07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (3710)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér skildist á ræðu hv. þm. Str., að hann væri mér sammála um það, að þurft hefði að laga höfuðgalla frv. og koma í veg fyrir, að menn gætu framselt leiguréttinn. En n. kemur ekki inn á það, sem mestu máli skiptir, að hvorki bær né ríki þurfi að kaupa leigurétt á eigin landi fyrir okurfé. Ég er hissa á því, að hv. frsm. ræddi þetta ekki meira. Þó að ríkið sé eigandi að landi, getur reynzt svo, að löndin hafi stórkostlega hækkað í verði, eins og í Höfðakaupstað, svo að ríkið verði að kaupa rétt á eigin landi fyrir okurverð. Í brtt. n. er talað um sölu á landi, ekki réttindum, og ég tel, að þessu þurfi að breyta. Hv. þm. Str. sagði, að lóðaverðið hefði mikil áhrif á líf manna. Ég neita því ekki og tel því eðlilegt, að bæjarfélögin eigi lóðirnar og fái þær með góðum kjörum, en það verður ekki gert með þessu frv. Lóðaverðið lækkar ekkert, þó að till. n. verði samþ. Auk hækkunar fasteignamatsins er þar um ekkert annað að ræða, en nýjar tekjur fyrir bæjarfélögin. Lóðaverðið lækkar ekkert, nema greiða eigi það niður eins og kjötið. Það er krækt í ákveðinn hluta söluverðsins, sem rennur í sveitarsjóð til eyðslu, en ekki til lækkunar á húsaleigu eða lóðaverði.. Auk þess er lóðin sjálf í flestum tilfellum hluti af húseigninni. Ef ekki eru reistar skorður við því, að húseignin hækki að sama skapi, hvers virði eru þá þessi ákvæði? Þetta lá á bak við í fyrra, er fjallað var um jarðirnar. Og ég væni hv. þm. Dal. um það, að hann hafi hugsað sér að láta þetta ná lengra, en hann hafði þá önnur rök, sem sagt þau, að þetta ætti að stöðva flutningana úr sveitunum. Það voru einu rökin, sem hann hafði til að friða samvizku sína út af því að ganga svo nærri ákvæðum sjálfrar stjórnarskrárinnar.

Og hvernig er ástatt nú? Það er farið inn á þá braut að mynda nýja skattstofna, fyrst á jörðunum, síðan á lóðunum og svo loks á húsunum. Hv. þm. Str. hefur áður staðið að því að bera hér fram frv. um eignaraukaskatt. Það hefur svo verið tekið upp af núverandi ríkisstj., og hún hefur komið því í gegn. En þá gekk hv. þm. Str. út og sagði, að sér hefði aldrei dottið í hug, að svo mörg fífl væru á þingi, að frv. næði samþykki. (PZ: Var það óbreytt þá?) Nei, það var heldur skárra. Eignaraukaskatturinn var miðaður þar við sexfalt fasteignamat. Og ég get skilið, að þeim, sem vilja taka allar eignir af öllum, líki þetta prýðilega, en um hina get ég ekki skilið þetta. — Hv. þm. Str. viðurkenndi, að því er mér skildist á honum, að rétt væri, að verðhækkun kæmi fyrir verk, sem menn ynnu sjálfir á stöðunum, og nefndi nærtækt dæmi frá Drangsnesi, og svo er víðar, hvort sem atvinnufyrirtækin eru sett upp af einstaklingum eða fjölda manns og lóðirnar verða þannig verðmeiri. Og það eru sannarlega sem betur fer mörg dæmi þess, að einstakir menn gangi þarna fram fyrir skjöldu í atvinnulífinu. Ég get nefnt Patreksfjörð til dæmis um slíkt framtak einstaks manns. Og ég verð að segja það, að það væri ekki nema eðlilegt, að sumt, sem þessir menn tapa, fengist aftur í hækkuðu verði á landeignum. Og úr því það á við um lóðir, þá sé ég ekki, hvers vegna ekki á að stiga sporið lengra, hvers vegna hið sama á þá ekki að gilda t. d. um húseignir. (HV: Vill hv. þm. þá ekki flytja um það brtt., að þær hækki líka?) Auðvitað væri réttast að stiga sporið fullt. (Forseti: Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?) Já, það er mjög margt, sem ég á eftir að segja þessum hv. þm. (Forseti: Ég verð þá að biðja hv. þm. að fresta ræðu sinni.) .