07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (3709)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það eru aðeins fá orð. Ég þarf ekki að svara því miklu, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði. Hann talaði sem fulltrúi hins skefjalausa kapítalisma, er ekki vill setja eignarréttinum nein takmörk, og taldi, að með þessu væru menn sviptir umráðaréttinum yfir eignum sínum. Þetta er náttúrlega alger misskilningur. Hér er ekki um önnur takmörk að ræða en þau, sem felast í öllum skattal., og ákvæði frv. eru sambærileg við önnur ákvæði í l., t. d. um bílaskattinn. Þessi skattur er ekki sérstaklega hár, og borinn saman við þær till., sem mþn. lagði fram, er hann lágur. Skattur á eignaaukningu án eigin tilverknaðar gegnir líka allt öðru máli, en skattur á aðrar eignir. — Hv. þm. Barð. benti á tilfelli, þar sem eignin hækkaði í verði vegna aðgerða eigandans sjálfs. Eins og hv. þm. Str. sagði, er þetta undantekning, og það veit hv. þm. Barð. líka. Það er yfirleitt hæpið að telja, að lönd eða lóðir hækki í verði vegna aðgerða eigendanna sjálfra, heldur eru það félagslegar aðstæður, sem hækkuninni valda. Ég veit ekki, hvort þm. telja það sanngjarnt, að menn fái ofsagróða af þeirri tilviljun, að þeir eru eigendur lands, sem hækkar í verði án þeirra tilverknaðar. Ein af höfuðorsökum dýrtíðarinnar er verðhækkunin á löndum og lóðum, sem hvílir þungt á bæjarfélögunum. Það situr því sízt á þeim, sem ætíð tala um dýrtíð og verðbólgu, að snúast gegn þessu frv. Hv. þm. Barð. hélt því fram, að hér væri verið að fara kringum stjskr. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég áleit ekki, að frv., eins og það kom frá mþn., bryti í bág við stjskr., þó að stj. felldi burt úr því ákvæði, vegna þess að einhverjir lögfræðingar hennar töldu svo vera. Hitt er víst, að það er nú í fullu samræmi við stjskr. eins og önnur skattal. Tilvitnanir í stjskr. eru því algerlega út í bláinn. Hvað aðrar athugasemdir snertir, þá er fjarri því, að ég álíti frv. gallalaust. Ég er sammála hv. 2. þm. Árn. um það, að þörf verði á endurskoðun, en ég álit þær athugasemdir, sem fram hafa komið, ekki stórvægilegar. Það kann að vera, að ákvæðin í 25. gr. séu of þröng, en ég vil benda á, að það má framlengja þessa fresti. Stærsta atriðið, sem komið hefur fram, er, að bannað verði að selja lóðarréttindi. Það er sjálfsagt að taka það til athugunar í n., og ég vænti þess, að hv. þm. Barð. beri fram brtt. í þessa átt, sem n. getur þá athugað. Ef hann fer að venju sinni, býst ég við, að hann verði ólatur að semja brtt. Hv. þm. segist vera þeirrar skoðunar, að bæjarfélögin eigi að vera eigendur lóða og landa, og þá ætti hann að vera með því, að gerðar séu ráðstafanir til þess að bæjarfélögin geti eignazt þau án okurverðs.