08.03.1949
Efri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (3750)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt athugasemd. — Það hafa nú orðið hér langar umr. um þetta mál, en ég hef raunverulega fáu að svara. Við hv. þm. Barð. erum eiginlega sammála um það, að ekki þurfi löggjöf um atriðið, en við drögum af því ólíkar ályktanir. Hann virðist telja rétt að samþ. löggjöfina, af því að hún feli í sér heimild til fjárveitingar, sem ekki sé fyrir hendi, en þá heimild mætti einfaldlega taka upp í fjárlögin.

Hv. þm. bar mér á brýn aðgerðaleysi hér á þingi almennt. Það er alveg rétt, að ég hef ekki mikið aðhafzt í nokkur ár, og ég harma það ekki, að ég hef líklega átt allra þingmanna minnstan þátt í þeim aðgerðum, sem óumflýjanlega ber allar að sama brunni. Mér hefur verið ómögulegt að vera stígvélafullur af dugnaði til að koma málum þjóðarinnar að því marki, sem stefnt hefur verið að og ekki er langt undan, ef ekki er að gert eða fram hjá því stýrt. Ég legg það óhikað undir dóm sögunnar, hvorir hljóti mildari dóm, þeir, sem hafa beitt sér með mestum bægslagangi fyrir þeirri þróun, eða hinir, sem ekki hafa getað hamlað á móti henni eins og þeir vildu og þá heldur kosið að hafast lítt að en vera með í þeim leik.

Varðandi þá embættisveitingu, sem hann minntist á, þá má sjálfsagt deila um það júridiskt séð. En ég get ekki varizt því að minna á að gefnu tilefni, að eftir þann, sem settur var í embættið á eftir, liggur aðeins eitt mál, og þekki ég engan dómara í landinu, sem minna liggur eftir.

Það, sem okkur hæstv. fjmrh. ber á milli, er það, hvort setja þurfi sérstaka löggjöf til að framkvæma það eftirlit með opinberum rekstri, sem við erum sammála um, að þurfi að koma á, og það hefði átt að vera komið á fyrir löngu. Ég álít, að ég hafi fært fram og það liggi ljóst fyrir sannanir fyrir því, að ekki er þörf löggjafar í þessu efni, og er þetta svo augljóst mál, að það er naumast þörf að ræða það. Það er ekki hægt að fá neinum manni meira vald í hendur, en ráðh. sjálfur hefur frá Alþ. Ráðh. sker endanlega úr og getur á hverjum tíma tekið fram fyrir hendur á hvaða ráðsmanni sem væri. Það er augljóst hverjum manni, sem lítur á þetta frv. hér, að allar þær upplýsingar, sem ráðsmaðurinn á að fá, getur ráðh. fengið frá öðrum embættismönnum, og skorist þeir undan að gefa ráðh. hverjar þær upplýsingar, sem hann vill fá hjá þeim, getur ráðh. vikið slíkum embættismönnum umsvifalaust úr embættum. Hvaða lögfræðingur sem væri mundi taka að sér slík mál fyrir ríkið gegn embættismönnum, er neituðu að gefa ráðh. umbeðnar upplýsingar, og vinna málin.

En fyrst farið hefur verið að deila við mig um lög og stjórnarhætti í landinu, þótt ég gæfi harla lítið tilefni til þess, þá þykir mér rétt að koma hér með fleiri sannanir fyrir því, að þessi löggjöf sé óþörf, þó að fleiri sannana en ég hef áður nefnt sé raunar ekki þörf.

Ég hef bent á, að á fjárlögum 1948 hefur ríkisstj. heimild til að ákveða, að fjölgun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana skuli vera háð samþykki fjmrh. Ég get nú ekki séð annað en hæstv. ráðh. hafi gleymt þessari helmild. Hann sagðist t. d. ekki hafa heimild til að ráða tölu og kjörum starfsmanna við hina nýju innkaupastofnun ríkisins. Honum er ekki aðeins heimilt heldur og skylt að hafa þar ráðin. Hinn nýi embættismaður, innkaupastjóri ríkisins, má ekki taka sér starfsmenn nema með leyfi ráðh. í samræmi við heimildina á fjárlögum fyrra árs, er ég nefndi áðan. Hæstv. fjmrh. hefur valdið í þessum efnum gersamlega í sínum höndum. Sama er að segja um vald hans yfir fjárhagsráði og mannahaldi þess, og þannig mætti halda áfram. Við vitum, að hér á Alþ. hafa verið sett lög um að sameina forstjóraembættin við áfengiseinkasöluna og tóbakseinkasöluna. En hvað skeður er forstjóri tóbakseinkasölunnar lætur af embætti. Voru þá þessi lög frá Alþ. um sameiningu þessara embætta látin koma til framkvæmda? Nei, alls ekki. Og hversu víða er ekki hægt að drepa niður fingri og koma þó alltaf ofan á sama atriðið? Og ef nefna þarf fleiri sannanir, vil ég minna hér á skýlausa yfirlýsingu Alþ., en það er till. til þál. um athugun á starfskerfi og rekstrarútgjöldum ríkisins frá sjálfri fjvn., og er hún svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar fara fram rækilega athugun og rannsókn á því, hvernig unnt væri að draga verulega úr rekstrargjöldum ríkisins og ríkisstofnana, og verði jafnframt leitað að leiðum til þess að gera þetta starfskerfi einfaldara og óbrotnara. Við rannsókn þessa og athugun skal m. a. lögð áherzla á þau atriði, er hér greinir.“ Síðan eru þessi atriði talin upp í 5 liðum: „1. Að sameina ríkisstofnanir, yfirstjórn þeirra og rekstur og enn fremur að athuga, hvort unnt væri að draga úr starfsemi þeirra eða jafnvel leggja þær niður að einhverju leyti.“ — Hefur þetta verið gert? Það eru 3 ár liðin síðan Alþ. samþ. þessa yfirlýsingu og gaf þessa heimild, en hvað hefur verið gert í samræmi við þetta? „2. Að tekin verði í notkun aukin tækni og hagkvæmari vinnubrögðum beitt við reksturinn, vélanotkun í skrifstofum og við önnur störf, eftir því sem við verður komið.“ — Hvernig eru nú þessi vinnubrögð þremur árum síðar? Hefur þetta verið athugað? „3. Að komið verði á raunhæfu allsherjareftirliti með vinnutilhögun og vinnubrögðum í skrifstofum ríkisins og stofnunum þess, enda verði eftirliti þessu einnig beint að því að meta og gera tillögur um starfsmannaþörf í hverri skrifstofu eða stofnun.“ — Þarf nú skýrari yfirlýsingu til að forða mér frá að tefja þetta mál með því að tína til fleiri og fleiri sannanir? Um leið og Alþ. samþ. þessa viljayfirlýsingu, ætlast það til, að ráðh. framkvæmi þessa fyrirskipun þess og vinni að eftirlitinu, og fær honum því um leið vald í hendur til þess. Ég sé ekki betur en að þessi 3. liður eða atriði, sem framkvæma á samkvæmt þáltill. frá 1945, sé samhljóða 1. gr. þessa frv. og að hún sé því óþörf, þar eð heimildin og beinlínis fyrirmæli í þessu efni eru þegar fyrir hendi og hafa verið síðan 1945. „4. Að komizt verði, eftir því sem frekast er unnt, hjá eftirvinnu í skrifstofum.“ — Það hefur kannske verið ári seinna, sem ráðh. gaf út reglugerð um eftirvinnu opinberra starfsmanna.

Fimmta atriðið, sem leggja skal áherzlu á samkvæmt þessari þál., er að innheimta skatta og tolla sé gerð umfangsminni.

Og svo þegar ég segi, að þetta frv. hér sé ekki það nauðsynlegasta, sem gera þurfi í þessum efnum, þá er talað til mín allharkalega, þó að ég sé á hinn bóginn ekkert að harma það, og það eftir að þessi þál. hefur verið gersamlega hundsuð árum saman. Og það er talin hálfgerð ósvífni, að ég skuli leyfa mér að láta í ljós, að þetta frv. sé meira til að sýnast en vera.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta öllu meir, en ég hef enn þá ekki fengið svarað þeirri spurningu, hvort nokkru ríki í heiminum muni vera stjórnað fjárlagalaust nema Íslandi. Svo einkennilegur er leikur örlaganna stundum, að það var hv. 2. þm. Árn., sem sagði, að ráðsmaður vær ekki settur neins staðar nema þar, sem húsbóndinn er fallinn frá. (Fjmrh.: Sumir hafa ráðsmann án þess.) Ég held þeir séu þá mikið lasnir.

Ég deili ekki á neinn sérstakan, en það er aðalatriði málsins, að ekki er hægt að neita því, að það verður aldrei nokkurt lag á fjármálum nokkurs ríkis, nema þar sem fjmrh. og ríkisstj. hafa fyrst og fremst forustuna og marka meginstefnuna og leggja brottför sína við, ef hún nær ekki fram að ganga. Í þessu er sjúkdómurinn fólginn, þetta hefur verið sjúkdómurinn í mörg ár, og þá kem ég að því aftur, að það vantar húsbóndann á heimilið. Skáldið hitti á rétta orðið.