07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3743)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér til 1. umr., benti ég á þrjú atriði, sem ég óskaði eftir, að hv. fjhn. athugaði og hæstv. ráðh. sömuleiðis. En frá þessum aðilum hefur ekkert heyrzt um þau atriði. Þegar þetta mál var til athugunar í sparnaðarnefndinni í sumar, gerði ég þá athugasemd, að ég vildi, að jafnframt yrðu afgreidd lög um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna, en slík l. hafði hv. þm. Snæf. tekið að sér að semja fyrir nokkrum árum, og þegar launalögin voru til umr., lofaði þáv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, að setja nefnd í það mál og í sumar var sagt, að bráðlega mundi lagafrv. frá hv. þm. Snæf. tilbúið. Í sumar, þegar þessi mál voru til athugunar, vildi ég láta fella inn í þetta frv. kafla um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna, ef ekki yrðu sett þar um sérstök lög. Hafði ríkisstj. rekið á eftir þeim og sparnaðarnefnd ítrekað að fá frv. fram, en alltaf var sama svarið, að þm. Snæf. væri rétt að verða búinn með frv., en frv. er ekki komið enn. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvernig málið standi nú, því að það er ekki lítið sparnaðaratriði, hvað vinnutími opinberra starfsmanna er langur. T. d. varð að bæta við mörgum tugum nýrra starfsmanna, þegar vinnutíminn var styttur í tíð fyrrv. ríkisstj. eftir reglugerð Péturs sál. Magnússonar, og gefur að skilja, að með því að lengja vinnutímann aftur má spara mikið starfsmannahald. Ég spyr því enn að því, hvað þessu máli líði, og ef ekkert nýtt kemur fram, mun ég beita mér fyrir því að setja ákvæði um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, a. m. k. hvað vinnutíma snertir, inn í þetta frv. En hv. n. hefur ekkert látið til sín heyra um þetta.

Annað, sem ég benti á við 1. umr. og bað hv. n. að athuga, var það, hvort réttara mundi að hafa sérstakan ráðsmann, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, eða að víkka starfssvið hinna þingkjörnu endurskoðenda ríkisreikninganna og láta þá hafa eftirlitið með hendi í stað þess að grúska í reikningum, sem aðeins hafa sögulega þýðingu, þegar þeir endurskoða margra ára gamla reikninga. Þessir endurskoðendur gætu fylgzt með starfi og rekstri hinna opinberu stofnana og tekið á sig það eftirlit, sem ráðsmanninum er ætlað, og gætu þá ýtt svo á eftir ríkisreikningnum, að hann gæti legið fyrir endurskoðaður skömmu eftir áramót, í stað þess að nú eru þeir að endurskoða reikninginn frá 1946, eða ég veit ekki hvað gamlan reikning. Hvort n. hefur athugað þetta, veit ég ekki. Hún hefur ekkert um það sagt. En ég vil ítreka það, að hún athugi þetta, enda þótt ég leggi engan dóm á, hvort réttara sé, og muni verða með frv. hvort sem er, en ég heyri talað um það, að mönnum þyki vald það, sem ráðsmanninum er ætlað, allmikið, og eru margir hræddir um að fá það einum manni, og þá er rétt að athuga, hvort þeir, sem endurskoða ríkisreikningana, geta ekki gert þetta, svo að þeir geri annað en grúska í gömlum fornskjölum. (SÁÓ: Til þess þarf að breyta stjórnarskránni.) Það má auka starf þeirra án þess.

Það þriðja, sem ég benti á við 1. umr., var það, að þar sem svo mikið er í húfi, hvernig ráðsmaðurinn reynist, þá teldi ég, að það ætti fyrst í stað að setja hann, en ekki skipa. Til þess þarf ekki að breyta 2. gr., ef ráðh. vill lýsa því yfir, að hann telji það svo mikilvægt, að góður maður fáist til starfsins, að hann vilji fyrst setja hann til reynslu, en ekki skipa hann. Ef ráðh. vill lýsa þessu yfir, þá má 2. gr. vera óbreytt. Menn vita aldrei fyrir fram, hvernig embættismaður þessi muni reynast, og því vil ég láta reyna hann, áður en hann er festur í embættinu. N. hefur heldur ekkert sagt um þetta atriði, og vildi ég gjarna heyra hjá n., hvort hún hefur rætt athugasemdir mínar, og ef svo er, hvernig henni hefur litizt á þær, og eins vildi ég heyra hjá hæstv. ráðh., hvenær vænta megi frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Eins og ég sagði, hefur Gunnar Thoroddsen unnið að því í 3–4 ár og fer væntanlega að verða búinn, og eins vildi ég heyra, hvort ráðh. sér sér ekki fært að setja ráðsmanninn, en skipa ekki þegar í stað í embættið mann, sem enginn veit, hvernig muni reynast.