07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (3706)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hefur nú komið á daginn, sem ég spáði í fyrra, þegar afgreidd voru lögin um forkaupsrétt á jörðum og svo kveðið á, að hluti af söluverðinu skyldi renna til sveitarsjóðs, ef söluverðið væri svo hátt, að það næmi tvöföldu fasteignamati jarðarinnar. Þá benti ég á, að þetta væri aðeins byrjunin á þeirri viðleitni hins opinbera til að ná undir sig eignum manna, og hefur nú komið í ljós, eins og ég spáði, að ekki yrði langt að bíða næsta skrefsins, ef farið væri inn á þessa braut. Næsta skrefið hefur nú þegar verið stigið með till. hv. allshn., og sé ég ekki muninn á því, að það sama gilti um fasteignir allar á landi og það land, sem þær standa á. Hv. frsm. n. lýsti því yfir, að ríkisstj. hefði ekki treyst sér til að flytja frv. eins og það kom frá mþn., því að það hefði falið í sér stjórnarskrárbrot, en svo hlakkar hann yfir því, að n. hafi verið svo klók að fara í kringum þetta og komizt aðra leið að sama marki, sem sé að brjóta stjórnarskrána. Ja, það er ekki upp á 6 lagasiðferðið hjá n., sem svona hagar sér, og undir þetta nál. rita þrír lögfræðingar. Ég þarf ekki langa ræðu að flytja gegn þessari till. allshn. og get að miklu leyti vísað til orða minna í fyrra gegn frv. um forkaupsrétt á jörðum. Ég tel þessa leið hættulega, og ég skil það vel, að þeir, sem vilja fá opinberan eignarrétt á hvað sem er, vilji styðja þetta, en ég skil ekki, hvernig þeir, sem enn telja sig vilja verja eignarrétt einstaklingsins, geta fylgt þessari stefnu. Mótleikurinn, sem hér hlýtur að vera gerður til þess að bjarga eignum sinum, er sá að krefjast hærra fasteignamats, allt upp í almennt söluverð, en slíkt kann að vera óheppilegt, en ef menn gera ráð fyrir því, að sú leið verði farin, þá get ég skilið, að hv. þm. Dal. fáist til að styðja þessa till., en hækkun fasteignamatsins hlýtur að vera næsta svar þeirra, sem eitthvað eiga, ef þessi till. allshn. nær fram að ganga.

Um önnur atriði, þá vildi ég spyrja n., hvort hún vilji ekki endurskoða það ákvæði 6. gr., þar sem segir, að sveitarstjórn sé skylt að segja til innan fjögurra vikna, hvort hún vilji nota forkaupsréttinn. Þykir ekki hv. n. þessi frestur nokkuð langur, þegar seljandi verður að bíða í 4 vikur eftir því að fá að vita, hvort sveitarstjórn þóknist að kaupa eign hans. Er þetta ákvæði eðlilegt, með þeim hraða, sem nú er yfirleitt á viðskiptum? Væri ekki réttara að hafa frestinn aðeins 7–8 daga? Þá er það einkennilegt í 8. gr., að farið er inn á þá nýju braut, að sveitarfélögum er bannað að selja lóðir og lönd, sem þau eiga eða kunna að eignast, án sérstakrar lagaheimildar. Mér skilst, að til þess að svo megi verða, þurfi sérstök lög frá Alþ. Ja, hvað þá um Kaldaðarnes og fleiri eignir hins opinbera, ef banna á sveitarfélögum að selja lönd og lóðir án sérstakrar lagaheimildar? — Í 24. gr. segir, að vilji eigandi byggingarsvæðis heldur selja landið eða hluta af því en leigja, þá skuli sveitarsjóður skyldur að kaupa það ásamt þeim mannvirkjum, er á því eru og landseigandi vill selja með landinu. Ég veit nú ekki, hvort það er alltaf heppilegt fyrir sveitarfélag að vera þvingað til slíkra kaupa. Þetta held ég að ætti fremur að vera samningsatriði. — Í 25. gr. segir, að skylt sé lóðarleigjanda að hefja byggingu á lóð innan árs frá því lóðarleyfi er veitt og hafa lokið henni innan tveggja ára frá því er hún hófst, ella fellur niður réttur hans til lóðarinnar. Þetta finnst mér dálítið athugavert, þegar við minnumst leikhússins, sem verið hefur í smíðum í ein 14 ár og sjómannaskólans, sem verið hefur í smíðum í 4–5 ár og er ekki enn lokið og er á leigulóð, en einkum er þetta þó athugavert, þegar við erum svo staddir, að hraði framkvæmda er bundinn af alls konar nefndum og ráðum og kannske þarf að bíða eftir leyfum jafnlangan tíma og byggingarfresturinn er samkv. greininni. Þetta vildi ég biðja n. að athuga. — Þá segir enn fremur í 25 gr., að framleiga á lóðum eða hvers konar ráðstöfun á þeim til þriðja manns sé óheimil nema í sambandi við sölu húsa eða meiri háttar mannvirkja, sem á lóðinni standa. Nú er það kunnugt, að svo er ástatt í dag, að ríkið getur átt lóðir, sem það hefur leigt til lengri tíma fyrir ákveðið verð, en getur ekki fengið aftur, þótt á liggi, nema á allt öðru og hærra verði. Hvað er gert í þessu frv. til þess að stöðva þetta, eins og fyrir kom á Skagaströnd, þar sem ríkið varð að kaupa leiguréttindin á sínu eigin landi fyrir of fjár? Sama kom fyrir á Þórshöfn og hefur raunar komið fyrir síðan. Ég sé ekki neitt ákvæði í þessu frv. til að fyrirbyggja þennan svarta markað, og held ég, að það væri þó nær en að ganga svo nærri eignarrétti manna sem gert er. Mér finnst, að inn í þetta frv. ætti að setja ákvæði, þar sem bannað er að selja lóðarréttindin, og sé ég ekki, að það ætti að vera erfiðleikum bundið. — Þá stendur það í 26. gr., að ársleigan eftir byggingarlóðir skuli vera 5% af fasteignamati þeirra. Ef matið hækkar, þá hlýtur það að leiða af sér jafnmikið hækkaða leigu, og þess vegna gæti farið svo, ef þessi gr. yrði samþ., en hækkað fasteignamatið, sem væri eðlileg afleiðing þessara laga, eins og ég hef bent á, að lóðaleigan stórhækkaði í verði. Ég veit auðvitað ekki, hvort það verður gert, en ef svo færi, þá er þetta ljóst. Ég er einn af þeim, sem tel, að það opinbera eigi að eiga slíkar lóðir og taka þær þá eignarnámi, áður en þær hækkuðu stórlega í verði fyrir bein afskipti hins opinbera. Ég vann að því, að þetta skilyrði væri sett fyrir landshöfninni í Njarðvík, að ekki væri byrjað á framkvæmdum, fyrr en landið væri fengið með hagstæðum kjörum. Ég held nú raunar, að ráðh. sá, sem þá fór með þau mál, hafi farið dálítið út fyrir þau takmörk og keypt landið áður en gengið var til fulls frá þessu atriði. Enginn greinarmunur er gerður á því hér, hvort lönd hækka í verði fyrir aðgerðir eigenda þeirra eða fyrir afskipti hins opinbera, og ætti þá fleira að falla hér undir, því að vegir, hafnir og bryggjur auka stórlega verðmæti landsins í kring. En ef á að fara inn á þessa braut, þá er bezt að gera það alls staðar, að skattleggja það, ef land hækkar þannig í verði. En enginn skattur er tekinn af mönnum, sem fá hafnir, vegi, síma o. s. frv. í sitt land. Bændum, þar sem vegur er lagður gegnum túnið, eru jafnvel oft greiddar bætur, enda þótt landið hækki miklu meira fyrir það, að vegurinn er lagður í gegnum það, en sem svarar því tjóni, er bóndinn verður fyrir við túnspjöllin.

Ég mun svo láta þessar athugasemdir nægja að sinni. Ég er á móti till. á þskj. 487, en geri að svo stöddu engar brtt. og vænti þess, að n. athugi nú það, sem ég hef bent henni á, ef hún hefur ekki þegar gert það.