18.02.1949
Efri deild: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3737)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Þar sem mitt nafn hefur verið nefnt við þessar umr. og vegna þess að ég hef átt kost á að kynnast því ráðabruggi, sem hér kemur fram, þá vil ég segja um málið nokkur orð.

Ég vil taka það fram strax, að ég met viðleitni fjmrh. til sparnaðar mikils, þó að erfitt sé og vandasamt að finna, hvað sé hægt að spara og hvernig því verði við komið.

Upphaf þessa máls mun hafa verið það, að ráðh. skipaði nefnd 22. sept. 1947 til að gera till. um sparnað í rekstri hins opinbera. Þessi nefnd, sem í voru 5 menn, starfaði svo fram á útmánuði 1948, en í apríl skilaði hún áliti. Þessar till. hennar voru síðan athugaðar í rn., en í byrjun júní var ég beðinn af hæstv. forsrh. að taka þátt í athugun á þessum till. n. sem fulltrúi Alþfl., og var mér jafnframt tjáð, að hinir stjórnarflokkarnir hefðu nefnt sína menn til þessara athugana, Sjálfstfl. þm. Borgf. og Framsfl. 1. þm. N-M. Mér virðist nokkurs misskilnings hafa gætt um það, hvert hlutverk okkar þremenninganna var. Ég skildi það svo, að við ættum nánast að yfirfara þær till., sem n. hafði þá lagt fyrir ríkisstj. og voru í rauninni fullmótaðar. Afstaða mín og hv. þm. Borgf. mótaðist þannig af því, að hve miklu leyti við gætum fallizt á þær till., sem þegar voru gerðar. Það var tæplega hægt að kveða svo að orði, að við værum í hinni svokölluðu sparnaðarnefnd.

Þessi n. hélt nú nokkra fundi, þó ekki fyrr en komið var fram í ágústmánuð vegna fjarveru ýmissa nefndarmanna í júlí. Við nánari athugun voru af okkur, þessum 8 mönnum, gerðar ýmsar breytingar. Við athuganir sínar hafði 5 manna n. aðallega tekið fyrir tvo höfuðþætti, í fyrsta lagi nefndir á vegum ríkisins og í öðru lagi bílakostnað á vegum ríkisins. Ég hef nú ekki þær skýrslur við höndina, sem þá lágu fyrir, né þær breytingar, sem gerðar voru eftir að allir komu saman. En n. hafði í tilefni af sínum athugunum gert till. í frumvarpsformi, sem miðuðu að því sama og það frv., sem hér liggur fyrir. Og það frv. vil ég því sérstaklega taka til meðferðar. Samanburð á upphaflega frv. og þeim verulegu efnisbreytingum, sem á því voru gerðar, get ég því miður ekki gert hér, þar sem ég hef ekki gögnin í höndunum. (Fjmrh.: Má ég upplýsa, að n. hefur sjálf gengið frá þessu frv. eins og það liggur fyrir.) Já, eftir að hæstv. ráðh. hafa þrautrannsakað frv. og gert breytingar, sem n. hefur gert að sínum. — Það, sem mér þótti að frv., var þetta, að ég gat með engu móti fallizt á, að einum manni væri gefið svo víðtækt vald eins og til er ætlazt, alveg sama þótt hann eigi að heita ráðsmaður ríkisins. Ég hef lifað og vil lifa og deyja í þeirri trú, að ekki eigi að skapa neinum einstaklingi víðtæk einræðisvöld. Hins vegar skal ég fúslega viðurkenna það, sem ég hef áður látið í ljós, t. d. á fundum í nefndinni, að tilefni nokkurt sé til þess, að fram fari eftirlit í þessum efnum eftir einhverju þvílíku „principi“. En ég verð líka að segja það, að samkvæmt öllu eðli málanna eru skrifstofustjórarnir verkstjórar, hver á sinni skrifstofu, og ber að hafa eftirlit með sínum mönnum. Og ég leit svo á, að þar sem um einhvern veikleika væri að ræða í þessum efnum, þá væri það sérstaklega fjmrn., sem rétt væri, að léti sig það varða, og það var mín tillaga, að slíkt eftirlit væri látið heyra undir það. En það þótti ekki nægilegt.

Þá er annað atriði, sem lýtur að hinu starfandi fólki í þjónustu ríkisins og ríkisstofnananna, en það eru reglurnar um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í nefndinni voru allir sammála um, að nauðsynlegt væri að sjá, hvað í þessum reglum fælist, og skoða frv. einmitt í ljósi þeirra. Þetta mál hefur verið lengi — ég vil segja óheyrilega lengi á döfinni. Reglugerðin er ekki enn komin fram á sjónarsviðið, a. m. k. lá hún ekki fyrir, er ég í desember tjáði mínum flokki, að ég væri farinn úr n., og ástæðurnar fyrir því, — og ég hef ekki getað séð, að hún liggi fyrir enn. En við vorum í raun og veru sammála um það, að ef hægt væri að ganga frá slíkri löggjöf, þá mundi hún bæta úr mörgu, sem ábótavant er. Þá skal ekki dregin fjöður yfir það, að gagnvart alþjóð hlýtur till. að verka dálítið neikvætt. Einmitt þegar mikið er verið að tala um að draga úr alls konar opinberum kostnaði við embættisrekstur, þá á að fara að stofna nýtt og enn eitt embætti. Og enginn þarf að halda, að þetta verði neitt lítið starf, að fylgjast með starfi hins opinbera um allt land á skrifstofum sýslumanna t. d., iðjufyrirtækja, banka o. s. frv. Og það má kalla fyrir fram vitað, að enginn einn maður eða tveir mundu anna þessu, heldur mundi stofnun þessi geta orðið nokkuð stór áður en lyki. Við rennum alveg blint í sjóinn með, hvaða kostnað mundi af þessu leiða, eins og við rennum líka í rauninni blint í sjóinn með hvaða sparnað þetta hefði í för með sér. Hvort hann yrði nokkuð meiri en kostnaðurinn, er alveg úti á þekju fyrir okkur öllum.

Þá er enn það, sem veldur mjög miklum ugg í mínum huga, en það er þetta, að í fámennu þjóðfélagi eins og hér er, þar sem hver þekkir annan, verði mjög miklum erfiðleikum bundið að finna mann, sem gæti beitt sér í þessu starfi eins og nauðsyn kynni að bera til. Ætti hann að taka á öllu, sem aflaga kynni að fara, með festu, hvað mundi hann þá lengi þola að standa í þeim eldi, sem slíkt starf mætti verða honum? Mér virðist sem hér mundu verða ýmis ljón á vegi. Þetta mundi horfa öðruvísi við, ef eftirlits- og ábyrgðarskyldunni væri dreift yfir á hina ýmsu verkstjóra ríkisfyrirtækjanna.

Það hefur verið bent á, að þetta fyrirkomulag hafi verið reynt á Norðurlöndum. Það er rétt að vissu marki, og eru það Svíar, sem þar eru lengst komnir; en í framkvæmd er það hjá þeim með nokkuð öðrum hætti, en hér er gert ráð fyrir, því að þeir hafa sérstaka nefnd í þessu skyni, sem þingið kýs, og í henni eru þannig trúnaðarmenn löggjafarsamkundunnar.

Nú ætla ég ekki að ræða þann möguleika hér, að þessu verði breytt, það orð er, eins og nú standa sakir, nokkurs konar „sjóvíti“ að nefna. En bendi aðeins á, að þetta er með nokkuð öðrum hætti á Norðurlöndum. Annars er lítil raun komin á þetta í Noregi, og í Danmörku hefur enn ekki verið gengið til verks, og eftir því sem mér var tjáð um áramótin, þá eru þeir mjög hikandi í þessu efni. Hvort hér er um meiri sjúkleika að ræða en þar, eins og hæstv. fjmrh. gaf í skyn (Fjmrh.: Ég sagði þörf.), skal ég ekki um dæma. Og ég ætlaði mér ekki við þessa umr. að hafa mörg orð. Ég mun við síðari umr. taka endanlega afstöðu til þessa frv.

En áður en ég lýk máli mínu, langaði mig til að svara hv. 1. þm. N-M. Hann hefur nú víst reyndar yfirgefið þingsalinn. En hann var að hæla sér af þeim þætti, sem hann ætti í samræmingu þessa frv. Sannleikurinn er sá, að hann á ekki stafkrók í þessu frv. frekar en ég, þar sem nefndin var búin að semja það. — Þá var það hin fjarstæðan, að þetta eftirlit ætti að fela endurskoðendum ríkisreikninganna. Um það starf er ákveðið í 38. gr. stjskr. og skýrt fram tekið, hvaða störf þeir menn eigi að vinna. Og að ætlazt til þess, að þeir séu að snuðra á skrifstofum úti um allt land — ja, það er dæmi um það, hvaða fjarstæður geta komið út úr ekki ógreindum mönnum.

Ég skal svo að lokum segja það, að ég álít, að sú n., sem þetta fær til meðferðar, eigi að athuga mjög vel, hvort þessi leið eða önnur yrði kostameiri til að betrumbæta — ef ég má nota það orð — það, sem ábótavant kann að vera á þessu sviði um góða vinnuhætti. Það er enginn kominn til að segja það til dæmis, hvort þessi maður gæti orðið nokkur allsherjar dómari með fullkomnu réttlæti í hinum ýmsu málum. (Fjmrh.: Ef ágreiningur verður, á að skera úr.) Því hefur þá verið bætt inn í frv. En eins og ég sagði áðan, þá er svo vandfundinn maður í þetta embætti, að ég tel vafasamt, að það takist að finna slíkan mann. Og það verður verkefni fjhn. að athuga, hvort þetta eða annað fyrirkomulag verði að teljast heppilegra.