10.03.1949
Efri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (3758)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að tefja þessa umr. með langri ræðu, en vil aðeins drepa aftur á það sama atriði sem ég minntist á við fyrri umr. málsins, þó að það sé ekkert höfuðatriði í málinu. Þetta atriði var nafnið á þessum eftirlitsmanni, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði skipaður. Það er ekki vegna þess, að mér þyki ráðsmaður ljótt orð. Nei, síður en svo. Hitt ræður minni afstöðu, að mér finnst nafnið ekki svara starfinu, sem þessum manni er ætlað. Ég tel, að ráðsmennirnir okkar séu ráðherrarnir á hverjum tíma, en þessi maður verður eftirlitsmaður á vegum fjmrh. Ég vek máls á þessu af því, að ég tel það smekklegra, en er ekki á nokkurn hátt að smækka eða stækka þann starfsmann, sem frv. gerir ráð fyrir, að skipaður verði, enda ætti að vera auðskilið, hvað ég á við. Hitt, að ég hef ekki flutt brtt. um þetta, er allt annað mál og leiðir af því, að ég taldi rétt að hreyfa málinu fyrst og vita, hvort þessi breyting ætti fylgi að fagna í deildinni, en tel hins vegar ástæðulaust að bera fram brtt., sem kannske fengi eitt atkvæði eða tvö. Ég sé svo ekki þörf frekari skýringa á þessu, en hefði sem sagt talið eðlilegra og smekklegra, að þessi starfsmaður yrði nefndur skrifstofustjóri eða eftirlitsmaður heldur en ráðsmaður.