjórnarskránni, og opnar þetta dyrnar fyrir nýjum ráðstöfunum í aðrar áttir varðandi eignir manna. Það er eins hægt að segja, að ef seld er húseign eða aðrar fasteignir yfirleitt, að þá skuli allt andvirði, sem er fram yfir þrefalt fasteignamat, renna til ríkissjóðs eða bæjarsjóða, og þegar komið er inn á þessa braut, hvar verður þá stanzað? Ætli það verði þá ekki næst, að allt, sem er fram yfir fasteignamat, renni til hins opinbera. Þegar komið er inn á svona varhugaverða braut, þá má búast við því, að það dragi dilk á eftir sér, og þegar gengið er inn á svona grundvallaratriði, þá er því grundvallaratriði hætt, sem einstaklingum er veitt með stjórnarskránni, og á ég þar við eignarréttinn. Eignarréttur er að vísu teygjanlegt hugtak, en alltaf hefur verið haldið fast við ákvæði stjórnarskrárinnar. En því lengra sem er gengið og oftar höggvið í þann sama knérunn, að leysa þetta úr böndum, þá er ekki að vita, hvar þetta verður stöðvað, og svo getur farið, að innan skamms verði eignarréttur stjórnarskrárinnar ekki mikils virði, ef löggjafinn fer þessa leið.