07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3747)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leiðrétta misskilning, sem kom fram hjá hv. þm. Str. um, að ég væri hissa á því, að hann greiddi atkv. á móti stjfrv. Mér hefur fundizt það yfirleitt, síðan þessi ríkisstj. var mynduð, sem nú situr, að hv. þm. Str. hafi greitt atkv. móti flestum málum, sem frá henni hafa komið. Þegar um slík mál er að ræða, þá annaðhvort gengur hann út, situr hjá eða greiðir atkv. á móti þeim. Ég sagðist hins vegar undrast það, að hv. þm. Str. vildi ekki leggja máli þessu lið eftir að hafa dag eftir dag sagt í blaði sínu, að gera verði sterkar kröfur um sparnað á ríkisrekstrinum. Ég er hins vegar sammála hv. þm. Str. um það, en á móti hæstv. ráðh., að ég tel, að fjmrh. hafi vald til þess að skipa í þetta embætti án þess að fá þessi l. samþ. En ef við erum sammála um þetta, hv. þm. Str. og ég, hvers vegna velur hann þá ekki þá aðferð um afgreiðslu málsins að gefa út nál. og setja þar fram þessa skoðun sína og leggja til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá þess efnis, að fjmrh. hafi þessa heimild í l., og í því trausti, að hann beiti henni. Hv. þm. Str. gerir þetta ekki, af því að hann nennir ekki að hugsa um málið. Hann nennir ekki að taka þátt í afgreiðslu þessa máls fremur en annarra mála. Ég tel hins vegar, úr því að þetta mál er komið fram hér, sem ef til vill er vegna þess, að ráðh. vill einmitt fá heimild til að eyða því fé, sem nauðsynlegt er til þess að setja þessa stofnun á laggirnar, þá sé það rangt að fella málið. Ég tel, að með því sé það undirstrikað, að þetta skuli ekki gert. Og þess vegna vil ég m. a. alls ekki vera með því að fella málið, þó að ég fyrir mína parta álíti, að fjmrh. hafi fulla heimild til að setja mann í þetta embætti. Skal ég nú koma nokkuð nánar inn á þetta atriði. Ég fæ ekki skilið, að fjmrh. geti ekki beitt sínu valdi til þess að framkvæma hvert einasta atriði, sem er í þessu frv., ef hann hefur tíma til að gera það sem fjmrh. Ég er viss um það, að ef fjmrh. hefði ekki öðrum embættum að gegna, þá hefði hann beitt sér fyrir mörgu af þessu, sem hann nú beitir sér fyrir í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir. En hann hefur, eins og kunnugt er, mörgum öðrum málum að sinna, m. a. sjávarútvegsmálunum. Ég sé þess vegna ekki, að hér þurfi neina lagabreyt. til að framkvæma það eftirlit, sem hér um ræðir. Ég tel, að fjmrh. gæti hvenær sem væri sagt við skrifstofustjóra sinn: Þessar upplýsingar vantar mig úr þessari stofnun, þetta óska ég eftir, að verði gert, og þessu efni þarf að safna saman, til þess að ég geti lagt fram mínar till. Hitt er svo allt annað atriði og ekkert óeðlilegt, að hann leiti eftir heimild Alþ. til fjárútláta til að stofna þetta embætti og til annars kostnaðar, sem í kringum það kann að verða.

Í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. talaði um fjárhagsráð, þá vil ég segja það, að ég er þar líka á annarri skoðun en hann. Þegar fjárl. síðustu voru afgr., voru áætlaðar af Alþ., alveg mótatkvæðalaust af ríkisstj., 2 millj. kr. til fjárhagsráðs, til rekstrar þess. En hverju hefur fjárhagsráð eytt? Það hefur eytt, alveg óleyfilega, 1½ millj. kr. fram yfir þessa upphæð. Það er einmitt þetta, sem er þörf á að laga í okkar fjármálakerfi, eins og það er byggt upp nú. Þetta er þannig nú, að við höfum 6 ráðh., hvar af 5 gera kröfur til fjmrh. ásamt þeim stofnunum, sem undir þeirra stjórn eru. Þeir geta oft á tíðum ekki komið sér saman um, hve mikið fé þarf að fara til hverrar ráðstöfunar út af fyrir sig. Fjmrh. segir: „Ég get ekki látið þetta fé.“ Það, sem mér finnst, að fyrst þyrfti að gera, er þetta, að þegar fjárl. eru afgr., þá eigi hver ráðh. að setja sér það markmið að krefjast alveg nákvæmlega þess fjár fyrir sitt rn., sem hann þarf til að reka sómasamlega starf sitt. Ef hann ekki fær það fé, þá á hann um það að velja, hvort hann vill sitja áfram eða fara frá. Fái hann þetta fé og samþ. þá upphæð, þá á hann að fara frá, ef hann eyðir einni krónu meira en áætlað hefur verið, nema alveg sérstök ástæða sé fyrir hendi, sem fjmrh. samþ.

Það liggur hér fyrir nú frv. til aukafjárl., þar sem eytt hefur verið 33 millj. kr. meira í rekstrarútgjöld en heimilað var í fjárl. Þessu hefur ekki verið eytt í fjmrn., heldur öllum rn. (HermJ: Er nú þm. á móti stj.?) Ég get talað um mál, án þess að blanda inn í þau pólitík, þó að hv. þm. Str. geti það ekki. Ég álít, að fyrst þurfi að kippa því í lag, að hver ráðh. sé ábyrgur fyrir sínum gerðum, en að þeir komi ekki eingöngu og oft eftir á til þess að krefjast þess, að þeim séu greiddar upphæðir, sem aldrei hafa verið heimilaðar á fjárl., engin þörf er fyrir og engin sanngirni að krefja, en ekki er hægt annað en að greiða, vegna þess að búið er að gera ráðstafanir til þess. Frv. breytir náttúrlega engu um þetta, þó að það verði samþ.

Mér skilst það nú á hæstv. fjmrh., að hann ætli þessum manni miklu víðtækara starf, en mér hefur skilizt áður. Mér skilst, að hann ætli honum að setjast inn í sérhverja stofnun til þess að starfa þar með forstjóranum í eina eða tvær vikur og umskipuleggja stofnunina og þær starfsaðferðir, sem þar eru hafðar. Sé þetta hugsað svona, hlýtur að stefna að smámunasemi, og málið er stærra en svo, að einn maður og þó að fleiri væru kæmust yfir það. Það, sem fyrst og fremst þarf að gera hér, er að safna saman þeim millj. kr. af greiðslum úr ríkissjóði, sem oft er ráðstafað án þess að viðkomandi ráðh. viti, til þess að sýna fram á, hversu óheilbrigt fjársukkið er í þessum málum, og taka svo upp strangar reglur, svo að þessu hætti. Slíkur maður sem að þessu ynni verður vissulega að starfa með fjmrh. sjálfum. Þá yrðu ekki greiddar 60 þús. kr. fyrir lélega unnin nefndarstörf og þar af góð fúlga til embættismanns á hans eigin skrifstofu, þar sem hann sjálfur hefur unnið þetta verk. Og þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. Það er áreiðanlegt, að séu settir menn í að safna saman og finna út, hve óhemju miklu fé er eytt í svona sukk, þá kemur sá kostnaður, sem hér er stofnað til, margfaldur til baka í staðinn. Ég er alveg á móti því, ef það er tilgangur frv., að slíkur maður sem þessi eigi að vera einhver lögregluþjónn eða eftirlitsmaður með hverri einustu stofnun landsins, t. d. spítulum, síldarverksmiðjum og öðrum opinberum stofnunum. Ég álit, að enginn árangur mundi nást með því.

Hæstv. fjmrh. minntist á það, að hann hefði ekki vald til að taka fram fyrir hendurnar á innkaupastofnuninni. Þar er ég ósammála hæstv. fjmrh. Innkaupastofnunin hefur ekki vald til þess að eyða einni krónu meira en Alþ. hefur samþ., að hún skuli fá. Hins vegar er þess ekki að vænta, að nokkur forstjóri mundi beygja sig fyrir því, hvort sem það væri ráðh. eða ráðsmaður, sem færi að skipta sér af því, hvort hann réði eina eða aðra stúlku á skrifstofu sína, ef hann héldi sig innan þeirra takmarka í fjáreyðslu, sem honum eru sett af Alþ. Það er þetta, sem þarf að marka stefnuna fyrst og fremst: Að hver stofnun og hvert ráðuneyti fari ekki út fyrir þau takmörk, sem þeim eru sett með fjárframlögum Alþ. Þó að hæstv. fjmrh. hafi verið í vafa um, að hann hefði þessa heimild fyrir, sem farið er fram á í frv., þá tel ég, að hann hefði getað fullvissað sig um réttmæti hennar m. a. af þeirri ályktun, sem hann las hér upp. Hún fyrirskipar alveg, að inn á þessa braut skuli farið, og ég hef því ekki skilið þetta frv. á annan hátt en að hæstv. fjmrh. óski eftir að fá samþykki Alþ. til þess að fá það fé, sem þarf til að standa straum af þessari starfsemi. Hæstv. ráðh. óskar eftir að fá helmild til að nota féð. Það er ekki óeðlilegt. Væri rétt, að hv. þm. Str. samþykkti þetta með mér. Um það atriði, sem hv. þm. Str. gat áðan, að væri embætti veitt án lagaheimildar, þá væri eigi skylt að standa við það, vildi ég segja þetta: Hann hefur hent sú ógæfa, a. m. k. einu sinni. Ætti hann að þekkja þessi mál, enda viðurkenndi hann það, að hæstv. ríkisstj. hafi eigi staðið við og eigi verið skylt að standa við gerðir þáverandi hæstv. dómsmrh., því að hann hefði skort lagaheimild. Eins er það talið skylt að standa við gerðir ráðh., ef hann hafi haft heimild til þeirra. (HermJ: Búast mátti við, að hann rækti starf sitt.) Þetta raskar eigi því atriði, að hv. þm. Str. hafði enga stoð í l. til þessa. En sé hægt að fá góðan mann, á að trúa honum frá upphafi til að rækja starf sitt. Ég hefði ekki á móti því að setja þjóðleikhússtjóra í staðinn fyrir að skipa hann. Reynslan hefur sýnt, að eigi hefur ætið gefizt vel að skipa menn undireins. Þjóðinni er ekki kunnugt um, að þjóðleikhússtjóri hafi lagt stund á leikhússtjórn. Það liggur grafið. Hefði Framsfl. því átt að athuga betur, hvort hann hefði hæfileika til starfsins. En það hefði ekki átt að skipa hann, fyrr en reynslan skæri úr um þetta. Hitt er nauðsynlegt að vanda valið frá upphafi.

Ég er fylgjandi þessu frv., úr því að það er komið fram. Einnig er ég fylgjandi því, að hæstv. ráðh. afli sér þeirrar heimildar, sem á að spara ríkissjóði peninga.