07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3746)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki rétt af mér að orðlengja mjög um þetta frekar, ef hægt væri að koma málinu áfram fyrir kl. 4. En ég get ekki látið hjá líða að víkja að ræðu hv. þm. Str. og þeim ákaflega örlagaþrungnu fyrirspurnum, sem hann beindi til mín. Þessi hv. þm. veit það ósköp vel, að það er ekki gert að gamni sínu, að fjárl. eru ekki komin lengra en þau eru komin, en honum finnst öruggast að koma þessu öllu á mitt bak. Ég er alls ekki sannfærður um það af ræðu hv. þm. Str., að þetta frv. sé óþarft, og ég vísa því á bug, að það sé aðeins flutt til að sýnast. Ég skil vel, eftir að hafa hlustað á ræðu hans, með hvaða hugarfari hv. þm. gengur að þessu máli. Það, sem mest vakir fyrir honum, er það, hve pólitískur blær sé á þessu, og hann talar um, að málið sé flutt rétt fyrir kosningar og bara til að sýnast. Það getur vel verið, að kosningar séu nálægt, en það er fjarri því, að málið sé flutt til að sýnast. Mér var það vel ljóst, að það var hægt að afflytja þetta mál á ýmsan hátt, eins og hv. þm. Str. gerði mjög tilraun til. Það er ekki á valdi fjmrh., og ég endurtek það, að hafa það ákveðna eftirlit með stofnunum ríkisins, sem ætlazt er til með þessu frv. Hv. þm. Str. sagði, að fjmrh. landsins hefði alltaf haft þetta vald. (HermJ: Ég vildi gjarna spyrja um, hvaða vald það er, sem ráðsmaður ríkisins á að hafa eftir þessu frv., sem fjmrh. hefur ekki?) Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að þegar ný stofnun er sett á laggirnar, þá er enginn lagastafur til, sem ákveði um það, hvað margir menn skuli teknir í hina nýju stofnun. Það er t. d. fjárhagsráð með sína 94 undirmenn. Það hefur engin ráðning, sem þar hefur verið gerð, verið borin undir fjmrh., en hv. þm. Str. er einn af þeim mönnum, sem hafa lagt þar línurnar, og hann settist fyrstur manna þar inn ásamt þeim öðrum, er þar voru. Sama má segja um ýmsar fleiri stofnanir, sem með núverandi fyrirkomulagi liggja beinlínis fyrir utan þau endamörk, sem fjmrn. getur haft bein áhrif á. Ég endurtek það, að þeir 94 menn, sem eru á launum hjá fjárhagsráði, þeir eru ekki ráðnir í samráði við fjmrn., en þeir eru ráðnir í samráði við hv. þm. Str. Og sé þetta ástand, sem hv. þm. hefur nú lýst, svo ægilegt sem hann vill vera láta, hve miklu meiri þörf er þá ekki á því að gera það, sem hægt er, til þess að ráða bót á því? Hv. þm. Str. benti að vísu á eitt gott ráð við þessu, að hans dómi, að skipta um fjmrh. Það getur vel verið, að það mundi eitthvað hjálpa, en það dygði ekki hvað þetta snertir. Stofnanirnar skoða sig hafa og hafa í framkvæmdinni sitt eigið vald og fara með það eins og þeim sýnist. Þetta hefur viðgengizt svona og er ekkert nýtt hjá þessari þjóð.

Þá sagði hv. þm. Str., að þetta væri allt nýtilkomið. Það væri kannske þörf á þessu eftirliti nú út af því ástandi, sem hefði skapazt í stjórnartíð hins afskiptalausa og ónýta fjmrh., en þetta hefði allt verið í prýðilegu lagi áður. Það eru ekki nema um 2 ár að ræða, sem núverandi fjmrh. hefur verið í þessu starfi, og það mátti leggja þann skilning í orð hv. þm., að allt hefði farið úr skorðum í hans tíð. En nú vil ég spyrja, hvað komið hafi til þess, að þann 3. marz 1945 samþ. Sþ. þáltill., sem rann undan rifjum fjvn., að ég held með vissu, um að athuga starfskerfi og rekstrarútgjöld ríkisins, og þar var m. a. lögð áherzla á, með leyfi hæstv. forseta: „að komið verði á raunhæfu allsherjar eftirliti með vinnutilhögun og vinnubrögðum á skrifstofum ríkisins og stofnunum þess, enda verði eftirliti þessu einnig beint að því að meta og gera till. um starfsmannaþörf í hverri skrifstofu eða stofnun.“ Það er svo að sjá, að hið háa Alþ. á því herrans ári 1945 hafi ekki verið búið að koma auga á þetta prýðilega lag, sem var á öllum þessum málum að dómi hv. þm. Str. Undanfarið höfðu þá verið mörg og löng stjórnarár þessa hv. þm., en samt sem áður er Alþ. svona blindað að hans dómi, að það samþ. að koma á raunhæfu eftirliti í þessum efnum. Hvers vegna er Alþ. að komast þannig að orði, fyrst allt var í prýðilegu lagi? (HermJ: Ég sagði nokkur seinustu árin.) Hv. þm. getur dregið í land og á að gera það. Hann fór hér með fullyrðingu, sem brýtur í bága við, ekki mín orð, heldur samþ. yfirlýsingu Alþ. Þetta er þannig lagað, að hér er um gamalt mein að ræða. Það var ekki og hefur ekki verið um langt skeið þetta prýðilega lag á mannaráðningum, vinnubrögðum, fjáreyðslu og öðru í opinberum stofnunum, sem hv. þm. Str. var að láta skína í og fullyrti, að hefði verið. Hann er þar í beinni mótsögn við yfirlýst orð Alþ., hvers meðlimur hann var á þeim tíma.

Þá sagði hv. þm. Str. það, út af þeirri heimild í fjárl. síðustu, þar sem það er lagt í vald fjmrh. að hafa hönd í bagga með að úrskurða nýjar mannaráðningar o. s. frv., — sem var, eins og ég sagði áðan, bráðabirgðaúrlausn, sem átti aðeins að gilda þangað til önnur skipan og betri yrði á þessum málum gerð —, að ég hefði ekkert gert í þessu. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Str. hafi kastað þessu fram eins og öðru án þess að kynna sér málið. Ég skal játa það, að það hefur ekki verið unnið neitt þrekvirki á þessum stutta tíma, sem liðinn er síðan þessi samþykkt var gerð. Það hafa á þeim tíma ekki verið bornar svo margar nýjar mannaráðningar undir mig, en þær hafa verið þó nokkrar. Og þó að ég hafi ekki að öllu leyti skellt skolleyrum við framtaldri þörf forstöðumanna ráðuneyta og ríkisstofnana fyrir nýjar mannaráðningar, þá hefur slíkt í mörgum tilfellum verið skorið niður á þessum tíma samkv. þessari heimild, svo að það er heldur ekki rétt hjá hv. þm. Str., að ekkert hafi verið gert samkv. þessari heimild. Það hefur verið svo, og ég veit, að hv. þm. Str. er alveg jafnvel kunnugt um það og mér, þó að hann hafi aldrei beinlínis setið í fjmrh.-sæti, og það er viðurkennt af öllum, sem vilja skilja og sjá, hvernig ríkiskerfið starfar, að það er ekki á valdi fjmrh. að fylgjast með öllum þeim breytingum og öllu því, sem gert er í ríkisstofnunum. Hann fær í flestum tilfellum að vita um eyðsluna, þegar hún hefur farið fram. Það kemur náttúrlega fyrir, að maður getur áttað sig á þessu. Í einstöku tilfellum er hægt að stöðva þessar greiðslur, eins og t. d. þegar krafið er um leigu á jarðhúsum, sem aldrei hefur verið samþ. að taka á leigu, hvorki af ríkisstj.Alþ., og eins t. d. að því er snertir hið mikla mál, sem lengi dvaldi fyrir umr. í Sþ. En allur venjulegur rekstur fer fram undir yfirumsjón þeirra forstjóra, sem standa fyrir deildunum, og fjmrh. hefur ekki nema mjög takmarkað tækifæri til að fylgjast með öllu, sem þar gerist. Ég skal ekki fjölyrða um þetta að sinni, nema ég þurfi að svara einhverju sérstöku. Ég ætla, að ég hafi hrakið með innsigli sjálfs Alþ. þá fullyrðingu hv. þm. Str., að allt hafi verið í prýðilegu lagi, þangað til ég kom í fjmrn. eða þangað til fyrir fáum árum síðan, því að þá hefði samþykkt sú, sem ég las upp, verið áþörf. Það virðist ekki hafa verið álit Alþ. snemma á árinu 1945, að allt hafi verið í prýðilegu lagi.